Kínverski blaðamaðurinn Sji Tao var nýlega dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir að birta nýjar ritskoðunarreglur stjórnvalda á vefnum. Það var netrisinn Yahoo, sem veitti kínverskum yfirvöldum upplýsingar, svo að hægt væri að handtaka manninn. Yahoo er í vasanum á harðstjórninni í Kína.
Google er annar netrisi, sem hefur samið við glæpalýðinn, sem stjórnar Kína um að sía út óþægilegar upplýsingar. Enn einn netrisinn er Microsoft, sem hefur látið sía út vond orð á borð við “lýðræði”, “frelsi” og “mannréttindi”. Stjórnvöld í Kína vilja ekki, að kínverskir notendur sjái blótsyrði.
Yahoo, Google og Microsoft verða sífellt fyrirferðarmeiri fjölmiðlar í heiminum. Yahoo er meira að segja byrjað að ráða blaðamenn. Með þessum netfyrirtækjum hefur spilling í fjölmiðlum vaxið, því að þau líta svo á, að vinsamleg sambúð við harðstjóra og auglýsendur sé mikilvægari en siðferði.
Sameiginlega hefur Yahoo, Google og Microsoft tekizt að loka hlutum veraldarvefsins fyrir Kínverjum. Hið eftirsótta frelsi, sem átti að fylgja netinu og blogginu, hefur ekki rætzt í Kína, þótt það hafi haft jákvæð lýðræðisáhrif í Úkraínu, Georgíu, Kirgistan, Líbanon, Argentínu og Bólivíu.
Forveri risanna þriggja var Rupert Murdoch, sem samdi árið 1993 við Kína um aðgang að sjónvarpsmarkaði gegn því að passa upp á pólitíkina. Ári síðar tók hann BBC út af rásinni til að móðga ekki stjórnvöld. Árið 1997 lét hann hætta við að gefa út sjálfsævisögu Chris Patten, landstjóra Hong Kong.
Fleiri aðilar en Kína reyna að beita fjölmiðla þrýstingi. Til dæmis hafa Morgan Stanley og BP, tóbaksrisar, flugfélög og bílaframleiðendur tilkynnt, að taka verði út auglýsingar þeirra í tölublöðum, sem hafa efni, er þessum aðilum fellur ekki í geð. Þetta er bein ritskoðun eins og hjá Murdoch.
Óbein afleiðing þessara breytinga er, að fleiri blaðamenn snúast eins og skopparakringlur umhverfis valdamikla aðila í auglýsingum og pólitík. Þeir reyna að breiða yfir eymd sína með því að gagnrýna aðra blaðamenn fyrir grófa blaðamennsku, nafn- og myndbirtingar og fyrir brot á úreltum siðareglum.
Ekki verður þess vart innan lands eða utan, að samtök blaðamanna mótmæli meðferð Yahoo á Sji Tao eða lýsi áhyggjum yfir því, að blaðamenn séu að breytast í blaðurfulltrúa.
DV