Réttar refsiaðgerðir

Punktar

Skynsamlegt var hjá utanríkisráðherra og einróma utanríkismálanefnd að standa við aðildina að vestrænum refsiaðgerðum gegn Rússlandi vegna Úkraínu. Samt ekki einfalt mál. Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið eru engir englar eins og kom í ljós í sumar. Þá réðist Nató óbeint á Kúrda og EBE á Grikki. Við skuldum afvegaleiddum samtökum engan stuðning. Rússland er þó annar kapítuli, réðist á annað ríki og lagði beinlínis hluta þess undir sig. Að virða ekki landamæri er verri glæpur en hinir óbeinu, jafnvel þótt Úkraína sé fasistaríki. Gunnar Bragi mátti fara gætilegar á sínum tíma, en nú væri rangt að bakka. Enda er Rússland Pútíns smám saman orðið ögrandi ógnun við heimsfriðinn. Grátandi kvótagreifum skuldum við engar skaðabætur vegna þessa, nóg hafa þeir rænt og ruplað þjóðina.