Ríkisrekið vændi

Greinar

Vinsælt er að leysa vanda með því að banna hann. Sérstaklega þykir brýnt að ráðast gegn dauðasyndum á borð við græðgi, fíkn og losta, sem koma í veg fyrir frelsun mannkyns frá hinu illa. Sett eru flókin lög sem segja í stórum dráttum ekki annað en þetta: Losti er bannaður að viðlagðri aðför að lögum.

Vændi er elzta atvinnugrein í heimi, næst á undan fréttaflutningi. Það veitir því svo sem engan rétt í siðvæddu nútímaþjóðfélagi, en ætti þó að vara okkur við einni dauðasyndinni enn, hrokanum. Það felst nefnilega hroki í að telja sig geta afnumið elztu atvinnugreinina með stimpluðu skjali án þess að spyrja þá, sem selja þjónustuna og kaupa hana.

Hvort sem við lítum í kringum okkur eða í eigin barm, getum við auðveldlega séð, að ekki er góð reynsla af banni dauðasynda. Hér á landi ríkti um skeið áfengisbann, sem fólst í að ekki mátti brugga, selja eða kaupa áfengi að viðlagðri aðför að lögum. Bannið virkaði ekki, því að menn fundu ýmsar undankomuleiðir framhjá árvökulum augum réttvísinnar.

Eftir bitra reynslu komust bannríki Norðurlanda að þeirri niðurstöðu að betra væri að ríkisreka dauðasyndina en fela hana í neðanjarðarhagkerfinu. Þannig gæti ríkið fylgst með viðgangi syndarinnar, gætt þjóðfélagslegra sjónarmiða og spornað gegn verstu afleiðingunum. Mestu máli skipti þó, að undirheimum var ekki gefinn kostur á að grafa undan þjóðskipulaginu á þessu sviði.

Látum vera, þótt ríkisvaldið hafi ekki enn áttað sig á, að skynsamlegra er að ríkisreka fíkniefnasölu, heldur en að leyfa undirheimakóngum að grafa undan þjóðskipulaginu í skjóli sjálftekins einkaréttar á dreifingu og sölu fíkniefna. Látum vera, þótt ríkisvaldið muni enn síður átta sig á, að bezta leiðin til að stýra vændi frá þjóðfélagslegum sjónarmiðum er að ríkisreka það og gera melludólga atvinnulausa.

Að minnsta kosti er hægt að ætlast til þess af reyndu stjórnmálafólki, að það átti sig á, að aldur og vinsældir vændis stafa af einhverjum forsendum. Vændi er ekki forsenda, heldur afleiðing af einhverju öðru, sem greinilega á sér djúpar rætur hjá mannkyni. Án efa eru þar framarlega í flokki gamalkunnar dauðasyndir á borð við græðgi, fíkn og losta.

Kaþólsku ríkin hafa fyrir löngu gefizt upp á að vísa vændi til hins vonda. Þar er vændi yfirleitt þolað með margvíslegum reglum, sem miða að almennri heilsugæzlu og bættri stöðu seljenda þjónustunnar. Í Þýzkalandi hafa ýmis bæjarfélög frumkvæði að rekstri fjölbýlishúsa, þar sem þessi dauðasynd er stunduð án aðkomu melludólga, sem annars mundu hirða arðinn.

Íslenzkt stjórnmálafólk gerir sér ótrúlega háar hugmyndir um boð og bönn. Öll helztu merkikerti þjóðarinnar ákváðu fyrir hálfum áratug að afnema fíkniefnaneyzlu í landinu á fáum árum. Sá tími er liðinn og fíkniefnin blómstra sem aldrei fyrr.

Hroki er ekki gott vegarnesti í stjórnmálum. Hann blindar ráðamenn svo mjög, að þeir skilja ekki með neinu móti, að allar aðgerðir hafa ófyrirséðar hliðarverkanir, sem oft á tíðum eru verri viðureignar en upphaflegi vandinn. Sérstaklega gildir þetta um tilskipanir gegn afleiðingum dauðasyndanna sjö.

Jónas Kristjánsson

DV