Sorglegt er að fylgjast með hraðfara hnignun Rússlands undir óstyrkri stjórn þekktasta drykkjurúts samtímans. Á nokkurra mánaða fresti rís forsetinn úr rekkju og rekur mann og annan, meðan hirð hans sjálfs og helztu braskvinir hennar ræna og rupla þjóðfélagið.
Brottrekstur Stepasjíns og ráðning Pútíns felur í sér örvæntingarfulla tilraun Jeltsíns til að tryggja sér og hirð sinni sem hollastan forsætisráðherra til að varðveita stöðu hópsins í þjóðfélaginu inn í ótrygga framtíð, án tillits til hagsmuna þjóðarinnar í heild.
Kveikjan að þessum síðasta brottrekstri var stofnun kosningabandalags borgarstjórans í Moskvu og nokkurra helztu héraðsstjóra Rússlands, sem talið er munu valta yfir fylgismenn forsetans. Hinum nýja Pútín mun ekki takast að hindra þá sögulegu nauðsyn.
Hnignun Rússlands er ekki aðeins slæm fyrir Rússa, heldur heimsbyggðina alla. Vesturlönd þurfa á að halda öflugu lýðræðisríki við norðurlandamæri Kína og samstöðu milli vesturkristnu og austurkristnu menningarheimanna um eflingu lýðræðis í heiminum.
Því víðar sem lýðræði fer, þeim mun minni líkur eru á styrjöldum milli þjóða. Nútímasagan sýnir, að lýðræðisríki reyna að jafna ágreining sín í milli án vopnavalds. Þau eru enn fremur heppilegasti jarðvegur markaðsbúskapar og auðmyndunar, sem þekkist í heiminum.
Vesturevrópska og norðurameríska lýðræðisbandalagið þarf að hlúa að veikburða lýðræði í rómönsku löndunum í Ameríku, austurkristnu löndunum í Evrópu og Asíu, svo og í Indlandi til þess að tryggja sér bandamenn í stórum og smáum atriðum, sem fylgja lýðræðinu.
Rússland skiptir miklu í þessari heimsmynd, því að það er höfuðríki austurkristninnar. Það gat til dæmis fengið trúbræður Rússa í Serbíu til að leggja niður vopn í Kosovo, þótt hernaðarmáttur þeirra væri nánast óskertur eftir loftárásir Atlantshafsbandalagsins.
Þótt vestrið geti í krafti augljósrar velmegunar sinnar sogað til sín fylgi austurkristinna ríkja á borð við Búlgaríu og Rúmeníu, er miklu meiri fengur í höfuðríkinu sjálfu, sem býr yfir öflugum kjarnorkuvopnum og teygir sig alla leið austur til Kyrrahafs.
Til dæmis er mikilvægt, að helztu vopn Rússlands lendi ekki í óreiðu og finnist síðar í höndum einhvers af hinum mörgu tækifærissinnum í röðum hryðjuverkastjóra víðs vegar um Asíu. Núverandi ringulreið í Rússlandi eykur líkur á dreifingu ógnarvopna.
Ef einhver glóra væri í stjórnarfari Rússlands, væri hægt að hjálpa því til traustara lýðræðis og aukinnar velmegunar. Því miður er stjórnarfarið á vegum Jeltsíns forseta með þvílíkum endemum, að allt fjármagn, sem útvegað er, hverfur eins og dögg fyrir sólu.
Júris Luzhkov borgarstjóri og héraðsstjórarnir eru svo sem ekki fínustu pappírar, en vart er hægt að hugsa sér, að ástandið versni frá því, sem nú er. Raunar hefur lengi verið óskynsamlegt að leggja traust sitt á herðar útbrunnins róna, sem hefur gert Rússland að öreiga.
Því miður er fátt hægt að gera í stöðunni. Áfram verður að verja fé til að hindra, að Rússland verði gjaldþrota, og reyna á meðan að halda lífi í frjálsri fjölmiðlun og öðrum þáttum, sem varðveita von um, að einhvern tíma gerist Rússar ábyrgir í kjörklefanum.
Enn verðum við trúa, að Rússar muni um síðir ganga til sætis í hópi rótgróinna og auðugra lýðræðisríkja heims og leggja lóð sitt á vogarskál þeirra.
Jónas Kristjánsson
DV