Rétt skal vera rétt

Greinar

Þegar ekki er gert, þegar gera á, vill framkvæmdin dragast og falla niður. Þetta þekkja margir húsbyggjendur vel. Ef tækifæri sjálfra byggingaframkvæmdanna er ekki notað til að ljúka þeim, getur farið svo, að endahnúturinn verði seint eða aldrei bundinn á þær.

Þannig er það líka í göngu þjóðanna fram eftir vegi. Við höfum oft fylgt í kjölfar Danmerkur og annarra Norðurlanda í nytsamlegri nýbreytni. En fari svo, að við missum af lestinni, verðum við oft að bíða án árangurs eftir annarri lest. Því höfum við enn sýslumenn.

Bandaríkjamenn eru heppnir að hafa notað tækifæri sjálfstæðis síns til að semja stjórnarskrá, sem tók mjög alvarlega ýmis grundvallaratriði, er voru mönnum þá ofarlega í huga. Þessi gamla forsenduharka lýsir nú leið þeirra um myrkviði kúrekanna í Hvíta húsinu.

Þegar Bandaríkjamenn sömdu stjórnarskrá sína og lögðu önnur drög að sjálfstæðu ríki, skildu þeir mjög kerfisbundið að hina nýuppgötvuðu þrjá meginþætti valdsins, framkvæmdavald, dómsvald og löggjafarvald. Þessi aðskilnaður varð þar skýrari en víðast hvar.

Við Íslendingar notuðum hvorki sjálfstæðið 1918 né lýðveldið 1944 til að veita grundvallaratriðum samskipta borgaranna innan ríkisins í farvegi, sem skynsamlegastir voru að beztu manna yfirsýn. Við höfum sífellt dregið að semja okkur nýja stjórnarskrá.

Við höfum eins og húsbyggjandinn komizt að raun um, að vel er unnt að búa í húsinu, þótt það sé ekki fullfrágengið. Þetta hefur á löngum tíma sljóvgað tilfinningu okkar fyrir því, að húsið er í raun ekki tilbúið til notkunar. Við búum því við ófullkomna stjórnarskrá.

Meðal augljósra vankanta á ríkiskerfi okkar er sameining framkvæmdavalds og dómsvalds í sýslumönnum og bæjarfógetum. Til stóð að kljúfa þetta sundur um svipað leyti og Danir lögðu niður sýslumenn. En einhverra hluta vegna varð ekki af því þá. Og stendur svo enn.

Í rauninni höfum við komizt sæmilega af með vankanta þennan. Sýslumenn og fógetar hafa í friði fengið að dæma fólk eftir vitnisburði undirmanna sinna í lögreglunni. Yfirleitt hafa þeir reynt að gera þetta af samvizkusemi. En enginn veit, hvenær það bregzt.

Rannsóknir í útlöndum hafa sýnt, að lögreglumönnum er ekki síður en öðrum hætt við að bera rangt fyrir dómi. Almennir borgarar eiga að njóta þess réttar, að kærumál lögreglunnar á hendur þeim séu þegar á fyrsta dómstigi alls ekki dæmd af sjálfum lögreglustjóranum.

Menn eru orðnir svo sljóir fyrir þessu, að jafnvel er þvælst fyrir með því að tala um, að skipting sýslumannsembætta sé of dýr. Er þó ekkert hægara en að stækka umdæmin úr sýslum í kjördæmi, þegar embættunum er skipt milli héraðsdómara og lögreglustjóra.

Einnig er þvælzt fyrir með því að segja menn geta að lokum náð rétti sínum hjá Hæstarétti. Það er hundarökfræði ráðuneytisstjóra dómsmála. Hann er með þessu að segja, að öllum málum, sem sýslumenn úrskurða, eigi í raun að bæta við málaflóð Hæstaréttar.

Íslendingar hafa ekki mikinn áhuga á nákvæmni í grundvallaratriðum. Til dæmis fékk Bandalag jafnaðarmanna lítinn hljómgrunn í stjórnmálum, þótt mörg helztu málefni þess fjölluðu einmitt um vandaðri lagningu ýmissa hornsteina á borð við aðskilnað valdsins.

Við erum svo sljó, að bezt er, að Evrópuráðið noti mál Jóns Kristinssonar til að þvinga okkur til að gera það, sem við áttum að vera búin að fyrir löngu.

Jónas Kristjánsson

DV