Reynt að vinna friðinn

Greinar

Bush Bandaríkjaforseti hefur látið falla orð, sem benda til, að hann og stjórn hans átti sig á, að mun erfiðara verður að vinna friðinn heldur en stríðið, sem var undanfari friðarins. Hann hefur meira að segja sagt, að Ísrael verði að láta af hendi land fyrir frið.

Stríðsbandalag Vesturveldanna við nokkur öflugustu ríki íslams, Egyptaland, Sýrland og Saúdi-Arabíu, hefur rofið skörð í bandaríska varnarmúrinn um þrengstu sérhagsmuni Ísraels. Í náinni framtíð má búast við mun betra jafnvægi í bandarískri Palestínustefnu.

Bandaríkin geta þrýst á Ísrael með því að hætta að halda ríkinu uppi með peningum og hergögnum, svo sem þau hafa gert hingað til. Ef bandaríski stuðningurinn hverfur, stendur hryðjuverkastjórn Yitzhak Shamir í Ísrael berskjölduð í stjórnlausri frekju sinni.

Stærsta vandamálið í Miðausturlöndum hefur lengi verið skilyrðislaus stuðningur Bandaríkjanna við Ísrael, á hverju sem þar hefur gengið. Áróðurs- og ímyndastofnunin Aipac hefur, í þágu Ísraelsríkis, löngum haft heljartök á bandarísku almenningsáliti.

Ef þessi fjötur rofnar, er unnt að undirbúa, að Bandaríkin, Egyptaland, Sýrland og Saúdi-Arabía semji við Ísrael á svipaðan hátt og Egyptaland gerði fyrir nokkrum árum og að Ísrael skili Palestínumönnum aftur landi, sem það tók af þeim í síðasta stríði.

Í þessum tilfæringum er brýnt, að Palestínumenn friðþægi fyrir stuðninginn við óargadýrið í Bagdad með því að fórna Jasser Arafat og koma sér upp nýrri forustu, sem ekki hefur óhreinkazt af Saddam Hussein. Arafat veðjaði á rangan hest og verður að hætta.

Margt bendir einnig til, að Bandaríkjastjórn átti sig á, að hún verður að fara gætilega í stuðningi við hina nýju bandamenn sína í löndum íslama. Hún hefur þegar tekið á beinið emírinn í Kúvæt og sagt honum, að hann og ætt hans þurfi að veita Kúvætum aukið lýðræði.

Fremur sennilegar upplýsingar benda til, að ættmenn emírsins í Kúvæt hafi komið á fót dauðasveitum til að drepa andspyrnumenn, sem börðust gegn hernámsliði Saddams Hussein og kæra sig síður en svo um að fá afturhaldsstefnu emírsins á bakið á nýjan leik.

Emírinn í Kúvæt er svipuð söguskekkja og kóngurinn í Saúdi-Arabíu og aðrir sjeikar á Arabíuskaga. Ef Vesturveldin halla sér um of að þessu sællífisliði, munu þau um síðir uppskera óbeit arabísks almennings, sem fyrr eða síðar heimtar vestræn lýð- og mannréttindi.

Meiri óvissa er um velgengni stefnu Bandaríkjanna gagnvart Írak. Gegn vilja Breta og Frakka hleyptu Bandaríkjamenn herliði Íraks í gegn án þess að taka af því vopn. Þessi vopn eru nú notuð til að bæla niður uppreisnir gegn Saddam Hussein víðs vegar um Írak.

Bandaríkjastjórn hefur með þessu tekið mikla áhættu. Hún þykist þess fullviss, að Írakar muni velta Saddam Hussein úr sessi. Hún veit, að betra er, að þeir geri það sjálfir heldur en að útlendingar geri það. Þeim mun minni líkur eru á, að hann verði píslarvottur.

Jafnframt er Bandaríkjastjórn að reyna að koma í veg fyrir, að uppreisnarmenn sjíta í Írak verði allsráðandi í landinu. Hún óttast eins og súnnítar á Arabíuskaga, að þeir muni halla sér að trúbræðrum sínum í Íran og verða andsnúnir súnnítum og Vesturlöndum.

Bandaríkjastjórn má ekki truflast um of af hagsmunum kónga og emíra á Arabíuskaga, sem vilja ekki lýðræði í Írak, heldur nýjan og vinveittari harðstjóra.

Jónas Kristjánsson

DV