Reynt að stela innviðunum

Greinar

Flestum finnst eðlilegt, að samfélagið eigi sjálft helztu innviði sína, svo sem samgöngumannvirki á borð við vegi, hafnir og flugvelli, þótt aðrir eigi tækin, sem nota innviðina, svo sem bíla, skip og flugvélar. Slík mannvirki eru raunar einn af hornsteinum ríkisvaldsins.

Sárafáar undantekningar eru til. Hvalfjarðargöng voru talin áhættusöm framkvæmd og því var hún afhent einkaaðilum með þeim skilmálum, að mannvirkið rynni til ríkisins að liðnum ákveðnum úreldingartíma fjárfestingarinnar. Göngin verða því ríkiseign að lokum.

Stundum gleyma menn, að símakerfi landsins er að hluta samgöngumannvirki á borð við vegi, hafnir og flugvelli. Burðarlínur símakerfisins eru raunar engu ómerkari en helztu mannvirki annarra samgönguþátta. Þær ætti ekki að láta í hendur fyrirtækja úti í bæ.

Ljósleiðarakerfi landsins er burðarás síma, tölvusamskipta og sjónvarps. Það var að meirihluta kostað af varnarliðinu á Keflavíkurvelli til að tengja völlinn við eftirlitsstöðvar í öllum landshornum og er þannig um leið sjálft æðakerfið í öryggismálum landsins.

Landssíminn er öðrum þætti þjónustufyrirtæki, sem notar ljósleiðarana í samkeppni við önnur fyrirtæki, sem vilja veita þjónustu í síma, tölvusamskiptum eða sjónvarpi. Þetta er það, sem þarf að skilja í sundur, þegar þjónustuhlutverk Landssímans verður einkavætt.

Við þurfum að eiga sérstaka ríkisstofnun utan um ljósleiðarana, þótt við gefum allt frjálst í umferðinni um þá, rétt eins og ríkið á vegina og veitir öllum frjálsan aðgang að þeim. Við megum ekki vera upp á einkavædda einokun komin á þessu mikilvæga samgöngusviði.

Landssímann má alls ekki selja sem einn einokunarpakka. Skilja verður milli ólíkra rekstrarþátta hans og selja símaþjónustuna sér og margmiðlunina sér, en halda stofnæðakerfinu eftir í sérstakri stofnun, sem hefur samgöngu- og öryggisskyldur ríkisins á herðunum.

Ástæða er til að óttast, að ríkisstjórnin sé höll undir hugmyndir um söluferli, sem leiði til þess, að ríkiseinokun breytist í einkaeinokun. Stofnaður hefur verið sérstakur Íslandssími, sem ekki keppir í þjónustu, heldur bíður færis að kaupa sig inn í Landssímann.

Einn helztu ráðamanna Íslandssíma sat í framtíðarnefnd Landssímans og nú hefur stjórnarmaður Íslandssíma verið gerður að framkvæmdastjóra Landssímans. Við sjáum þegar fyrir okkur ferli, þar sem Landssíminn verði einkavinavæddur upp á rússnesku.

Ef ráðagerð þessi tekst, verður það meiriháttar framsal landsréttinda í hendur einkaaðila og minnir helzt á framsal auðlinda sjávar í hendur sægreifanna. Munurinn er sá, að auðlindaframsalið var margra ára ferli, en símann hyggjast menn fá með einum hælkrók.

Þjóðin er svo upptekin af brauði og leikjum, að hún hefur ekki mátt til að skipta sér af þessu. Hún reynist í skoðanakönnunum vera andvíg framsali auðlinda sjávar í hendur sægreifanna, en hefur ekki burði til að taka afleiðingum skoðana sinna í einrúmi kjörklefans.

Einkavinir ríkisvaldsins hafa tekið eftir auðnuleysi íslenzkra kjósenda, sem láta allt yfir sig ganga, ef þeir fá bara brauð og leiki. Kolkrabbinn gengur því hreint til verks að þessu sinni og ætlar sér að eignast og einoka ljósleiðarakerfi landsins með einu pennastriki.

Enn er tími til að átta sig á nýrri birtingarmynd einokunarinnar og rísa gegn framsali landsréttinda í samgöngum eins og í auðlindum lands og sjávar.

Jónas Kristjánsson

DV