Góð aðstaða er fyrir hestaferðamenn í þjóðgarðinum við Jökulsárgljúfur. Vel merkt og falleg reiðleið liggur frá Ási um Vesturdal, Svínadal, Hólmatungur upp á veginn að Dettifossi við Ytra-Þórunnarfjall. Þverleið liggur úr Vesturdal vestur í Þeistareyki. Hægt að fá næturbeit fyrir hesta í túni eyðibýlisins í Svínadal. Þaðan þurfa hestamenn að ganga þrjá kílómetra að vegi í Vesturdal við Hljóðakletta. Bílar mega ekki fara þessa fallegu reiðleið. Það hefur pirrað suma hestamenn, sem eru lítið fyrir labb. Við höfum hins vegar ekkert nema gott af þægilegu þjóðgarðsfólki að segja.