Ribbaldar og pylsuvagnar

Greinar

Þráhyggja er oft góð og stundum bráðnauðsynleg. Það gildir þó ekki um þá síbylju lögreglustjórans í Reykjavík, að fremsta ráðið gegn ofbeldi og ólátum að næturlagi í miðbæ Reykjavíkur sé að loka pylsuvögnum svæðisins þremur klukkustundum fyrr en nú er gert.

Síbylja af þessu tagi útskýrir að nokkru, hvers vegna lögreglunni í Reykjavík hefur veitzt erfitt að hafa hemil á ástandinu. Yfirmenn hennar eru í öngstrætum kenninga, sem ekki varða í raun að umtalsverðu leyti það vandamál, sem er til umræðu, ofbeldi og ólæti.

Meira vit var í þeirri óbeinu játningu lögreglustjórans í Reykjavík, að hingað til hafi lögreglan látið viðgangast, að “þekktir ribbaldar og misindismenn, sem eru líklegir til líkamsrárása” hafi nokkurn veginn frjálsan aðgang að tilraunadýrum í miðbæ Reykjavíkur.

Nú á að byrja að fylgjast með ferðum þessara hættulegu manna og stöðva aðgerðir þeirra á frumstigi. Í framhaldi af því er svo rétt að spyrja, hvort yfirvöld lögreglu og dómsmála geta ekki útvegað þjóðinni varanlegan frið í styrjöldinni, sem ribbaldar heyja gegn henni.

Í gamla daga voru menn gerðir útlægir, ef atferli þeirra var langt utan ramma samfélagsins. Ef til vill eru tæknilegir og lagalegir erfiðleikar við svo róttækar aðgerðir, en þær hljóta þó að vera freistandi fyrir eyþjóð, sem á auðvelt með að kanna mannaferðir til landsins.

Flestar aðrar hliðar næturlífsvandræða Reykjavíkur eru utan eiginlegs áhrifasviðs lögreglunnar. Fólk má koma saman á opinberum vettvangi, það má slaga og þrugla og slefa af góðsemi í eyru hvert annars. Slíkt er ekki lögreglumál, heldur brestur í þjóðarsálinni.

Íslendingar þurfa að breyta hugarfari sínu. Við verðum að hætta að útskýra hegðun manna með orðunum: “Hann var fullur, greyið.” Við verðum að koma upp þjóðarsamkomulagi um, að það sé skammarlegt að afklæðast persónuleikanum og haga sér eins og apar.

Boð og bönn eru lítil vörn í þessu samhengi. Ef yfirvöld láta færa lokunartíma pylsuvagna fram um þrjá tíma, geta þau í sama tilgangsleysi látið loka þeim um kvöldmatarleytið. Þau geta líka látið loka vínveitingastöðum um kvöldmat. Það leysir ekki vandamálið.

Hluti af ölæðisvanda Íslendinga felst í, að við kunnum ekki á frelsið, af því að það er svo nýfengið. Áratugum saman ríkti hér óbein bannstefna, sem hafði þá hliðarverkun, að fólk vandist því, að Stóri bróðir hefði vit fyrir því. Og nú vill Stóri bróðir meiri bönn að nýju.

Við getum ekki búið í vernduðu umhverfi á meðan aðrar þjóðir takast á við frelsið og hafa náð á því mun betri tökum en við. Við þurfum að læra að lifa lífinu eins og aðrar þjóðir, þótt sölustaðir víns og matar séu á öðru hverju götuhorni. Þetta er einfalt hugarfarsmál.

Sumir þurfa að hætta að nota áfengi, aðrir að minnka við sig og enn aðrir að sjá fótum sínum betri forráð, þótt þeir noti áfengi. Við þurfum að siðmenntast í stíl þeirra þjóða, sem hafa lengri reynslu af frelsi. Boð og bönn eru ekki rétta leiðin til að gera fólk að manni.

Því meiri tíma sem yfirvöld lögreglu og borgar eyða í að kljást við afgreiðslutíma öldurhúsa og jafnvel pylsuvagna, þeim mun meira dreifist athyglin frá hinu raunverulega hugarfarsvandamáli. Betra væri, að þessi yfirvöld einbeittu sér að ribböldum og ofbeldismönnum.

Yfirlýsing um hertar aðgerðir gegn þessum hættulegu mönnum er spor í rétta átt. Vonandi er hún undanfari þess, að fólk geti gengið óttalaust um borgina.

Jónas Kristjánsson

DV