Ritstjórn og eigendur

Punktar

Vestræn fjölmiðlun og fjölmiðlakennsla 20. aldar á rætur í óformlegu samkomulagi víða á Vesturlöndum milli ritstjóra og eigenda á staðbundnum fjölmiðlum, þar sem fjölmiðillinn var sjálfur þungamiðjan í eignarhaldinu. Eigendur sáu og skildu, að sjálfstæði ritstjórna var mikilvæg leið til að auka traust og tekjur. Þetta kerfi átti ekki sérstakar rætur hér á landi, en fluttist hingað seint á 20. öld fyrir erlend áhrif. Kerfið fór að bila erlendis, þegar gömlu fjölskyldurnar seldu fjölmiðlana til að koma eignum sínum í lausa aura. Við tóku fyrst einkum fjölmiðlakeðjur, sem í stórum dráttum héldu gamla samkomulagið, sem var orðið rótgróið í bransanum. Undir lok aldarinnar fór svo að bera á innreið stórkeðja með meginhagsmuni utan fjölmiðlunar. Afkoma hvers fjölmiðils skipti þá minna máli en völd keðjunnar í þjóðfélaginu. Þannig vildi Landsbankinn ná áhrifum í fjölmiðli, þótt það þýddi meðgjafir. Annað dæmi: Þegar valdastofnun utan fjölmiðlunar á borð við Baug varð fyrir hremmingum af hálfu ríkisvaldsins, var freistandi að eignast fjölmiðil upp á að hlaupa í næstu hremmingum eða til að draga úr líkum á slíkum hremmingum framvegis.