Réttmæt útboð.

Greinar

Undanfarna daga hafa þeir í fjármálaráðuneytinu setið með sveitta skalla og kutana á lofti. Þeir hafa barið ráðherrana til niðurskurðar og sparnaðar. Með góðu eða illu á að takast að leggja fram hallalaust fjárlagafrumvarp, án þess að nýjum sköttum verði bætt við.

Fátt eitt hefur spurzt út um einstök sparnaðaráform. Eflaust mun mörgum kerfiskarlinum bregða illilega í brún, þegar hann sér rekstur og fjárfestingar skornar niður við trog. Þá munu einhverjir reka upp ramakvein.

Eitt slíkt heyrðist um leið og fréttist af sparnaðarhugmyndum í heilbrigðiskerfinu. Ákveðið hefur verið að bjóða út ýmsa þjónustu á vegum ríkisspítalanna, þar á meðal mötuneyti og þvottahús.

Hlaupið er upp til handa og fóta, kyrjaðir stríðssöngvar yfir starfsfólki og hótað harkalegum viðbrögðum. Starfsmönnum þvottahúsa og mötuneyta er smalað á fundi, þar sem rekinn er harður hræðsluáróður. Uppsagnir eru sagðar vofa yfir hundruðum starfsmanna.

Von er, að starfsfólkinu bregði í brún og að það sjáist með áhyggjusvip við svo alvarleg tíðindi. Nú er það auðvitað ekkert gamanmál, ef rétt reynist, að hundruð manna missi vinnu og laun nánast fyrirvaralaust. Slíku tekur enginn með þögninni einni.

En sem betur fer er ekkert slíkt í uppsiglingu. Það eina, sem gerzt hefur, er, að ríkisstjórnin hefur ákveðið að bjóða út þá þjónustu, sem hér um ræðir. Hún vill vita, hvort til séu þeir aðilar, sem treysta sér til að veita þjónustuna fyrir minni kostnað.

Ef það er rétt, sem fullyrt er á framangreindum vinnustöðum, að ekki sé unnt að lækka rekstrarkostnað mötuneyta og þvottahúsa, þá þarf enginn að óttast neitt.

Ef tilboð bera það hins vegar með sér, að sparnaður sé framkvæmanlegur, þá hlýtur starfsfólk að geta unað því, enda felst rekstrarkostnaður allrar þjónustu í fleiru en launum einum.

Ennfremur hlýtur að vera ljóst, að engin ástæða verður til að hrófla við núverandi fyrirkomulagi, ef tilboðin reynast aðeins óverulega lægri en núverandi kostnaður.

Altjend er augljóst, að upplýsingar, sem fást úr tilboðunum, verða ríkjandi rekstrarformi til styrktar, ef þau verða hærri eða jafnhá. Þær eyða þá í eitt skipti fyrir öll þeim misskilningi, að rekstur þessara stofnana sé of dýr.

Ef á hinn bóginn kemur fram, að framleiða megi sjúkrafæði og annast þvotta sjúkrahúsa fyrir upphæðir, sem séu mun lægri en þær, sem nú tíðkast, verður ekki séð, hvernig ríkisstjórn eða starfsliði sé stætt á að koma í veg fyrir sparnað.

Skattborgarar geta ekki tekið því með þögninni, að bruðlað sé með opinbert fé á þann hátt, að rekstrarformi sé ekki breytt, þótt breyting jafngildi lægri útgjöldum ríkissjóðs. Flest viljum við borga minni skatta. Flest viljum við minnka óþörf umsvif.

Flest viljum við, að ríkið gangi á undan með góðu fordæmi. Ríkisfyrirtæki mega ekki hafa leyfi til að halda uppi atvinnubótavinnu fyrir meira fé en þarf til þjónustunnar, eins og aðrir geta rekið hana.

Hvernig sem á mál þetta er litið, er ekki eðlilegt að gagnrýna, að útboða sé leitað. Hver eftirleikurinn verður, fer auðvitað eftir tilboðum. Við skulum anda rólega á meðan. Ramakveinin mega bíða síðari tíma.

Jónas Kristjánsson.

DV