Rík og fátæk þjóð

Greinar

Íslendingar búa við ein allra beztu lífskjör í Evrópu samkvæmt nýútgefnum tölum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD. Notaðir eru tveir mælikvarðar. Annars vegar er notaður ungbarnadauði, sem er lægstur hjá okkur og Finnum, nokkru lægri en hjá Svíum.

Hinn mælikvarðinn er heildarþjóðarframleiðsla á mann, sem er hér hin fjórða hæsta í álfunni, næst á eftir Sviss, Noregi og Svíþjóð og næst á undan velgengnislöndum á borð við Danmörku, Finnland og Vestur-Þýzkaland. Samkvæmt þessu erum við rík.

Fleiri fréttir en þessar hafa birzt hér í blaðinu að undanförnu. Meðal annars hefur komið í ljós, að launataxtar fyrir uppskipunarvinnu eru nærri þrefalt hærri í Færeyjum en hér á landi. Okkar menn fá 124 krónur á tímann, en Færeyingar 323 krónur.

Ríkidæmi okkar endurspeglast því ekki í Dagsbrúnarkaupi. Það er raunar ein af alvarlegri þverstæðum þjóðfélags okkar, að heildarvelgengni þjóðarinnar lýsir sér ekki í umsömdum launatöxtum. Ef við lítum á taxtana sem mælikvarða, erum við í rauninni fátæk þjóð.

Undanfarin erfiðleikaár hafa hinir betur settu náð sínu á þurrt, ýmist með launaskriði, meiri vinnu eða á annan hátt. Hinir lakar settu hafa borið samdráttinn einir. Sú byrði hefur verið þungbær, af því að hún dreifðist á allt of fáar og veikar herðar.

Landlæknir hefur vakið athygli á, að fólk sé aftur farið að veikjast hér á landi vegna hreinnar fátæktar. Einkum eru það einstæðar mæður og sjúklingar, sem ekki ráða við heilsugæzlukostnað. Um langt skeið höfðu veikindi vegna fátæktar verið nokkurn veginn óþekkt.

Þetta kemur heim og saman við kenningar um, að einstæðar mæður, öryrkjar, aldraðir og sjúklingar taki ekki þátt í ríkidæminu, sem tölur um þjóðarframleiðslu sýna, en hafi hins vegar tekið þátt í kjaraskerðingunni, sem tölur um kaupmátt taxta sýna.

Eftir mismunandi reikningsaðferðum hefur verið fundið út, að 8­24% þjóðarinnar lifi undir fátæktarmörkum. Þótt við gerum ráð fyrir, að lægri talan sé nær sanni, er hér um að ræða fjölmennan minnihluta, sem meirihlutinn hefur skilið eftir á flæðiskeri.

Nýlega töldust 5830 einstæðir foreldrar á skrá Tryggingastofnunar. Þessir foreldrar höfðu 7646 börn á framfæri. Þetta fólk var samt fjölmennt meðal skjólstæðinga félagsmálastofnana, til dæmis fjórða hvert barn einstæðra foreldra í Reykjavík, alls 1000 börn þar.

Alls njóta rúmlega 6% Reykvíkinga einhverrar aðstoðar Félagsmálastofnunar. Það er ef til vill ekki há hlutfallstala, en telur þó 5345 manns. Þetta eru heldur dapurlegar tölur í þjóðfélagi, þar sem atvinnuleysi er nánast ekkert og mikið auglýst eftir fólki til starfa.

Vandinn er, að einstætt láglaunafólk, sem verður að láta sér taxtana nægja og hefur ekki aðstöðu til að vinna aukavinnu, nær ekki nema broti af þeim 100.000 króna mánaðartekjum, sem vísitölufjölskyldan þarf samkvæmt opinberum útreikningum á framfærslukostnaði.

Ellilífeyrisþegar, sem ekki njóta lífeyrissjóðs, hafa um 15.000 krónur á mánuði. Margt láglaunafólk hefur um og innan við 30.000 króna mánaðarlaun. Í vor var rætt um að koma á 30.000 króna lágmarkslaunum í þjóðfélaginu, en náði ekki fram að ganga.

Einkennilegt er þjóðfélag með fjórðu hæstu tekjur í Evrópu, sem hefur 100.000 króna framfærslukostnað, en ræður ekki við að veita 30.000 króna lágmarkslaun.

Jónas Kristjánsson

DV