Reynt að vitka Reagan.

Greinar

Ráðamenn í Mexíkó, Kólumbíu, Venezúela og Panama hafa tekið saman höndum um að reyna að koma á sáttum milli stríðandi afla í smáríkjum Mið-Ameríku og reyna að fá stjórn Bandaríkjanna ofan af stuðningi við hægri öfgaöfl landeigenda.

Þeir hafa fengið til liðs við sig Felipe Gonzales, hinn unga og vel metna forsætisráðherra Spánar. Hann hefur átt viðræður við Reagan Bandaríkjaforseta, sem ber hluta ábyrgðarinnar á, hve illa þessi mál standa.

Sögur eru á kreiki í Washington um, að tilraunirnar hafi borið nokkurn árangur. Bandaríkjastjórn sé til dæmis í kyrrþey að reyna að koma á samstarfi við uppreisnarmenn í El Salvador um þátttöku þeirra í kosningum.

Ef þetta er rétt, stangast það blessunarlega á við hörmulega róttækar yfirlýsingar Bandaríkjastjórnar um stuðning við ógnarstjórnina í El Salvador og um meintan kommúnisma þeirra afla, sem risið hafa gegn henni.

En ástæða er til að óttast, að sögusögnum um rénandi einstrenging Bandaríkjastjórnar sé ætlað að draga úr andstöðu meirihluta bandarísku þjóðarinnar og bandaríska þingsins við kúgunarstefnuna gegn alþýðu manna í Rómönsku Ameríku.

Í stórum dráttum eru átökin í Mið-Ameríku og raunar víðar í Rómönsku Ameríku milli hægri sinnaðra öfgaafla landeigenda annars vegar og alls litrófs stjórnmálanna hins vegar, allt frá kommúnistum yfir í kristilega demókrata.

Þáttaka bandarískra stjórnvalda í þessari togstreitu er ein samfelld harmsaga. Það voru til dæmis bandarískir landgönguliðar, sem komu í Nicaragua til valda hinni mjög svo illræmdu Somoza-ætt, er rændi og kúgaði þjóðina í fjóra áratugi.

Og enn þann dag í dag eru það bandarískir hernaðarsérfræðingar, sem reyna að koma fótunum undir uppreisnarher gamalla morðsveita Somozas, svo að þær geti gert strandhögg frá Honduras inn í landamærahéruð Nicaragua.

Það voru líka bandarísk stjórnvöld, sem svældu löglega stjórn Guatemala frá völdum og tróðu upp á þjóðina langri röð meira eða minna geðbilaðra glæpamanna, þar sem einna verstur er núverandi landsfaðir, Ríos Montt.

Samanlögð áhrif þessara afskipta hafa verið þau, að alþýðan í Rómönsku Ameríku hefur smám saman farið að setja jafnaðarmerki milli Bandaríkjanna og hinna öfgafullu og morðgjörnu landeigenda á hægra kanti stjórnmálanna.

Þannig voru Kúbumenn hraktir til fylgis við kommúnisma og punkturinn yfir i-ið settur með Svínaflóaárásinni, sem magnaði stuðning þjóðarinnar við vinstri öfgarnar, kommúnistastjórn Fidels Kastró.

Og þannig er nú verið að hrekja þjóð og stjórnvöld í Nicaragua frá miðjusinnuðu lýðræði yfir í hreina einræðisstjórn kommúnista með stuðningi allrar alþýðu manna. Ofsóknir Bandaríkjastjórnar framkalla þessa atburðarás.

Í El Salvador hefur ógnarstjórn hægri manna hrakið um 10.000 smábændur af jörðum þeirra og afhent þær hinum gráðugu landeigendum, sem fyrr og síðar hafa getað treyst á hernaðarlegan og pólitískan stuðning bandarískra stjórnvalda.

Vonandi leiða sáttatilraunir stjórnvalda á Spáni og í Mexíkó, Kólumbíu, Venezúela og Panama til, að Reagan Bandaríkjaforseti sjái villu síns vegar og hætti að láta Bandaríkin haga sér í Rómönsku Ameríku eins og Sovétríkin í Austur-Evrópu.

Jónas Kristjánsson.

DV