Á Sturlungaöld runnu Héraðsvötn meira í tveimur kvíslum um Vellina. Þá var auðveldara að komast yfir þau og vöð voru víða. Algengast var að fara milli Flugumýrar og Víðimýrar með viðkomu í Vallalaug. Hún var miðja Skagafjarðar á þeim tíma. Var þá vestari kvíslin riðin við Húsey og austari kvíslin við gömlu bílabrúna, en menn tóku krók suður í laugina. Gissur jarl og Kolbeinn ungi riðu Héraðsvötn undan Reykjatungu. Það hefur verið skelfileg sjón fyrir Sturlunga á Örlygsstöðum að sjá 1600 manna her þokast yfir Héraðsvötn. Nú ríða menn ána á brúm. Enn er þó riðið vaðið milli Stapa og Kúskerpis.