Staðfest er, að mengunarvarnir járnblendiversins á Grundartanga í Hvalfirði hafa verið bilaðar í tvö ár. Nágrannar versins handan fjarðarins í Kjós telja sig raunar heyra, þegar skrúfað sé fyrir á morgnana, er búið sé að hleypa út vinnslugufum í skjóli nætur.
Þetta vekur ýmsar spurningar. Einna áleitnust er, hvers vegna Kjósverjar hafa ekki fyrr gert neina marktæka tilraun til að vekja athygli á því, sem þeir segja nú vera óviðunandi ástand. Það, sem þeir kalla nú eiturgufur, hafa þeir látið yfir sig ganga í tvö ár.
Hin áleitna spurningin er um mengunareftirlit ríkisins með járnblendiverinu. Þetta eftirlit virðist alls ekki hafa verið til og allra sízt á síðustu tveimur árum, þegar verksmiðjan hefur með tilvísun til fátæktar sinnar komizt upp með að lagfæra ekki bilaðan hreinsunarbúnað.
Engan veginn er hægt að kalla það eftirlit, þótt járnblendiverinu sé skylt að senda Hollustuvernd ríkisins árlegar skýrslur um rekstur hreinsibúnaðarins. Slíkt má kalla síðbúna tilkynningarskyldu, en á ekkert skylt við eftirlit af hálfu umhverfisyfirvalda ríkisins.
Í kjölfar þessarar spurningar vaknar sú spurning, hvort ástæðan fyrir þessari léttúð hins opinbera gagnvart mengun frá járnblendiverinu sé hin sama og ástæðan fyrir léttúð þess gagnvart mengun frá Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi, sem einnig er í eigu ríkisins.
Spurningin verður þá, hvort ríkið sé sem aðaleigandi mengunarvaldandi verksmiðja fært um að gæta hagsmuna borgaranna gagnvart þessum verksmiðjum. Dæmin sýna, að svo sé ekki. Ríkið lætur þessar verksmiðjur einfaldlega komast upp með yfirgang í mengunarmálum.
Athyglisvert er, að þetta eru einmitt þær tvær verksmiðjur, sem fá ódýrasta orku frá enn einu fyrirtækinu, sem er í meirihlutaeigu ríkisins, það er Landsvirkjun. Ríkið lætur borgarana greiða niður raforku til þessara tveggja verksmiðja, af því að það á þær sjálft.
Þessi dæmi sýna, hve varhugavert er, að ríkið sé að vasast í stofnun og rekstri orkufyrirtækja og stóriðjufyrirtækja, sem hafa svo mikilla hagsmuna að gæta, að ríkið verður í reynd að láta almannahagsmuni víkja og misfara þannig með umboð sitt frá almenningi.
Þessi misheppnaða þjónustulund ríkisins gagnvart mörgum herrum í senn er ekki ókeypis. Það kemur núna í ljós, þegar ríkið vill setja upp fleiri stóriðjufyrirtæki við hlið járnblendiversins á Grundartanga. Sú ákvörðun reynist vera kornið, sem nú fyllir óánægjumælinn.
Ef ríkið hefði hagað málum á annan og betri veg í samskiptum við eigið fyrirtæki á Grundartanga, hefði það ekki lent í óvæntri andstöðu við fyrirhugaða byggingu álvers á sama stað. Þá hefði væntanlega ekki allt farið á hvolf í Kjós með tilheyrandi borgarafundum.
Eigendur Columbia álfyrirtækisins eru vafalaust í góðri trú, þegar þeir segja, að nýr og fullkominn hreinsibúnaður verði settur upp í gamalli verksmiðju, sem á að flytja til Grundartanga. En það dugir bara ekki, þegar borgararnir geta ekki treyst eigin stjórnvöldum.
Fólk er orðið vant því, að ráðherrar gefi loforð út og suður og beri nákvæmlega enga virðingu fyrir orðum sínum. Þess vegna reikna margir með, að mengun og orkuverð lendi í sama klúðri í samningum við álverið og þeir þekkja frá reynslunni af járnblendiverinu.
Markaðsþjóðfélög nútímans standa og falla með trausti. Þegar stjórnvöld hafa sífellt brugðizt trausti, geta þau ekki búizt við, að menn trúi þeim í þessu máli.
Jónas Kristjánsson
DV