Ringulreið fyrir sauðburð.

Greinar

Hin óskráða regla, að Alþingi skuli slitið upp úr miðjum maí, byggist á, að í gamla daga þurftu þingmenn að taka hnakk sinn og hest og ríða til sauðburðar. Enn er haldið stíft við þessa reglu, þótt atvinnuhættir og samgöngur hafi gerbreytzt síðan á nítjándu öld.

Ráðherrar hafa vanið sig á að nota sauðburðartímann til að komast á óþarfa fundi í útlöndum. Og óbreyttir alþingismenn eru komnir með farseðla til sólarlanda. Þessi ferðaþrá hefur tekið við af sauðburði, sem forsenda þess, að Alþingi verður sér til skammar á hverju vori.

Aldrei hefur þó æðibunugangurinn og ringulreiðin verið meiri en að þessu sinni. Frumvörp og tillögur hafa verið afgreiddar í kippum, þótt mjög fáir þingmenn hafi kynnt sér innihald þeirra. Eitt dæmið um þetta er lögræðisfrumvarpið, sem varð að lögum fyrir misskilning.

Efri deild hafði breytt þeirri útgáfu frumvarpsins, sem kom frá neðri deild. Þurfti frumvarpið því að fara aftur til nefndar í neðri deild, hefðbundið skref til samræmingar á útgáfunum tveimur. Síðan hefði framsögumaður nefndarinnar kynnt niðurstöðuna á deildarfundi.

Fyrir misskilning milli Ingvars Gíslasonar þingforseta og Gunnars G. Schram nefndarformanns var vikið frá eðlilegri málsmeðferð. Að viðstöddum nefndarformanni var útgáfa efri deildar tekin til atkvæða af deildarforseta og samþykkt án athugasemda nefndarformanns.

Þetta kom þingmönnum auðvitað í opna skjöldu. Þeir héldu, að málið hefði fengið eðlilega meðferð. Þegar menn áttuðu sig á, að svo var ekki, var það orðið um seinan. Lögræðisfrumvarpið var orðið að lögum í útgáfu, sem alveg er óvíst, að sé í samræmi við vilja Alþingis.

Æðibunugangurinn og ringulreiðin lýsa sér á ýmsan annan hátt. Hrossakaupin blómstra í öðru hverju skoti, meðan þingforsetar gera hlé á fundum til að leysa ósamkomulag milli stjórnarflokkanna eða innan annars hvors stjórnarflokksins. Þessu fylgir ógeðfelldur blær.

Landsfrægt er, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins gerðu með sér kaup um, að Mjólkursamsalan fengi áfram að brjóta skattalög gegn því, að húsnæðissamvinnufélögum yrði kippt úr húsnæðisfrumvarpinu. Þetta mangó-mál hnekkti áliti fólks á Alþingi.

Heilir þingflokkar og einstakir þingmenn notfæra sér tímahrakið á síðustu dögunum til að hindra. framgang mála, sem meirihluti er fyrir. Þannig var á síðustu stundu hindrað, að Alþingi samþykkti frumvarp um afnám einokunar Grænmetisverzlunar landbúnaðarins.

Stefán Valgeirsson hélt þinginu gangandi næturlangt með málþófi út af bankanum, þar sem hann vildi verða bankastjóri. Framsóknarmenn mættu ekki á fund í fjárveitinganefnd til að hindra, að Pálmi Jónsson yrði formaður nefndarinnar í störfum hennar í sumar.

Þorvaldur Garðar Kristjánsson, forseti Sameinaðs þings, hefur hvað eftir annað þurft að minna formenn nefnda á, að liggja ekki á málum. Samt tókst Ólafi Þ. Þórðarsyni að gera allsherjarnefnd óstarfhæfa með því að neita að halda fundi til að hindra bjórfrumvörp.

Eftir tíða kvöld-, nætur- og helgarfundi er þreyttum og vansvefta afgreiðslumönnum á þingi meira eða minna óljóst, hvað hefur verið afgreitt og hvað ekki. Hitt ætti ekki að vefjast fyrir þeim, af hverju þjóðin hefur lítið álit á þingmönnum og Alþingi.

Jónas Kristjánsson.

DV