Ríkir pappírsbúkar í rósabaði

Greinar

Aðgerðaleysi fyrrum stórvelda Vestur-Evrópu gagnvart ofbeldi Serba í Kosovo kemur ekki á óvart. Áður hefur komið skýrt fram í málum arftakaríkja Júgóslavíu, að Vestur-Evrópa er orðin alveg ófær um að sinna stórveldishagsmunum á eigin landamærum sínum.

Enn er það fjarlægt stórveldi í annarri álfu, sem bregzt við árásum og aftökum af hálfu Serba í Kosovo, rétt eins og það gerði við hliðstæðum aðgerðum þeirra í Bosníu. Þetta eru Bandaríkin, sem enn eru eina ríki Vesturlanda, sem ekki er haldið hernaðarlegum stjarfa.

Við vitum samt ekki enn, hvort nokkuð verði úr hótunum Bandaríkjastjórnar í garð Serbíustjórnar. Upp á síðkastið hefur hernaðarstefna heimsveldisins fremur komið fram í innantómum hótunum gagnvart andstæðingunum en neinum vilja til að framkvæma þær.

Máttleysi og málleysi fyrrum stórvelda Vestur-Evrópu er sumpart framför frá fyrri stefnu hótana og úrslitakosta af þeirra hálfu í Bosníudeilunni. Þá kom fram, að þvaðrið var marklaust með öllu, enda tók glæpaforinginn Slobodan Milosevic ekki neitt mark á því.

Það hæfir Bretlandi, Frakklandi og Þýzkalandi betur að þegja þunnu hljóði gagnvart aftökunum í Kosovo en rífa kjaft gagnvart aftökunum í Bosníu. Þessi aumkunarverðu ríki hafa þó lært af biturri reynslu, að þau eru sagnfræðilega séð ekki nein stórveldi lengur.

Raunar feta þau í fótspor margra fyrri arftakaríkja hámenningar, sem reyndust vera innantómir pappírsbúkar á efri árum, þegar hernaðarhætta steðjaði að utan. Þannig hrundu grísku ríkin fyrir léttri sókn Rómverja og persnesku ríkin fyrir léttri sókn Araba.

Efnahags- og peningalegt vald fer ekki saman við pólitískt og hernaðarlegt vald í samskiptum ríkja. Sagan sýnir, að fámennir hópar hafa um tíma getað náð undraverðum völdum langt út fyrir landamæri sín, jafnvel borgríki á borð við Aþenu, Róm og Feneyjar.

Serbía hefur í tæpan áratug verið gjaldþrota ríki. Lífskjör almennings hafa á þessum tíma hrunið um meira en helming. Rúmlega helmingur þjóðarinnar er atvinnulaus. Meðan venjulegt fólk býr við sult og seyru, raka glæpaflokkar saman fé á smygli og ógnunum.

Þótt Serbía sé efnahags- og peningalegt flak, hefur hún nógan pólitískan og hernaðarlegan kraft til að halda úti fjöldamorðum og annarri sögufrægri villimennsku gagnvart landamæraþjóðum, fyrst Slóvenum, síðan Króötum, svo Bosníumönnum og nú Kosovomönnum.

Þrátt fyrir eymd sína er Serbía stórveldi Balkanskaga. Það stafar af, að ríkið hefur innri kraft til að ráðskast út og suður um málefni annarra. Slíkan kraft er ekki að finna í Bretlandi, Frakklandi og Þýzkalandi. Þau eru fyrrverandi heimsveldi og núverandi pappírsbúkar.

Oft steðjar vandi að á evrópsku mörkinni, ekki aðeins á Balkanskaga. Slóvakía hefur valdið vandræðum, Ísrael, Alsír og Albanía. Nánast undantekningarlaust hafa hinir forríku pappírsbúkar hlaupið eins og hálshöggnar hænur út og suður án þess að stýra framvindunni.

Eina undantekningin á þessum áratug er frumkvæði Ítala að afskiptum Vestur-Evrópu af óöldinni í Albaníu. Þar tók af skarið ríki, sem ekki hefur talizt til stórvelda Evrópu, en reyndist hafa meira bein í nefinu en Bretland, Frakkaland og Þýzkaland, þegar á reyndi.

Evrópa er orðin svo rík og þreytt, að hún bíður í rósabaði eftir, að nýr Djengis Khan eða nýr Tímúr halti gerist djarfari en Milosevic og Saddam Hussein hafa verið.

Jónas Kristjánsson

DV