Ríkið étur út eignir sínar

Greinar

Ef ríkið selur eignir á næsta ári, er ábyrgðarlaust að nota tekjurnar til að eiga fyrir útgjöldum ársins. Skuldaminnkun á að koma á móti eignaminnkuninni. Rekstur ríkisins á að standa undir sér af rekstrartekjum þess, án þess að eignir séu étnar upp til viðbótar.

Því miður virðist fjármálaráðuneytið ætla að lifa í sýndarveruleika með því að taka tekjur af sölu eigna á næsta ári inn í rekstur ársins og búa þannig til ímyndaðan afgang í fjárlagafrumvarpi ársins. Ráðuneytið er mikið gefið fyrir sýndarmennsku af slíku tagi.

Meðal eigna, sem reiknað er með, að seldar verði á næsta ári eru Áburðarverksmiðjan, Sementsverksmiðjan, hluti ríkisins í Íslenzka járnblendifélaginu, í Aðalverktökum og hluti af Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Ríkisbankarnir og Póstur & sími eiga að koma síðar.

Þótt ríkinu takist að selja eignir fyrir tæpa þrjá milljarða á næsta ári, segir það lítið upp í tæplega þrjú hundruð milljarða króna skuldir ríksins. Það tæki hundrað ár að greiða upp skuldir með slíkum hætti. Er þó óvíst, að samanlagðar eignir ríkisins dugi fyrir skuldum.

Eðlilegast væri, að fjárlagafrumvarp ríkisins væri sett upp á sama hátt og ríkisreikningurinn. Það hefur raunar staðið til, en fjármálaráðuneytið hefur frestað aðgerðum, enda mundu þær spilla fyrir möguleikum ráðuneytisins til að lifa áfram í sýndarveruleika sínum.

Ef fjárlagafrumvarpið væri gert upp á sama hátt og ríkisreikningurinn, væri ekki hægt að taka tekjur af eignasölu inn í rekstrarreikninginn. Þá yrði líka að taka inn í efnahagsreikninginn langtímaskuldbindingar á borð við áfallna vexti og lífeyrisskuldbindingar.

Þannig eru fyrirtæki landsins gerð upp og þannig er raunar ríkið gert upp að hverju starfsári loknu. Sýndarveruleiki fjárlagafrumvarps ráðuneytisins hefur þann eina sjáanlega tilgang að tryggja, að tölur fjárlagaumræðunnar á Alþingi séu að mestu merkingarlausar.

Fjárlögin eru sá hluti fjármála ríkisins, sem lendir í pólitískri umræðu. Stjórnvöld telja henta sér að láta Alþingi stunda leikaraskap við að ná jafnvægi í reikningsdæmi, sem á sér ekki stoð í veruleikanum. Það dregur úr afskiptum þingsins af alvörufjármálum.

Í nokkur ár hefur fjármálaráðuneytið boðað, að fjárlagafrumvarpið verði næst sett þannig fram, að sambærilegt sé við ríkisreikning og reikninga fyrirtækja og félaga yfirleitt. Í nokkur ár hefur það heykst á aðgerðum, vegna augljósra þæginda af óbreyttu ástandi.

Sem dæmi um sýndarveruleika fjárlagafrumvarpa má nefna, að um langt skeið hefur vegafé verið skorið niður í fjárlagafrumvarpi hvers hausts, en síðan aukið að nýju í sérstökum ráðstöfunum til atvinnuaukningar að vori. Allir málsaðilar vita, að þetta er blekkingaleikur.

Sami leikurinn er stundaður í nýju fjárlagafrumvarpi, sem þingmenn stjórnarflokkanna hafa skoðað að undanföru. Þar er með sjónhverfingum fundinn út tæplega þriggja milljarða hagnaður, en raunveruleikinn að baki nemur meira en tíu milljarða króna taprekstri.

Með hverju árinu, sem líður, án þess að fjárlagafrumvarpi ríkisins sé komið í raunhæft form, er framlengdur eins konar Kardimommubær í ríkisrekstrinum. Það er í þeim anda, að fjármálaráðuneytið hyggst nú lina stöðu líðandi stundar með því að éta út eignir ríkisins.

Í Lúxemborg er hins vegar aldrei halli á ríkisrekstrinum og ríkið skuldar þar aldrei neitt. Þar er fé hins opinbera ekki brennt í endalausum vaxtagreiðslum.

Jónas Kristjánsson

DV