Ríkisstjórnin selur eignir ríkisins, til dæmis bankana, og notar kaupverðið til að lina þjáningar atvinnulífsins í stað þess að nota það til að grynnka á skuldum ríkisins. Þremur mánuðum fyrir kosningar vaknar ríkisstjórnin til meðvitundar og reynir að bæta fyrir tvísýnt efnahagsástand og vaxandi atvinnuleysi með því að éta út eignir ríkisins. Hún hagar sér eins og húseigandinn Tómas Jónsson, sem át út húsið sitt í Metsölubók Guðbergs Bergssonar. Allir stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir standa, virðast vera sáttir við og jafnvel ánægðir með þessi vinnubrögð, sem eru skólabókardæmi um óráðsíu í meðferð opinberra fjármuna á kosningaári.