Ríkishalla-hjáfræði

Greinar

Undanfarna daga hefur látið á sér kræla hjáfræðikenning um, að heppilegt sé ­ eða að minnsta kosti ekki hættulegt ­ að reka ríkissjóð með halla. Er vísað til, að slíkt hafi árum saman og í auknum mæli verið gert í Bandaríkjunum, án þess að leitt hafi til ófarnaðar.

Lykilvörn hjáfræðinga er þó, að mestu máli skipti, að hallinn sé ekki fjármagnaður með erlendum lánum, heldur innlendum. Þar með séu síðari skuldaskil orðin að millifærslum Íslendinga ­ milli skuldabréfaeigenda og skattgreiðenda ­ og varði ekki stöðuna út á við.

Á sama ári og þessu er haldið fram, er ríkið að taka lán í útlöndum. Ef ríkið getur tekið hallarekstrarlán sín á innlendum markaði, gæti það í staðinn tekið einhver önnur lán á innlendum markaði og sparað þjóðinni þar með jafnstóran skuldavanda gagnvart útlöndum.

Raunar er bókhaldsatriði að segja annað lánið vera á innlendum markaði og hitt á erlendum. Svo framarlega sem innlendi markaðurinn leggur ekki fram allt lánsfé, sem ríkið þarf, felur öll viðbót í sér aukningu skulda við útlönd, þótt annað sé formlega bókfært.

Ef þjóðin, stjórnmálamennirnir og ráðherrarnir eru að ræða, hvort rétt sé að reka ríkið með halla eða ekki, er verið að ræða um, hvort eigi að auka erlendar skuldir ríkisins um hallatöluna. Þetta gildir öll þau ár, sem ríkið tekur einhver lán á erlendum peningamarkaði.

Þetta er raunar konunglegt dæmi um, hve mörgum er ósýnt um að hugsa meira en eitt skref fram á veg. Saga meðferðar hins pólitíska geira á fjárhags- og atvinnumálum er endalaus röð aðgerða, þar sem aðeins er hugsað um næstu afleiðingu, en ekki þarnæstu.

Íslenzkir stjórnmálamenn eiga afar erfitt með að reikna nokkra leiki fram í tímann. Dæmið um hjáfræði hallarekstrar ríkisins er tiltölulega einfalt. Flóknari dæmi eru til um ímyndaðar aðstæður, sem ætla mætti að væru hagstæðari hinni freistandi hallastefnu.

Ef ríkið tæki engin erlend lán á ímynduðu hallarekstrarári, væri samt ekki hægt að halda því fram, að innlend lántaka upp í hallann væri hrein innlend millifærsla. Ef enginn væri hallinn, væri hægt að nota sömu upphæð til að grynna á fyrri skuldum við útlönd.

Við skulum halda áfram og ímynda okkur, að hvorki ríkið né þjóðin skulduðu krónu í útlöndum. Þá mætti hugsanlega vænta þess, að innlend fjármögnun hallarekstrar væri innlend millifærsla, ­ einkamál skuldabréfaeigenda og skattgreiðenda í hópi barna okkar.

Svo er raunar ekki. Líklegt er, að slík lántaka ríkisins mundi hrekja aðra lántakendur af innlenda markaðinum út á erlendan. Annars yrði að gera ráð fyrir, að lánveitendur á Íslandi hefðu svo fullar hendur fjár, að þeir gætu leyst fjárþörf allra í senn.

Þetta síðasta dæmi er orðið afar langsótt. En það sýnir, að nánast ókleift er að hugsa sér þvílíkt ríkidæmi í landinu, að hallarekstur ríkisins sé ekki hættulegur. Í öllum tilvikum felur hann í sér veðsetningu barna okkar í hendur erlendra fjármagnseigenda.

Ofan á allt þetta er svo einnig rangt, að velja þurfi milli hallarekstrar og skattlagningar, þar sem sparnaðar- og niðurskurðarleiðir séu þrotnar. Enn er mikil fita á ríkisgeiranum. Nægir þar að minna á, að milljörðum króna er sáð í grýtta jörð hins hefðbundna landbúnaðar.

Ríkishalli er hættulegur, svo sem bæði við og Bandaríkjamenn munu um síðir komast að. Stuðningskenning hallarekstrar er ekki hagfræði, heldur hrein hjáfræði.

Jónas Kristjánsson

DV