Rennilás í báðar áttir
Marinó Pétur Sigurpálsson og Guðbrandur Kjartansson:
Föt þurfa að vera væn og hlý. Ég (G) er í hlýjum nærfötum, ýmist 66 gráður eða Akíl, sem mér finnst bezt, létt og mjúkt og með eindæmum hlýtt. Ég (M) er í bláum, norskum, sem hafa fengizt í Ellingsen. Við notum íslenzka ullarsokka. Við erum í reiðbuxum og skálmum úr leðri fremur en rúskinni, því að leðrið er liprara og léttara.
Við höfum lent í vöðum upp á mið læri, en skálmar og stígvél hafa haldið okkur þurrum. Mikilvægt er að bera vel á hvort tveggja og úða með rakaþétti.
Hér áður fyrr vorum við í vaxbornum reiðfrökkum, en í seinni tíð í hefðbundnum reiðúlpum eða goritex reiðúlpum, aðallega Mountain Horse.
Mikilvægt er, að rennilásinn gangi í báðar áttir og geti opnast að neðan, svo að þær rifni ekki. Ennfremur þarf að vera nóg af vösum. Mér (M) finnst bezt að vera í lopapeysu, en ég (G) nota fremur flísina. Vaxbornu frakkarnir duga stutt og fótaböndin slitna, þegar maður krýpur og stendur svo upp. Það sá verulega á þessum frökkum eftir hálfs mánaðar túr.
Ég (G) er með grábláa ullarvettlinga frá benzínstöðvunum og létta vettlinga að auki, en ég (M) er með tvenna leðurhanzka, aðra þunna og hina fóðraða.
Skálmarnar komu
og föðurlandið hvarf
Baltasar og Kristjana Samper:
Við höfum fyrst og fremst verið í mjúkum og góðum baðmullarnærfötum. Föðurlandið hvarf í hestaferðum, þegar skálmarnar komu til sögunnar. Konur þurfa að hafa breiða og þétta hlíra á brjóstahöldurum.
Við notum ekki rúskinnsskálmar, heldur leðurskálmar, sem við berum vel á fyrir hverja langferð. Undir skálmunum erum við í reiðbuxum. Þegar rignir, förum við utanyfir skálmarnar í regnbuxur, sem við höfum klippt skálmarnar af. Þær hlífa þá rassinum, sem skálmarnar gera ekki. Í trússinu eigum við líka til heilar regnbuxur, sem við teipum að neðan við stígvélin, þegar við þurfum að sundríða. Þá gyrðum við úlpuna ofan í buxurnar og bindum fyrir með snæri eða hnakkólum.
Árum saman riðum við í þunnum ullarskokkum frá Thorvaldsensbazarnum, en síðustu árin höfum við notað þykka austurríska sokka úr þæfðri alull fyrir stígvélin og sokka frá 66 gráðum norður með ull í hæl og tá fyrir skóna. Við skiptum gjarna um sokka á miðjum reiðdegi, ef hann er langur. Ég (Kristjana) er líka með einangrunarleppa úr ull og áli í botninum í stígvélunum.
Við notum lopapeysur og austurrískar peysur úr þæfðri alull, sama efni og er í sokkunum. Við viljum ekki flíspeysur, af því að þær þyngjast svo mikið, þegar þær blotna. Við höfum ekki enn fundið réttu vettlingana, þrátt fyrir áratuga leit. Við höfum meira að segja reynt silki. Okkur dreymir um, að einhvern tíma komi regnheldir goritex vettlingar á markað. Leður verður andstyggilegt, þegar það blotnar. Ullin er enn það skásta, sem ég (Kristjana) hef fundið. Baltasar ríður venjulega berhentur. Þegar rignir, er hann með þunna, svarta vettlinga með gúmdoppum. Á höfðinu erum við nú orðið alltaf með hjálma og stundum húfu undir þeim, ef kalt er í veðri.
Við höfum notað vatnsþéttar goritex úlpur í tvo áratugi. Síðan höfum við varla farið í þungar vaxkápur. Við höfum alltaf varaúlpu í trússinu til skiptanna, ef við komum hundblaut í náttstað. Við höfum að vísu líka vatnsgalla í trússinu til að nota í alveg ausandi rigningu. Mér (Baltasar) finnst bezt að vera í þunnri goritex úlpu og vera undir henni í vel loftræstu skotveiðivesti með mörgum vösum.
Nota ekki regnföt heldur
ástralskan olíufrakka
Einar Bollason:
Ég er svo heitfengur, að ég hef ekki verið í síðum, síðan ég fór að nota skálmar, en mæli hins vegar með þeim fyrir fólk, sem ekki er vant alls konar veðrum á hálendinu. Síðar nærbuxur varna líka gegn ýmiss konar nuddi. Sjálfur nota ég síðar á haustin, til dæmis þegar ég fer í göngur og þá hafa reynzt vel þessi norsku, bláu nærföt.
