Hún var sigur Sjálfstæðisflokksins, ekki Samfylkingarinnar eða Vinstri grænna. Skoðanakönnunin um fylgi flokkanna í borgarstjórn gaf Sjálfstæðisflokknum 41% fylgi, mest fylgi allra flokka. Þetta nægir að vísu ekki til nýs meirihluta, enda er slík útkoma ólíkleg um alla fyrirsjáanlega framtíð.
Í ríkisstjórn hefur Sjálfstæðisflokkurinn komið rustalega fram við fólk, haldið með hinum ríku á kostnað hinna smáu, reynt að afhenda kolkrabbanum ríkisfyrirtæki, ráðizt að mannréttindum og náttúru Íslands, veitt embætti út í hött. Hann á skilið 20% fylgi í félagslega sinnaðri höfuðborg.
Framsóknarflokkurinn fékk hins vegar nákvæmlega það, sem hann á skilið í borginni, 4% fylgi, algeran botn. Þetta er hreint hagsmuna og þakkargerðarfylgi, sveit þeirra, sem ráðherrar flokksins hafa fyrr og síðar útvegað stóla og stöður hjá hinu opinbera. Þetta eru bara flokkskvígildin.
Kjarnaflokkar Reykjavíkurlistans fá minna fylgi en ella í þessari könnun, af því að þeir hafa staðið sig illa á nokkrum afmörkuðum sviðum. Einkum hafa þeir verið úti að aka í skipulags- og gatnagerðarmálum, þar sem illræmdust eru Hringbrautin og mót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.
Sjálfseyðing Reykjavíkurlistans lyftir Sjálfstæðisflokknum upp í 41% fylgi. Við venjulegar aðstæður, þar sem listinn gæfi engan eða lítinn höggstað á sér, væri fylgi flokks, sem lýtur á landsvísu forustu með ítölsku fasistasniði, ekki nema helmingur af þessu í félagslega sinnaðri höfuðborg.
Reykjavíkurlistinn er búinn að vera. Landsforusta Framsóknar veitti honum náðarhöggið í deilunni um nýjan borgarstjóra. Ekki er ástæða til að gráta það, því að listinn var barn síns tíma og hefur verið of lengi við völd, er orðinn fullur hroka eins og ríkisstjórnin, sem líka hefur setið of lengi.
Samkvæmt skoðanakönnuninni mundu Samfylkingin með fimm fulltrúa og Vinstri grænir með þrjá fulltrúa mynda næsta meirihluta í borginni. Hugsanlega yrði það með stuðningi eins fulltrúa Frjálslynda flokksins, sem hefur hingað til staðið nálægt meirihlutanum í flestum borgarmálum.
Ef sameiginlegt borgarstjóraefni Samfylkingar og Vinstri grænna verður valið af viti, mun það tryggja völd þessara tveggja flokka í borginni á næsta kjörtímabili. Þeir hafa nægan tíma til að finna slíkt efni og eru ekki haldnir nógu mikilli sjálfseyðingarhvöt til að fatast að finna það.
Á landsvísu er Framsókn orðin rammt hægri sinnuð. Eðlileg afleiðing þess er, að hún hverfi úr vinstra samstarfi í borginni. Þannig skerpast pólitískar línur hér á landi.
Jónas Kristjánsson
DV