Ríkir gegn fátækum

Greinar

Mörgum þætti einkennilegt, ef spurt væri, hvað sé líkt með Thatcher sigurvegara á Bretlandi og Alþýðusambandi Íslands. Fleirum þætti einkennilegt, ef svarað væri, að hvorir tveggja stæðu með hinum ríku gegn hinum fátæku. Svarið er samt tiltölulega rökrétt.

Hagfræðingur Alþýðusambandsins kaus sér nýlega að standa frammi fyrir umræðu um lögfestingu lágmarkslauna. Hann hefði getað sagt, að kjarajöfnun væri æskileg, ekki framkvæmanleg með þessum hætti, en hins vegar á annan hátt, sem hann síðan rekti.

Þetta gerði hann ekki, heldur lét sér nægja að segja, að lögfesting lágmarkslauna næði ekki tilgangi sínum. Auk þess bætti hann við, að kjarajöfnun í landinu væri komin á svipað stig og var í Mesópótamíu fyrir nokkur þúsund árum, líklega hjá Hammúrabí í Babýlon.

Hagfræðingurinn notaði enga hugmyndafræði til að rökstyðja, hvers vegna eðlilegt væri, að lífskjaramunur Íslendinga frysi í ástandi sem ríkti fyrir Krist í Mesópótamíu. Hann þurfti það ekki, af því að samtök hans standa með hinum vel settu í launakerfinu.

Margoft hefur komið fram, að í raun ráða uppmælingaraðall og ýmsir forréttindahópar ferðinni í Alþýðusambandinu og flestum sérsamböndum þess. Þegar upp er staðið eftir kjarasamninga, hafa þessir aðilar yfirleitt hirt rjómann og smjörið af niðurstöðunni.

Málsvarar launþega komast upp með þetta á sama hátt og frú Thatcher kemst upp með sína stefnu á Bretlandi. Vestrænt þjóðfélag hefur nefnilega breytzt svo, að hinir tiltölulega vel settu eru orðnir fleiri en einstæðar mæður og aðrir þeir, sem skipa undirstéttina.

Um allan hinn vestræna heim hefur myndast tiltölulega vel stæð miðstétt sem er fjölmennust allra stétta. Hún er orðin kjölfestan í þjóðfélaginu. Hún á sínar eigin íbúðir og er farin að kaupa hlutabréf og verðbréf. Hún er farinn að finna til sinna eigin hagsmuna.

Miðstéttarfólk Vesturlanda kemst smám saman á þá skoðun að þjóðfélagið sé um of reyrt í viðjar velferðar. Það hallast sífellt meira að markaðshyggju. Það styður stjórnmálamenn sem leggja áherzlu á stækkun þjóðarauðsins, en sinna síður jafnri dreifingu hans.

Slíkt fólk hefur borið Reagan til valda í Bandaríkjunum og Thatcher í Bretlandi. Það lætur sér vel líka, að Thatcher smjaðri ekki fyrir fátæklingum og segi letingjum til syndanna. Það lætur sér fátt um finnast, þegar hana er sögð skorta hlýju í garð hinna lakast settu.

Í kringum þetta hefur verið smíðuð hugmyndafræði, sem segir, að stjórnaraðgerðir í þágu hinna vel settu, svonefnd örvandi hagstjórn, efli þjóðarhag og myndi auð sem síðan sáldrist frá hinum ríku niður til hinna fátæku, í mynd aukinnar og betur borgaðrar atvinnu.

Raunar er þetta einkar rökrétt hugmyndafræði. Stækkun þjóðarköku er yfirleitt til góðs fyrir alla um síðir, þótt hún komi fyrst að gagni þeim, sem aðstöðu hafa til að nota sér hvetjandi stjórnaraðgerðir á borð við háskattalækkanir og aðra þrengingu skattstiga.

Thatcher og Reagan telja sér brýnt að beita hugmyndafræði til varnar stuðningi við hina ríku. Uppmælingaraðall Alþýðusambandsins hefur hins vegar ekkert fyrir slíku, heldur vísar bara til Mesópótamíu.

Íslenzkir stjórnmálamenn munu líka höfða meira til eiginhagsmuna, þegar þeir fara að átta sig á, eins og Thatcher, að hinir vel stæðu eru orðnir fjölmennasta stéttin. Fá atkvæði eru hins vegar í einstæðum mæðrum.

Jónas Kristjánsson

DV