Ríkisstjórnin er gjaldþrota

Greinar

Tveir ráðherrar Alþýðuflokksins hafa nærri samtímis lýst yfir, að gott sé, að ríkisstjórnin sé óvinsæl. Þeir héldu því opinberlega fram, að óvinsældir ríkisstjórnarinnar í skoðanakönnunum sýndu, að hún væri á réttri leið við sársaukafullar ráðstafanir og lækningar.

Þeir virðast hafa heyrt um, að erlendis hafi risið upp miklir þjóðarleiðtogar, sem hafi látið þjóðir sínar ganga gegnum hreinsunareld til að leggja grunn að nýrri framfarasókn. Eitt nýjasta dæmið um þetta er forsætisráðherra Bretlands, sem sífellt er að reyna að siða þjóðina.

Þótt dæmi séu til um, að óvinsælar ráðstafanir gefist vel og að óvinsælar ríkisstjórnir reynist í ljósi sögunnar hafa staðið sig vel, er ekki þar með unnt að segja, að óvinsældir tryggi, að svo sé. Ríkisstjórnir geta líka verið óvinsælar, af því að þær eru einfaldlega óhæfar.

Ríkisstjórnin, sem nú situr, er óvinsæl, af því að hún er ófær um að valda hlutverki sínu. Hún er svo hræðileg, að svita setur að fólki, þegar það fréttir, að ráðherrarnir séu setztir við heilastormun á Þingvöllum til að finna upp á nýjum bjargráðum ofan á hin fyrri.

Í ríkisstjórninni sitja tveir hagfræðingar, hinir sömu ráðherrar og hafa lýst ánægju sinni yfir óvinsældum hennar. Samt hefur engin ríkisstjórn í þrjá áratugi verið jafnlaus við hagfræðilega hugsun. Og greinilegt er, að hún hefur vonda ráðgjafa á hagfræðilegum sviðum.

Hún hefur frá upphafi beitt einu ráði ótæpilega til að leysa öll vandamál á einfaldan hátt. Hún hefur grýtt peningum í þau. Hún byrjaði á milljörðum króna í atvinnutryggingasjóð og hlutafjársjóð. Síðan keypti hún sér frið á vinnumarkaði fyrir nokkra milljarða króna.

Á milli hefur hún mátt vera að því að grýta milljörðum í landbúnað umfram milljarðana á fjárlögum. Hún hefur grýtt fé í auknar útflutningsbætur og niðurgreiðslur og er í þann veginn að grýta fé í loðdýrarækt. Hana dreymir um stórvirki í borun fjalla og skógrækt.

Ef fjölskyldufaðir eða -móðir hagaði sér svona í fjármálum, væri hann eða hún talin vitskert. Vinir og ættingjar mundu flýta sér að reyna að ná fjárráðum af hinu gæfulausa fólki. En ríkisstjórnin fær að rótast eins og henni þóknast og jafnvel gorta af óvinsældunum.

Ein afleiðinga stjórnarfarsins er, að útgjöld ríkisins fara sex milljarða króna fram úr fjárlögum á þessu ári. Að mestu leyti eru útgjöldin brot á stjórnarskránni, sem segir orðrétt, að “ekkert gjald má greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum”.

Að sjálfsögðu eru engir peningar til fyrir öllum þessum stjórnarskrárbrotum. Þess vegna lætur ríkisstjórnin Seðlabankann prenta myndir á pappír og kallar peningaseðla. Þessir seðlar eru ekki ávísun á nein verðmæti, heldur útþynning á gjaldmiðli þjóðarinnar.

Önnur afleiðing stjórnarfarsins er, að á bara þremur mánuðum hafa verið tekin erlend lán, sem nema 10 milljörðum umfram endurgreiðslur eldri lána. Á einu ári mundi sukk af slíku tagi hlaðast upp í 40 milljarða, ef ekki finnst leið til að stöðva brjálæðið.

Þriðja afleiðing stjórnarfarsins er, að Ísland er farið að skera sig úr hópi þjóða, sem voru áður á svipuðu róli. Þetta eru lönd Efnahagsþróunarstofnunarinnar. Í þeim öllum er aukinn hagvöxtur um þessar mundir, nema á Íslandi, þar sem samdráttur ríkir og fer vaxandi.

Þúsund Reykvíkingar hafa lýst sig gjaldþrota á fyrri hluta þessa árs. Tímabært er orðið, að ríkisstjórnin hætti að gorta af óvinsældunum og lýsi sig gjaldþrota.

Jónas Kristjánsson

DV