Reykjavík og Rómaborg

Greinar

Þegar litið er yfir mannkynssöguna, er hægt að halda fram, að verkfræðingar hafi bætt heilsu þjóða meira en læknar hafa gert. Hreinlætismannvirki hafa frá ómunatíð verið áhrifamesti heilsugjafi fólks. Stórveldi Rómar reis á flóknu og frægu kerfi vatnsriða og holræsa.

Eitt merkasta mannvirki á Íslandi hefur að hálfu verið tekið í notkun. Holræsakerfi Reykjavíkur er hreinlætisbylting, sem þarf að verða fordæmi öðrum sveitarfélögum, sem veita úrgangi sínum út í læki og ár, hafnir og fjörur og bjóða þar til veiru- og sýklaveizlu.

Enginn vafi er á, að heilsa fólks mun batna á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum. Framkvæmdin er bylting, sem er hliðstæð hinu fræga Cloaca Maxima í Rómaborg fornaldar. Veirur og sýklar munu ekki lengur fjúka í hvassviðrum úr fjörum um borg og bý.

Framtak Reykjavíkur nær í þessum áfanga til Garðabæjar, Kópavogs og suðurstrandar Reykjavíkur allt til Örfiriseyjar. Að tveimur árum liðnum verður norðurstönd borgarinnar komin inn í kerfið, allt til Korpúlfsstaða. Sóðafjörur svæðisins munu hreinsast.

Afdrifaríkasti þáttur kerfisins eru tvær hreinsistöðvar, sem sía úrgang frá skolpinu. Þær valda því, að miklu mildara skolp fer í sjóinn en áður var. Stöðin við Ánanaust var tekin í notkun í þessum mánuði og stöðin við Laugarnes verður tekin í notkun eftir tvö ár.

Hinn mikilvægi þátturinn eru skolpleiðslurnar, sem liggja á hafsbotni fjóra kílómetra á haf út, þar sem hreinsað skolpið rennur úr þeim á 35 metra dýpi. Það er því ekki aðeins, að heildarmengunin minnki stórlega, heldur nær hún aldrei ströndum borgarinnar.

Brosleg uppákoma varð í fréttatíma Stöðvar tvö fyrir nokkrum dögum, þegar rökheldur málflutningsmaður undir gæru fréttamanns kallaði til formann félags smábátaeigenda, sem sagði, að grásleppukarlar hefðu kynnt sér framkvæmdina og væru sáttir við hana.

Hinn rökheldi tók ekkert mark á trillukarlinum, heldur margspurði hann, hvort ekki væri verið að eitra fyrir grásleppuna. Fréttin var kynnt á undan og eftir sem eins konar hneyksli, þar sem mengun væri flutt af einum stað á annan, en ekki minnzt á hreinsunina.

Ekki er og ekki verður deilt um ágæti framtaks Reykjavíkur. Munur stjórnar og stjórnarandstöðu er sá einn, að stjórnarandstaðan vildi ekki fjármagna það með sérstöku holræsagjaldi, heldur fara hægar í sakirnar og draga til jafns úr öðrum framkvæmdum og rekstri.

Á sama tíma og Reykvíkingar, Seltirningar, Kópavogsbúar og Garðbæingar hafa stigið inn í 20. öldina í hreinlætismálum sínum veður landsbyggðin meira eða minna í skít. Sums staðar er verið að gera áætlanir til úrbóta, en framkvæmdir eru víðast af skornum skammti.

Búast má við, að Akureyri og Hafnarfjörður feti í fótspor bæjarfélaganna, sem lengst eru komin, svo og Blönduós og Hofsós. Annars staðar eru ráðagerðir skammt á veg komnar eða metnaðarlausar, enda hefur hreinlæti lengi verið í litlum metum hér á landi.

Til sveita eru nánast engar marktækar kröfur gerðar um frárennsli, nema helzt frá sumarbústöðum. Rotþrær koma að takmörkuðum notum, því að mikil gerlamengun fylgir þeim. Meiri hreinsun þarf að verða til að fullnægja hreinlætis- og heilsusjónarmiðum nútímans.

Sveitarstjórnarmenn halda að sér höndum og segja hreinlætið of dýrt. Eftir framtak Reykjavíkur sker samanburðurinn í augu og erfiðara verður að yppta öxlum.

Jónas Kristjánsson

DV