Riddari araba

Greinar

Hann er ýmist kallaður riddari araba eða slátrarinn frá Bagdað. Í augum margra araba er Saddam Hussein merkisberi nýrrar gagnsóknar íslamska heimsins gegn aldagömlu yfirvaldi kristna heimsins. Á Vesturlöndum er hins vegar litið á hann sem Hitler nútímans.

Hvort tveggja er rétt. Samlíkingin við Hitler er töluvert nákvæm. Fyrst kvörtuðu Hitler og Saddam um yfirgang smáríkis við landamærin, Póllands og Kúvæt. Næst höfðu þeir uppi hótanir um valdbeitingu. Svo réðust þeir til skyndilegrar atlögu og höfðu strax sigur.

Síðan beið Hitler átekta um sinn og undirbjó töku næstu bráðar. Loks þraut þolinmæði Vesturlanda og þau fóru að reyna að hefta yfirgang hans. Eftirmála þess hildarleiks, heimsstyrjaldarinnar, var fyrst að ljúka í vetur með sáttum Sovétríkja og Þýzkalands.

Að þessu sinni voru Vesturlönd reynslunni ríkari. Þau hafa gripið til hafnbanns gegn Írak og hernaðaraðstoðar við ríkið, sem Saddam Hussein ógnar nú mest, Saúdi-Arabíu. Þau hafa líka ítrekað stuðning sinn við Tyrkland, sem er aðili að Atlantshafsbandalaginu.

Sam-arabískur Saddam Hussein talar eins og sam-germanskur Hitler um flokkinn, fólkið og foringjann, ekki um ríkið, þjóðina og furstann. Hann hyggst sameina araba undir einum flokki og foringja. Til þess þarf hann að ryðja úr vegi makráðum miðaldahöfðingjum.

Íraksforseti notar sér, að emírar og sjeikar við Persaflóa eru tímaskekkja. Þeir sitja að ættarvöldum á síðasta áratugi tuttugustu aldar án þess að spyrja þjóðir sínar um margt. Í Kúvæt hafa aðeins 40% íbúanna þegnrétt í landinu. Hitt eru réttlitlir útlendingar.

Þegar Íraksher hafði tekið stjórnarráðið og sjónvarpsstöðina í Kúvæt, var þriðja verk hans að taka þjóðskrána og flytja til Bagdað. Saddam Hussein ætlar sjálfur að ráða, hverjir teljast ríkisborgarar í Kúvæt og hverjir ekki. Hann er að tefla alþýðu gegn yfirstétt.

Emírar og sjeikar eiga ekki upp á pallborðið hjá ýmsu alþýðufólki í arabalöndum. Saddam Hussein hyggst verða leiðtogi þess, eins og Hitler varð leiðtogi almúgans gegn gamalli yfirstétt. Fjöldafundir hafa verið haldnir til stuðnings honum í nágrannaríkinu Jórdaníu.

Emírarnir og sjeikarnir hafa sameinazt Tyrkjum og Vesturlöndum í varnarbandalagi gegn Saddam Hussein og í hafnbanni á Írak. Þeir gera það vegna hagsmuna sinna sem ættarlaukar stjórnarfars frá miðöldum. Þeir endurspegla ekki viðhorf arabísks almennings.

Forseti Íraks getur leitað stuðnings sam-arabista af ýmsu tagi. Arabar hafa eina trú, eitt tungumál og eina sögu, þótt þeir búi í ýmsum löndum, sem Vesturlönd bjuggu til, þegar þau ráðskuðust með þennan heims hluta. Því skyldi hann ekki teljast riddari araba?

Erfitt er fyrir vestrænt fólk að setja sig inn í hugarheim araba. Svo virðist sem ýmsar siðareglur, er orðið hafa til á upplýsingaöld á Vesturlöndum, hafi minna gildi í arabísku andrúmslofti. Mannréttindi og lýðréttindi eru hugsuð á annan hátt meðal þjóða araba.

Ef “riddara araba” tekst að ná tökum á sam-arabísku hugsjóninni, mega Vesturlönd búast við miklum vanda í Miðausturlöndum. “Slátrarinn frá Bagdað” hefur yfir efnavopnum að ráða og hyggst verða búinn að koma sér upp atómsprengju eftir aðeins þrjú eða fjögur ár.

Sumir Evrópumenn segja, að Miðausturlönd séu utan verksviðs Atlantshafsbandalagsins. Þau verða það þó ekki lengi, ef Saddam Hussein aflar sér kjarnavopna.

Jónas Kristjánsson

DV