Risna í ríkiskerfinu er ekki of mikil í heild, en hins vegar ótrúlega og óheppilega misjöfn. Hún er ekki á þeim stöðum í kerfinu, þar sem hún kæmi að beztu gagni, í samskiptum Íslendinga við erlenda aðila.
Nokkrar umræður hafa orðið um risnuskýrsluna, sem fjármálaráðherra gaf alþingi á síðustu dögum þess í vor. Landsbankinn, sem er þar margfaldur og óvæntur risnukóngur, hefur veikum mætti reynt að verja sig, en fáa sannfært.
Ekki var sagt frá risnu embættis forseta Íslands í þessari skýrslu. Með lagi má þó lesa út úr fjárlögum ríkisins, að hún er ekki einu sinni hálfdrættingur á við risnu Landsbankans, Íslandsmeistara hins ljúfa lífs.
Nú mætti ætla, að þjóðin þurfi fremur á að halda mikilli risnu hjá þjóðhöfðingja landsins en hjá þeirri stétt, sem harðast þarf að verjast gjöfum matar, áfengis og laxveiði af hálfu lánaþyrstra viðskiptavina.
Erlendir ráðstefnugestir, sem margir hverjir skipta okkur töluverðu máli, eru yfirleitt alveg uppnumdir af ánægju og hrifningu, ef þeir fá tækifæri til heimsóknar að Bessastöðum. Sú risna mætti vera töluvert meiri.
Á Bessastöðum hafa Íslendingar bezt tækifæri til að sýna vantrúuðum gestum utan úr heimi, að menn kunni hér að halda á hníf og gaffli og aðra mannasiði, kunni dálítið til matargerðar og annarra þátta gestrisni.
Íslenzkir bankastjórar þurfa ekki að taka þátt í alþjóðlegum risnuleik stéttarbræðra, sem hreyfa sig þá aðeins úr stað, að þeir séu bornir á gullstóli. Risnuna á að taka af Landsbankanum og senda hana alla til Bessastaða.
Önnur öskubuska í risnukerfinu er utanríkisráðuneytið, sem hefur aðeins 40% meiri risnu en heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Hefur þó utanríkisráðuneytið margfalt meiri risnuskyldum að gegna, einkum gagnvart umheiminum.
Utanríkisráðuneytið er rétti staðurinn til að liðka fyrir samskiptum og viðskiptum okkar við útlönd. Það á að geta gegnt sama hlutverki fyrir atvinnu- og stjórnmálalífið og forsetaembættið fyrir menningarlífið.
Svavar Gestsson heilbrigðisráðherra hefur ekki reynt að verja ráðuneyti sitt eins og Jónas Haralz bankastjóri hefur árangurslaust reynt að þvo hendur Landsbankans. Gera má ráð fyrir, að risna þess sé að verulegu leyti óþörf.
Ráðuneyti, sem koma einkum fram gagnvart innlendum aðilum, þurfa ekki mikla risnu. Verulegan hluta hennar á að taka af þeim og senda inn í utanríkisráðuneyti, þar sem hugsanlegt er, að hún komi þjóðinni að gagni.
Risna æðstu stjórnar ríkisins og forsætisráðuneytisins getur líka hjálpað okkar unga lýðveldi í erfiðri siglingu þess um úfin höf alþjóðlegrar spennu, allt frá fiskveiðideilum yfir í deilur varnarbandalaga.
Samt er þessi risna rétt rúmlega hálfdrættingur á við risnu furðufugla eins og Landsvirkjunar og Rafmagnsveitna ríkisins, sem velta sér upp úr risnu, sem þeir hafa lítið við að gera. Hér má líka færa til risnu í kerfinu.
Risna er okkur nauðsynleg gagnvart útlöndum, þar sem hún er gamalgróin hefð. Hér innanlands er hins vegar óþarfi að búa til slíka hefð. Við getum vel kostað risnu hins opinbera, en viljum, að hún sé notuð á réttum stöðum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið