Ringulreið landsföðurins

Greinar

Margir hafa tjáð sig um nýjasta kvótadóminn og fáir talið hann setja efnahagslífið úr skorðum. Flestir hafa tillögur um, hvernig megi haga fiskveiðistjórn á þann hátt, að hún falli ekki hvað eftir annað fyrir dómstólum landsins. En ríkisstjórnin vill ekki lesa dómana.

Illa getur þó farið, ef ekkert er lært af dómsúrskurðum. Heimsendakenning forsætisráðherra yrði skiljanlegri, ef hann bætti framan við hana orðunum: “Ef ég geri ekkert í málinu”. En slík málsmeðferð er vandamál forsætisráðherra fremur en fiskveiðistjórnar.

Á sama hátt neitaði ríkisstjórnin að fallast á lögformlegt umhverfismat vegna Fljótsdalsvirkjunar og notaði síðan sitt eigið aðgerðaleysi sem rök fyrir því, að ekki væri tími til að framkvæma matið, því að þá væri hætt við að Norsk Hydro færi að leiðast þófið.

Aðferðin felst í að gera ekkert í málunum og stefna þeim þannig í slíkt óefni, að möguleikunum fækki í stöðunni. Þannig rekur ríkisstjórnin stefnu Fljótsdalsvirkjunar og þannig rekur hún fiskveiðistjórnarstefnu kvótaerfingjans og utanríkisráðherrans frá Hornafirði.

Svo þunnt er þetta roð, að þingflokksformaður Framsóknarflokksins sagði nýjasta kvótadóminn vera skýran og ekki flækja málin neitt. Það er leitun að mönnun utan ríkisstjórnar og stjórnar Landssambands íslenzkra útvegsmanna, sem stinga höfðinu í sandinn.

Nýjasti dómurinn hlýtur að minna menn enn einu sinni á þá aðferð að halda óbreyttu kvótakerfi, en bjóða kvótann upp til nokkurra ára í senn. Sú leið mun efla arðsemi núverandi kvótakerfis og gefa öllum þeim, sem bjóða mega, jafna möguleika á að ná sér í kvóta.

Formaður útvegsmanna fordæmir þessa leið á þeirri forsendu, að kvótinn muni smám saman safnast til fárra aðila, ef uppboðsleiðin sé farin. En það hefur einmitt verið að gerast í núverandi kerfi. Með kaupum og sölum hefur kvótinn verið að færast á æ færri hendur.

Yfirleitt má segja það um öll arðbær kerfi, að þau valdi samþjöppun í atvinnulífinu. Og það hlýtur að vera hagstæðara, að slík samþjöppun gerist í leigukvótakerfi heldur en í eignarkvótakerfi. Kenning formanns útvegsmanna hittir því fyrir hans eigið hjartans kerfi.

Ef menn vilja líta til annarra sjónarmiða en arðseminnar, til dæmis til félagslegra þátta, þá er unnt að breyta hluta kvótans í byggðakvóta, hvort sem notað er núverandi kerfi eða uppboðskerfi. Í síðara tilvikinu væri hluti kvótans háður skilyrðum um löndunarhöfn.

Uppboðskerfið hefur þann kost umfram núverandi kerfi, að kostnaður byggðastefnunnar verður gagnsær. Sá hluti kvótans, sem háður væri skilyrðum, mundi fara á lægra verði en óháði hlutinn. Mismunurinn væri herkostnaðurinn af byggðastefnu, sýnilegur öllum.

Byggðakvóti er frábær leið til að sýna fram á haldleysi byggðastefnu. Sveitarfélög hafa farið þannig með sinn hlut, að öllum má ljóst vera, að núverandi byggðakvóti er ávísun á botnlausa spillingu við úthlutun. Á endanum er kvótinn seldur úr héraði og síðan vældur út nýr.

Án þess að dregið sé í efa, að ýmsar aðrar breytingar á núverandi kerfi muni vernda arðsemi útgerðar og fylgja lögum og stjórnarskrá, þá sýnist uppboð tímabundinna kvóta vera öflugasta og einfaldasta leiðin, ágætlega rökstudd af innlendum og erlendum sérfræðingum.

Eina ringulreiðin í stöðunni er sú, sem landsfaðirinn og kvótaerfinginn geta framleitt með því að lesa ekki dómsúrskurði og gera ekkert til að laga málin.

Jónas Kristjánsson

DV