Í annað sinn í röð hefur ríkisstjórnin stuðlað að háum vöxtum í þjóðfélaginu með því að bjóðast til að greiða 9% raunvexti af spariskírteinum. Fyrra skiptið var í nóvember síðastliðnum. Nú eru dagblöðin aftur full af rosaauglýsingum fjármálaráðuneytisins um nýtt tilboð.
Örvæntingin leynir sér ekki. Ríkissjóður er orðinn að eins konar okurlána- eða eiturlyfjaneytanda, sem verður að fá sprautuna sína á tveggja mánaða fresti. Fjármálaráðherra er í hvert sinn reiðubúinn til að greiða heldur hærra verð en áður til að komast í vímuna.
Hingað til hefur ríkisstjórnin einkum hallað sér að útlöndum til að útvega sér lyfin. Þar eru raunvextir nú um 5-6% og raunar hærri í Bandaríkjunum. Þessi leið er smám saman að lokast, því að skuldasúpan er orðin svo yfirgengileg, að hver fjögurra manna fjölskylda skuldar meira en milljón krónur.
Þess vegna telur eiturlyfjasjúklingurinn sig verða að berjast um fast á innlendum lánamarkaði. Ríkið býðst til að borga 9% raunvexti til að geta haldið rekstri sínum áfram frá degi til dags. Þess á milli tala ráðherrar um, að vextir séu orðnir of háir.
Vextir hefðu lækkað í vetur, ef ríkið væri ekki svona peningasjúkt. Aðrir verða að bjóða hærri vexti til að standa jafnfætis ríkinu. Spariskírteinunum fylgir engin áhætta, því að ríkið hefur veðsett börnin okkar fyrir skuldum sínum. Þar að auki eru spariskírteini ríkisins undanþegin eignaskatti, vinsælt í skattpíningunni.
Þeir aðilar, sem hafa lakari veð, þurfa að bjóða hærri vexti en ríkið til að fá fjármagn. Stóru og traustu fyrirtækin þurfa að fara nokkuð yfir 10% raunvexti í sínum útboðum skuldabréfa. Hin, sem standa á brauðfótum, fara hærra, hæglega upp undir 20% raunvexti.
Til þess að þetta geti gengið upp verður arðsemi starfseminnar, sem stuðlað er að með lántökum, að vera hin sama eða meiri en raunvextirnir. Draga verður í efa, að ríkið búi við slíka arðsemi. 9% raunvextir eru greiddir til að halda kerfinu gangandi frá degi til dags.
Sem dæmi um þætti, er ríkið rekur á slíkum lánum, eru námslán með 0% raunvöxtum og húsnæðislán með 3,5% raunvöxtum. Ennfremur gæluverkefni á borð við Kröflu, óþarfa togara, verksmiðjur af ýmsu tagi og landbúnað, sem gæti einn étið öll fjárlögin.
Við stöndum andspænis því, að ríkið getur ekki leyft sér að verða við kröfum um lága vexti á sama hátt og það heldur með handafli uppi of hárri skráningu á gengi krónunnar. Hið síðara getur ríkið, af því að reikningurinn er sendur sjávarútvegi og öðrum útflutningi.
Ríkið getur hins vegar ekki haldið vöxtum niðri með handafli, þar sem það þarf sjálft á peningum að halda, hvað sem þeir kosta. Þannig er allt tal um lægri vexti ekkert nema rugl. Ríkið sér um og mun áfram sjá um að halda uppi háum vöxtum, hverju sem ráðherrar lofa.
Auðnuleysið í þessu er svipað og í hungri ríkisins í aðflutningsgjöld. Ríkið rambar á heljarþröm, ef innflutningur dregst saman, því að þá minnka tekjur þess. Þjóðfélagið mundi stóreflast á betra jafnvægi í utanríkisviðskiptum. Ríkissjóður lifir hins vegar á jafnvægisleysi. Meðal annars þess vegna er gengið rangt skráð og fær ekki sjálft að finna eðlilegan farveg.
Svo vilja ráðamenn í ríki og Seðlabanka halda áfram að ákveða, hvert skuli vera gengi krónunnar og hverjir skuli vera vextir í landinu. Um hvorugt eru þeir færir.
Jónas Kristjánsson
DV