Frá Nesstofu í Blesugróf.
Leið þessi er tæpast fær hestum nú á dögum vegna umferðar, nema þá í lögreglufylgd.
Frá Læknum voru farnar Arnarhólstraðir á ská yfir núverandi Arnarhólstún og áfram, þar sem er Prentarafélagshúsið við Hverfisgötu. Þaðan lá leiðin á Skólavörðuholt. Þar voru beitarhús frá Arnarhóli, en undir aldamótin 1800 notuðu skólasveinar úr Hólavallaskóla efnið úr þeim til að reisa Skólavörðuna við gömlu göturnar. Þaðan lágu þær milli Norðurmýrar og Vatnsmýrar að vörðunni Háaleiti í skarði milli Öskjuhlíðar og Minni-Öskjuhlíðar. Síðan austur Bústaðaholt nánast eins og Bústaðavegur liggur í dag, að vöðum á Elliðaánum. Inn undir Elliðaám sunnan megin við veginn stóð bærinn Bústaðir. Yfir Elliðaár lá leiðin um vað fyrir ofan Búrfoss og síðan yfir Ártúnsvað, sem er á eystri ál Elliðaánna. Þaðan svo fyrir sunnan Ártún og um Reiðskarð suður og vestur á land.
Förum frá Nesstofu austur Neströð, suður Nesbala, austur sömu götu, suður Lindarbraut, austur Hæðarbraut, yfir Valhúsahæð, þar sem heitir Læknisgata, austur Kirkjubraut og suður Nesveg. Hann förum við næstum að Vegamótum og beygjum þar norður Grænumýri, síðan austur Tjarnarbraut og Frostaskjól, eftir gönguleið hjá KR-velli, austur Álagranda og Framnesveg. Næst suðaustur Vesturgötu, norður Grófina, austur Geirsgötu, yfir hornið á Arnarhóli, suður Ingólfsstræti, austur Bankastræti og suðaustur Skólavörðustíg og Eiríksgötu. Þá suður Snorrabraut og Bústaðaveg, sem við förum alla leið að horni hans og Reykjanesbrautar, þar sem eru hesthús gamla Fáks. Þaðan liggur leið upp Elliðaárdal.
10,5 km
Reykjavík-Reykjanes
Borgargötur
Nálægir ferlar: Elliðaárdalur.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas KristjánssonFrá Nesstofu í Blesugróf.