Frá Svartárkoti á Mývatnsheiðum að Blómsturvöllum við Skjálfandafljót.
Bárðargötu er hér lýst í sex dagleiðum. Þær eru, talið frá norðri: Réttartorfa, Öxnadalsdrög, Vonarskarð. Hamarskriki, Fljótsoddi og Bárðargata. Hér er þó ekki gert ráð fyrir, að Bárður hafi farið yfir Hverfisfljót uppi við jökul, sem þó er eins líklegt. Í þá daga hét Hverfisfljót Raftalækur og var ekki eins ógurlegt og núna. Gnúpa-Bárður nam Bárðardal og bjó að Lundarbrekku. Fann, að sunnanáttir voru hlýrri og þurrari en norðanáttir. Því ætlaði hann, að betri lönd væru sunnanlands. Sendi syni sína suður á góunni að kanna það. Þeir fundu gróður í Vonarskarði á þessum kalda árstíma. Þarnæsta vor lét hann hvert húsdýra sinna bera byrðar suður yfir og nam allt Fljótshverfi.
Förum frá Svartárkoti í 400 metra hæð eftir slóð suður frá bænum og síðan til suðvesturs framhjá afleggjara til suðausturs í Suðurárbotna og yfir Suðurá og síðan suðvestur að Skjálfandafljóti andspænis Hrafnabjargahlíð handan árinnar. Við förum meðfram ánni að fjallaskálanum í Réttartorfu. Við höldum áfram suður með fljótinu að eyðibýlinu Hafursstöðum. Á þessum slóðum er mikil jarðvegseyðing. Þaðan liggur Biskupavegur norðaustur Hafursstaðahlíð og síðan áfram um Suðurárbotna að Jökulsá á Fjöllum. Við förum áfram til suðurs og síðan upp múlann vestan við Sandmúla. Fljótlega mætum við slóð, sem kemur upp af vaði á Skjálfandafljóti við Kvíahraun. Við förum áfram suður á útsýnisstaðinn Víðskyggni í 740 metra hæð og síðan áfram beint í suður. Við Litladal komum við að afleggjara til vesturs niður að skálanum Blómsturvöllum í Öxnadal.
37,0 km
Þingeyjarsýslur
Skálar:
Réttartorfa: N65 15.524 W17 18.612.
Botni : N65 16.164 W17 04.061.
Stóra-Flesja: N65 18.407 W17 08.804.
Jeppafært
Nálægir ferlar: Svartárkot, Suðurá, Öxnadalsdrög.
Nálægar leiðir: Kráká, Suðurá, Dyngjufjalladalur, Biskupaleið, Suðurárhraun.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort