Reykholt er reginhneyksli

Greinar

Snorralaug er merkasta mannvirki okkar. Við eigum fornleifar á borð við Valþjófsstaðahurð og Þórshamar, en Snorralaug er eina heila mannvirkið, sem er að minnsta kosti átta hundruð ára gamalt. Þótt hún hafi stundum verið endurhlaðin, bendir allt til að stíllinn sé óbreyttur og steinninn sá sami.

Mannvirki, sem ætti að vera í skjaldarmerki okkar, húkir bak við afturgafl gamla skólans í Reykholti, þar sem hávaðasamur útblástur loftræstikerfis rýfur kyrrðina. Skólinn var reistur þarna, af því að þar var fjósgrunnur og hvorki arkitekt né ráðherra þess tíma höfðu skilning á fornminjum.

Skóli Guðjóns Samúelssonar kann að vera gott mannvirki út af fyrir sig, en á þessum stað er hann fyrsta og versta ögrunin við Snorralaug. Hann gefur forskrift að síðari mannvirkjum, sem kunna einnig að vera góð út af fyrir sig, en eru ekki í neinu samræmi við það, sem alltaf hefur verið á staðnum.

Nú er gamla kirkjan í miðpunkti Reykholts, rétt slapp við að vera rifin í æði nútímans. Kringum hana eru mannvirkin og snúa öll rassi í laugina, skóli, ný kirkja og hótel. Þessi mannvirki horfa hvert í sína áttina, hvert í sínum stíl, hvert um sig í algeru tillitsleysi við Snorra Sturluson.

Við skulum ekki tala um innihald húsanna. Ekki um furðulegt safnið í kjallara kirkjunnar og enn síður um hótelsafnið, sem er eins konar blanda af Tolkien, Freyjukynórum og ást Hitlers á meintri fortíð Germaníu. Það er pottur af rugli, sem kemur hvorki við Konungasögum Snorra né Eddu hans.

Til þess að finna minjar um Snorra og fortíð sagnamennsku Íslendinga, þarf að ganga bak við nýju Star Wars kirkjuna, ganga fram með anddyri skólans, fara niður tröppur og ganga meðfram langhliðinni unz komið er að afturgaflinum, þar sem hávaðasöm loftræsting fretar af fullum krafti í laugina.

Hjá siðuðu fólki væri Snorralaug miðja svæðisins og önnur mannvirki mundu lúta þeirri miðju. Hér hefur hins vegar orðið svipað slys og á landspítalalóðinni, að hver arkitekt á fætur öðrum kom til skjalanna og reisti minnisvarða um sjálfan sig án nokkurs tillits til sögulegra aðstæðna.

Réttast væri að rífa alla þessa móðgun; skóla, nýja kirkju og hótel, og hanna svæðið að nýju með Snorralaug í miðju, eina mannvirkið á staðnum, sem skiptir þjóðina nokkru máli.

DV