Að vísu snýst landsdómur um sýknu eða sekt Geirs H. Haarde. En einnig voru væntingar til dómsins um að varpa ljósi á atburðarás í aðdraganda hrunsins. Minna varð úr slíku en efni stóðu til. Spurningar dómara voru ómarkvissar og þeir spurðu ekki út úr, heldur lásu bara af spurningalista. Sumt kom samt í ljós, einkum misræmi milli vitna. Ekki er það samt nóg til þess, að fólk fái á tilfinninguna, að réttlæti hafi verið þjónað. Landsdómur hreinsar ekki andrúmsloftið í samfélaginu. Menn munu áfram rífast um staðreyndir og menn munu áfram afneita staðreyndum. Réttlætingar halda áfram í stað réttlætis.