Réttlætið sigraði.

Greinar

Réttlætið hafði sigur á Falklandi rétt í þann mund, er síðasta og helzta blóðbaðið var að hefjast. Argentínska herliðið sýndi skynsemi, þegar kreppti að. Það gafst upp, þegar ósigur var vís fyrir brezku lokasókninni.

Mannfallið í þessu stríði nemur mörgum hundruðum, en hefði getað skipt þúsundum, ef umtalsverð átök hefðu orðið á landi. Vel undirbúin sókn Breta og síðbúið raunsæi Argentínumanna gerðu mannfallið minna en búast mátti við.

Margir spyrja vafalaust, hvort Bretum sé 250 fallinna sona virði að hafa aftur náð tangarhaldi á þessum 1.800 manna eyjum. Slíkar spurningar eru áleitnar í heimi friðarhreyfinga og endurvakningar kristilegra lögmála.

Flestir eru þó enn nógu raunsæir að viðurkenna, að ofbeldi í samskiptum þjóða og ríkja geti þvingað þann, sem fyrir því verður, til að grípa til vopna, rétti sínum og lífsháttum til varnar, jafnvel þótt mannslíf fari fyrir lítið.

Heimurinn væri ólíkur því, sem hann er nú, ef bandamenn hefðu ekki um síðir mannað sig upp í að standa gegn yfirgangi og útþenslu nasista. Þá voru færðar gífurlegar mannfórnir til að verja lífshætti vestrænnar mannréttindastefnu.

Ljóst er, að íbúar Falklands eru og vilja vera brezkir. Þeir kæra sig ekki um að verða þegnar í harðstjórnarríki argentínskra hershöfðingja, sem eru slík illmenni, að Kremlverjar eru eins og kórdrengir í samanburði.

Frelsun Falklands og upphitun brezka flotaveldisins eru eins og krepptur hnefi framan í alla harðstjóra heimsins, hvort sem þeir heita Galtieri, Brezhnev eða Obote. Hún er yfirlýsing um, að enn sé blóð í vestrænu kúnni.

Ef villimennirnir, sem stjórna Argentínu, hefðu haft sitt fram á Falklandi, mundu þeir bæði hafa treyst sig í sessi og fundið hvatningu til að halda áfram á sömu braut ofbeldis inn á við og út á við. Eftir því voru þeir að sækjast.

Tugir harðstjóra um allan heim biðu eftir, að Galtieri hershöfðingja tækist að sýna fram á, að bezt væri að taka með valdi það, sem mann langar í. Lexían hefur hins vegar orðið önnur í reynd, svo er þrjózku Breta fyrir að þakka.

Mikilvægast er þó, að Kremlverjum hefur óbeint verið bent á, að Vesturlönd eru ekki ein allsherjar friðarsæng nytsamra sakleysingja í Hyde Park, hæfilega þroskuð til að gleypa. Falklandsstríðið linar útþensluþrá Kremlverja.

Falkland er svo engan veginn úr sögunni, þótt Bretar hafi unnið orrustu. Þeir verða nú að halda þar úti setuliði fyrir 300 milljónir punda á ári. Og satt að segja er það of dýrt á erfiðum tímum að verja svo fjarlægar eyjar.

Svo lengi sem argentínskir hershöfðingjar þurfa að dreifa athygli kúgaðs lýðsins frá óstjórn og hryðjuverkum stjórnvalda, er alltaf hætta á, að ný atlaga verði gerð að Falklandi. Sigur Breta er engan veginn endanlegur.

Bezt væri því að nota friðinn til að koma á viðræðum um varanlega skipan mála, sem tekur tillit til, að Falkland kemst næst því landfræðilega að teljast suðuramerískur eyjaklasi og varðar því hagsmuni þar í álfu.

Ef Bretar vilja hins vegar fórna peningum um ófyrirsjáanlegan tíma til að tryggja Falklendingum það ríkisfang, sem þeir vilja, og þau mannréttindi, sem þeir vilja, þá eigum við ekki að lasta Breta, heldur hrósa þeim.

Jónas Kristjánsson

DV