Ég hef nánast ekki farið í regnföt í þrjú ár. Ef til vill er farið að viðra betur en áður, en mér finnst þó, að leðurskálmar og síður frakki komi alveg í staðinn fyrir regnföt. Mér finnst hafa orðið gerbreyting til batnaðar með skálmunum. Svo er ég bara í skyrtu og flíspeysu undir frakkanum. Ég er alltaf í reiðbuxum undir skálmunum, síðustu árin í hlýrabuxum. Fiskroðið er svo óskaplega sterkt, að það sér ekki á því. Á fótunum er ég með ullarsokka. Oftast er ég berhentur, mér finnst það þægilegast, en hef ódýra ullarvettlinga í hnakktöskunni.
Ég nota ástralskan olíufrakka, en ekki þessa venjulegu vaxfrakka. Frakkar eru að vísu þungir og flaksa nokkuð, en mínir hestar eru vanir þeim. Þetta eru svo sem engin tamningaklæði, en ungir folar venjast þeim fljótt. Ég get líka hent mér niður hvar sem er, hvernig sem viðrar. Ég tek fóðrið úr frakkanum á góðum dögum á sumrin og hef það í hnakktöskunni. Ég hef frakkann oftast töluvert opinn að framan og get þá breitt hann yfir hnakkinn að aftanverðu, þannig að ég blotna síður í sætið, þegar rignir. Hins vegar er spurning, hvort ekki borgi sig að vera einnig í stuttum gúmbuxum í rigningu.
Stór neftóbaksklútur um hálsinn er ómissandi. Í rigningum aftrar hann vatninu að renna niður hálsinn. Í sandroki má setja hann yfir vitin.
Stagbætt góritex úlpa
Hannes Einarsson:
Ég er svo heitfengur, að ég nota ekki síðar, en á norskar í trússinu, ef veður yrði óvenjulega kalt. Ég nota hefðbundnar reiðbuxur og leðurskálmar utan yfir þær, nema búast megi við heitum degi. Ég hef notað bæði leðurskálmar og rúskinnsskálmar og finnst leðrið þjálla og léttara. Ég nota væna baðmullarsokka og stundum ullarsokka, ef kalt er. Yfirleitt er ég berhentur, en á leðurhanzka í trússinu.
Ég hef lengi átt þunna góritex úlpu, sem ég hef mikið notað og kann vel við, en er núna komin til ára sinna og mikið stagbætt. Þegar rignir, nota ég yfirleitt úlpuna og buxur af léttum pollagalla í stað skálmanna. Létta pollagallann reyri ég með leðurólum aftan á hnakkinn, oft með snúruhönk til að slá utan um hrossahópinn. Svo er ég með olíugalla í trússinu. Ég á líka hefðbundna reiðúlpu. Í gamla daga notaði ég íslenzka gæruúlpu, sem ég sé dálítið eftir. Ég tók stundum gæruna úr og notaði fyrir reiðvesti.
Samfestingur
Haraldur Sveinsson:
Ég nota þessi bláu, norsku nærföt, sem hafa fengizt hjá Ellingsen, þar á meðal síðar. Þau eru þægileg og valda ekki eins og ullin. Venjulega er ég í hefðbundnum reiðbuxum og tvennum sokkum, einum venjulegum og öðrum vænum ullarsokkum. Á höndunum hef ég þessa gulu, gamaldags vinnuvettlinga, sem seldir hafa verið áratugum saman.
Ég nota oft skálmar að vetrarlagi og þær geta stundum hentað í sumarferðalögum. Ef kalsalegt er í veðri, er ég farinn að vera í stórum samfestingi með leðurbótum eins og seldir hafa verið í hestavöruverzlunum. Þeir eru gærufóðraðir og hrinda nokkuð frá sér vætunni. Maður þarf að vera vel búinn á ferðalögum, því að allra veðra er von fyrirvaralítið. Síðan bílar fóru að fylgja hestamönnum nota ég síðan regnfrakka í hlýrra veðri.
Skálmar nota ég ekki
Andreas Bergmann:
Alla ferðadaga nota ég síð norsk nærföt, hvort sem er kalt eða heitt í veðri. Mér finnst þau þægileg og hlífa vel gegn nuddi, til dæmis innan á hnjánum. Svo ég ég í góðri skyrtu með vösum og reiðbuxur með leðurbótum, en skálmar nota ég ekki. Áður notaði ég ullarsokka, en upp á síðkastið fremur frotté-sokka, og hef nóg af þeim í farangrinum til skiptanna.
