Frá Reykhólum vestur fyrir Reykjanesfjall að Kinnarstöðum í Þorskafirði.
Reykhólar eru fornt frægðarsetur. Þar nam land Úlfur skjálgi og höfðu niðjar hans Reyknesingagoðorð. Þekktastir fornmanna á Reykhólum voru Þorgils Arason og Ingimundur prestur Einarsson. Kolbeinn ungi lét hér vega Tuma Sighvatsson. Á 15. öld bjó hér Guðmundur ríki Arason. Sonur hans, Andrés Guðmundsson, hertók staðinn af þeim bræðrum Birni ríka Þorleifssyni og Einari Þorleifssyni. Síðar gerði Einar árás á staðinn. Andrés var þar fyrir með fallbyssu og lét skjóta á lið Einars. Þetta var fyrsta notkun fallbyssu á Íslandi. Frá þessu segir í skáldsögunni Virkisvetri eftir Björn Th. Björnsson. Kinnarstaðir eru kenndir við Þuríði drykkinn, vinkonu Gull-Þóris. Þar er Hesthólmi í firðinum. Þar kom á land hestur Þóris Kinnskær, sem hafði synt yfir Þorskafjörð, og var drepinn í hólmanum.
Förum frá Reykhólum vestnorðvestur að Brandsstöðum. Fylgjum fyrir bílvegi norðvestur að Stað. Síðan norður um Biskupskleif á strönd Þorskafjarðar og austur með ströndinni um eyðibýlið Hlíð að þjóðvegi 60 við Kinnarstaði.
23,3 km
Vestfirðir
Nálægar leiðir: Hafrafell, Laxárdalsheiði, Reykjanesfjall, Vaðalfjöll, Barmahlíð, Vaðalfjallaheiði.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort