Borgarstjórn Reykjavíkur hefur sem stór eignaraðili Landsvirkjunar tekið af skarið um, að farið verði gætilegar en hingað til í ráðagerðum um stórvirkjun á Austurlandi. Undirbúningur hennar verði vandaðri og tekið verði meira tillit til hliðarverkana á umhverfið.
Eftir samþykkt borgarstjórnar má gera ráð fyrir, að umhverfisáhrif virkjunarinnar verði rannsökuð miklu betur en hingað til. Niðurstöðurnar verði síðan kynntar almenningi rækilega, væntanlega á svipaðan hátt og Reykjavíkurborg kynnti flugvallarmálin í vetur.
Eftir samþykkt borgarstjórnar má gera ráð fyrir, að vandaðri arðsemisútreikningar verði gerðir um alla einstaka þætti málsins. Í þeim verði tekið tillit til áhrifa þeirra á umhverfi og náttúru, svo sem margsinnis hefur verið lagt til, en ekki verið hlustað á til þessa.
Mat á verðgildi ríkisábyrgðar er stór þáttur, sem hingað til hefur skort í útreikningum undirbúningsaðila. Í frjálsu markaðskerfi eru ábyrgðir á lánum metnar til fjár. Sá, sem veitir ábyrgð, fær í sinn hlut helminginn af mismun vaxta af lánum með ábyrgð og án ábyrgðar.
Hingað til hafa menn komizt upp með að skuldbinda ríkissjóð í þágu sérhagsmuna. Sá tími spillingar á að vera liðinn fyrir löngu. Ef ríkissjóður tekur fyrir hönd allra skattgreiðenda ábyrgð á stórframkvæmdum hlutafélaga, á hann að fá eðlilega ábyrgðarprósentu í sinn hlut.
Gersamlega marklausir eru allir arðsemisútreikningar, sem ekki gera ráð fyrir eðlilegum kostnaði af ríkisábyrgð. Sömuleiðis eru gersamlega marklausir allir arðsemisútreikningar, sem byggjast á leynilegu mati hlutafélags á verðinu, sem það telur muni fást fyrir söluvöruna.
Engin sátt getur náðst í þjóðfélaginu um útreikninga, sem ekki eru gegnsæir. Ef stærsti liður þeirra, söluverð orkunnar, er leyndarmál, þá eru útreikningarnir sjálfir marklausir frá grunni. Hlutafélag með slíkt viðskiptaleyndarmál á ekki að væla sér út ábyrgð ríkissjóðs.
Þegar búið er að taka tillit til greiðslu Landsvirkjunar fyrir ríkisábyrgð og gera arðsemisútreikninga Landsvirkjunar gegnsæja, er enn eftir að bæta við kostnaðinn greiðslum Landsvirkjunar til þjóðfélagsins vegna skaðlegra áhrifa virkjunarinnar á umhverfi og ferðaþjónustu.
Gerð hefur verið tilraun til að meta umhverfisskaða Kárahnjúkavirkjunar til fjár með því að spyrja fólkið í landinu, hvað það vilji borga í auknum sköttum til að vernda landið fyrir ágangi Landsvirkjunar. Niðurstaða athugunarinnar nemur 400 milljónum króna á ári.
Þjóðin er sjálf til í að greiða 400 milljónir króna á ári til að eiga svæðið norðan Vatnajökuls sem þjóðgarð. Þetta verð ber Landsvirkjun að greiða þjóðinni á hverju ári og bæta þeim kostnaði við arðsemisútreikninga. Að öðrum kosti eru þeir reikningar marklausir með öllu.
Aðeins ágizkanir eru enn til um tjón ferðaþjónustunnar af spjöllum á þessu svæði. Það er annað reikningsdæmi en dæmi þjóðgarðsins hér að ofan og niðurstöðurnar hrein viðbót við heildardæmið. Enn hefur þessi þáttur dæmisins ekki verið metinn til fjár á fræðilegan hátt.
Hér að ofan hafa verið rakin nokkur dæmi um, að núverandi arðsemisútreikningar Landsvirkjunar vegna Kárahnjúka eru út í hött. Hagfræðingar hafa bent á fleiri þætti, svo sem vanmat áhættuálags í ávöxtunarkröfu í þessum útreikningum og vísa til slíks álags í Noregi.
Þegar menn eru komnir á bólakaf í illa grundaðar ráðagerðir um stórvirkjanir, er gott, að einn opinber aðili, Reykjavíkurborg, vilji loksins stinga við fótum.
Jónas Kristjánsson
DV