Sem yfirhöfn nota ég góða reiðúlpu með nægum vösum og innfelldu vesti. Í hlýju veðri get ég þá látið vestið nægja. Svo er ég með 66 gráðu galla aftan á hnakknum eða á trússhesti, því að annað kemur ekki að gagni, ef eitthvað fer að rigna í alvöru. Á höndunum er ég ýmist með leðurhanzka eða bláa ullarvettlinga, sem kosta lítið á benzínstöðvum. Þessir bláu eru að vísu ekki stamir á tauminn, en þeir eru hlýir í rigningu og kalsaveðri og auðvelt er að vinda þá.
Einangrunarskálmar
Valdimar K. Jónsson:
Ég er í hlýjum ullarnærfötum, sem einangra bæði gegn kulda og hita. Áður fyrr var ég í þessum síðu norsku, en upp á síðkastið hef ég verið í neopren einangrunarskálmum, sem mér finnst gera síðar nærbuxur óþarfar. Skálmarnar eru úr svipuðu efni og veiðivöðlur og einangra gegn raka. Þær hafa enzt vel, harðna ekki og þurfa ekki olíu eins og leðrið. Undir skálmunum er ég í venjulegum reiðbuxum.
Á höndunum er ég yfirleitt með hlýja vettlinga úr gerviefnum, þessa grænu og bláu, sem fást á benzínstöðvum. Þeir eru reyndar sleipir á taumum, en á móti kemur, að ég nota gúmkennda og stama tauma. 66 gráðu vatnsgalla tek ég fram að morgni, ef spáin er þannig, en annars ríð ég í úlpu, sem hrindir frá sér vatni, og tek vatnsgallann ekki með þann daginn. Úlpur þola þó ekki mikla rigningu, en maður lætur sig þá hafa það að blotna.
Vettlingar með doppum
fást á benzínstöðvum
Þormar Ingimarsson:
Ég nota norsku, bláu og þunnu nærfötin, hefðbundnar reiðbuxur, milliþykkar hosur og þykka flíspeysu, sem fer vel upp í háls. Á höndunum hef ég þunna vettlinga með gúmdoppum í lófanum, sem fást á benzínstöðvum. Þeir eru góðir á tauma og vindast vel, ef þeir blotna. Þeir eru ódýrir og ég tek svona tvö-þrjú pör með mér í ferðina. Stundum nota ég leðurskálmar, ef kalt er í veðri. Stóran tóbaksklút hef ég um hálsinn.
Ég er í hefðbundinni reiðúlpu, sem er hlýrri en þunnu úlpurnar úr sérstöku rakavarnarefni, enda verður oft kalt og vindasamt á fjöllum. Ég reiði hins vegar gulan 66 gráðu galla aftan á hnakknum og fer í hann allan, ef eitthvað fer að rigna að ráði. Ef hlýtt er í veðri, renni ég niður lásnum á úlpunni og peysunni og þá loftar vel milli klæða. Oft ríð ég í peysunni og bind úlpuna um mig.
Leðrið hlífir ótrúlega vel
Ólafur B. Schram:
Á ferðum er ég alltaf í síðum nærbuxum, sem ekki eru með saumi innan á. Þar utan yfir er ég í reiðbuxum. Þetta tvennt dugar samanlagt til varnar gegn nuddi. Ég nota ekki skálmar. Á höndunum hef ég þunna hanzka úr svínsleðri, af því að ég er innivinnumaður og get orðið sár á höndunum í jaskinu, sem fylgir hestaferðum. Leðurhanzkar eru alltaf heitir og liprir.
Ég er yfirleitt í kragamiklum bol, sem fer vel upp á hálsinn. Svo er ég í skyrtu með mörgum vösum, helzt fjórum. Þar utan yfir er ég í lopapeysu og síðan ágætlega fóðrað leðurvesti með háum kraga. Upprunalega var það jakki, sem ég tók ermarnar af og bætti við vösum. Leðrið hlífir mér ótrúlega vel.
Það er skrokkurinn, sem er viðkvæmur fyrir kulda, ekki handleggirnir. Ég er ekki í neinu utan yfir vestið, nema ég þurfi að fara í regngalla.
Reiðúlpa með teygjum
á úlnliðum og í mitti
Viðar Halldórsson:
Ég mæli með góðum, hlýjum og síðum nærfötum, því að búast má við öllum veðrum, bæði hlýjum og köldum. Síðu nærbuxurnar hlífa við nuddi. Ég er alltaf í góðum ullarsokkum. Ég er alltaf með leðurhanzka og leðurtauma.
