Ríkið afstýrir fríiðnaði

Greinar

Ríkisvaldið leggur steina í götu fríiðnaðar í nágrenni Keflavíkurflugvallar og fælir erlend fyrirtæki frá fjárfestingu á svæðinu, þótt atvinnuleysi á Suðurnesjum sé komið í 5% og muni aukast í vetur vegna stöðvunar varnarliðsframkvæmda og samdráttar í fiskvinnslu.

Stærsti þröskuldurinn í vegi fríiðnaðar er samningur frá síðustu áramótum milli utanríkisráðuneytisins og Flugleiða um fjögurra ára einokun í afgreiðslu vöruflugs á Keflavíkurflugvelli. Erlendir aðilar vilja ekki og munu ekki lenda í klóm slíks einokunarsamnings.

Utanríkisráðuneytið getur að vísu “óskað eftir”, að samningurinn verði endurskoðaður á tímabilinu, en Flugleiðum ber ekki skylda til að verða við þeirri ósk. Þessum mistökum sínum reyndi utanríkisráðuneytið lengi að halda leyndum, en það hefur ekki tekizt.

Fríiðnaðarsvæði eru svæði, þangað sem flytja má tollfrjáls hráefni til að framleiða fullunna vöru, sem síðan er aftur flutt tollfrjálst úr landi. Innlend gjöld leggjast ekki á vöruna, nema hún sé að lokum seld innanlands og sé tollskyld og skattskyld sem slík.

Skipting heimsins í tollmúrasvæði með frjálsum markaði innan svæðanna hefur stuðlað að tilraunum fyrirtækja til að komast með fótinn inn fyrir dyr með þessum hætti. Fyrirsjáanleg aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu getur gert landið að slíkum millilið.

Bandarísk fyrirtæki hafa verið að skoða Ísland sem hugsanlegt fríiðnaðarsvæði. Hugmyndir þeirra hafa í meira en ár velkzt um í aflóga stjórnkerfi Íslands, án þess að nokkur botn hafi fengizt í málið. Bandaríkjamennirnir eru hins vegar reynslunni ríkari í tæka tíð.

Þeir hafa kynnzt stjórnkerfi, sem getur ekki melt nýjungar og leggur heldur steina í götu þeirra til að drepa tímann. Þeir hafa kynnzt stjórnkerfi, sem hyggst mjólka útlenda viðskiptavini í þágu gæludýrs, sem hefur fengið einokun á vöruafgreiðslu Keflavíkurvallar.

Þeir hafa kynnzt embættismönnum og ráðherrum, sem ekki lesa málsgögn, en ímynda sér, að fríiðnaðarsvæði feli í sér útgjöld af hálfu ríkisins, og skilja ekki, að slík svæði byggjast á, að til séu heilbrigðir rammar og vinnureglur, er treysta má, að farið sé eftir.

Fyrst verða leikreglurnar að verða til, þar á meðal frelsi í vöruflugi. Þegar leikreglurnar verða til, getur fríiðnaður skotið rótum og dafnað af sjálfu sér. Leikreglurnar geta aldrei verið gulrót, sem er sýnd veiði, en ekki gefin. Þær verða að vera til í raun og veru.

Bezt er, að helztu atriði leikreglna séu bundin í lögum, þar sem fram komi, hvaða viðskiptafrelsi lagt er til af Íslands hálfu, til dæmis í afgreiðslu vöruflugs og í staðsetningu fríiðnaðarfyrirtækja. Þetta frelsi þarf að vera veruleiki í lögum, ekki loforð um síðari reglugerð.

Hjá kvígildum ráðuneytanna er vafalaust útbreidd skoðun, að ekki beri að hlaupa upp til handa og fóta til að laga leikreglur, sem taldar hafa verið nógu góðar fyrir Íslendinga og hafa til dæmis komið í veg fyrir, að hér myndaðist öflugur fiskútflutningur í flugi.

Ráðherrum og embættismönnum hefur tekizt að auglýsa fyrir umheiminum, að hjá þeim sé fjandsamlegt andrúmsloft í garð fríiðnaðar og að áhugasamir útlendingar verði að hafa svo mikið fyrir því að fá botn í einföld mál hér á landi, að þeir nenni ekki að standa í því.

Þegar stjórnvöld drápu tilraunir Íslendinga til að koma á frjálsu fiskflugi, varð þegar ljóst, að draumar um fríiðnað við Keflavíkurvöll mundu ekki rætast.

Jónas Kristjánsson

DV