Ég er oftast í reiðbuxum með miklum leðurbótum alveg upp á rass. Þar utanyfir er ég í leðurskálmum. Ég hef prófað bæði venjulegar og úr rússkinni. Ég kann vel við skálmar, því að maður er nánast hreinn undir þeim, þegar maður kemur í hús. Gallinn við skálmarnar er, að þær halda ekki vatni í miklum rigningum.
Ég nota vatnsheldan reiðjakka. Þar þurfa menn að passa sig dálítið, því að það er ekkert verra en að ríða gegnblautur heila dagleið. Það er ekki nóg að fara út í búð og kaupa yfirhöfn. Þær eru mjög misjafnlega vatnsheldar, hvort sem þær eru vaxbornar eða ekki. Gott er að vera í ófóðruðum, vatnsþéttum úlpum og klæða sig undir þær eftir aðstæðum.
Beztu reiðúlpuna keypti ég á Equitana, stutta ameríska, sennilega úr eins konar góritexi, sem var svo vatnsheld, að hún hélt í samfelldri rigningu heila dagleið frá Hagavatni að Dalsmynni í Biskupstungum. Þá blotnuðu margir, sem voru í 66 gráðum norður. Það gerði gæfumuninn, að ég gat reimað upp í háls og það var teygja á úlnliðunum og teygja í mitti.
Lopi er betri en flís
Árni Ísleifsson:
Ég er hættur að vera í ullarfötum og er farinn að nota þessi léttu og þægilegu, bláu nærföt. Þar utan yfir er ég í reiðbuxum með leðurbótum, en hef ekki verið með skálmar, þótt mér finnist þær ágætar. Á fótunum hef ég ullarsokka.
Ég hef lopapeysu með mér og fer í hana, ef ekki er heitt í veðri. Lopinn er betri en flísin, sem þyngist mikið, þegar hún vöknar. Yfirleitt er ég í hefðbundinni reiðúlpu. Svo hef ég regngalla bundinn aftan á hnakkinn. Ef ég er bara með gallann, þarf ég ekki púða undir hann. Yfirleitt er ég berhentur, en hef ullarbelgvetninga meðferðis.
Ullin er bezt
Bjarni E. Sigurðsson:
Sjálfur er ég í þykkum og rakadrægum polyester nærfötum frá 66 gráðum norður, þar með talið síðum nærbuxum. Eftir veðráttu vel ég milli baðmullarpeysu og lopapeysu. Ullin er raunar bezti klæðnaðurinn, en flestir eru hættir að nota hana næst sér. Ég er í reiðbuxum og alltaf skálmum utan yfir. Skálmar eru góð vörn gegn höggum og girðingum og hlífa fötum, svo að maður er oftast sæmilega til fara, þegar maður kemur inn í hús. Þykka sokka nota ég, oftast lopasokka, sem einangra vel. Á höndunum hef ég þunna leðurhanzka eða þunna vettlinga með gúmpunktum. Hvort tveggja er gott á tauma.
Um tíma reið ég í stórum, olíubornum regnfrakka, sem varði vel gegn regni. Ég hætti því fljótlega, enda lufsast þeir og flaksa og geta fælt hesta. Ég ríð því núna í loftdrægri reiðúlpu. Ég er alltaf með 66 gráðu vatnsgalla, ýmist í trússinu, ef veðurútlit er gott, eða sem eins konar fyllingu í járningatösku, ef útlitið er lakara. Þar sem ég er alltaf í skálmum, klippi ég neðan af vatnsbuxunum til að létta þær. Þá hlífa þær rassi og lendum, en skálmarnar sjá um fæturna. Mikilvægt er að draga ekki að fara í gallann, þegar fer að rigna, því að maður getur orðið gegnblautur á skömmum tíma. Svo er líka víða í skálum ekki gott að þurrka föt.
JK
(Hjalti Gunnarsson:
Ég nota mest þessi bláu norsku ullarnærföt, sem eru þægileg, og nota þau hvernig sem viðrar. Það er minna um, að ég noti síðar, frá því að skálmarnar komu til sögunnar. Þær voru mikil breyting til batnaðar í hestaferðum. Bæði hef ég notað skálmar úr leðri og rúskinni og geri ekki upp á milli þeirra. Undir skálmunum er ég í reiðbuxum með leðurbótum. Ég nota ullarsokka af sömu gerð og göngufólk notar.
Ég ríð yfirleitt berhentur, en nota stundum gráa fingravettlinga úr ull, sem ég hef í vasanum. Mest nota ég hefðbundnar reiðúlpur og nota undir þeim skotmannavesti, sem hafa mikið af vösum. Ég er alltaf með tvískiptan vatnsgalla í hnakktösku.
Jónas Kristjánsson skráði
Eiðfaxi 5.tbl. 2004