Ró ríkisendurskoðanda raskað

Greinar

Kosningabomban í Reykjavík er annars eðlis en þau mál, sem hafa verið til umræðu á vettvangi ríkisins, þar sem spurt er, hvort menn hafi misnotað aðstöðu sína og eigi þess vegna að hverfa úr starfi, svo sem bankastjórar Landsbankans gerðu nauðugir viljugir.

Ríkisendurskoðandi telur í lagi, að hann og valdir starfsmenn Ríkisendurskoðunar geti staðið í umfangsmiklum einkarekstri í skjóli aðstöðu sinnar hjá embættinu. Í sjónvarpsviðtali kom í ljós, að hann ruglar saman einkatekjum sínum og sértekjum stofnunarinnar.

Í sama viðtali kom í ljós, að hann telur þennan einkarekstur nauðsynlegan, því að annars verði hann að lifa af launum sínum. Því kemur ekki á óvart, að hann vissi um fádæmi bankastjóra og bankaráðs Landsbankans og lét viðgangast árum saman án þess að segja frá.

Þau ummæli hans, að hann hafi aðeins kannað, hvort gögn bankastjóranna væru bókhaldstæk eða ekki, benda ekki til þess, að hann sé hæfur til að framkvæma gagnrýna endurskoðun og þá yfirleitt hæfur til að endurskoða ríkisstofnanir á vegum Alþingis.

Raunar er full ástæða til að spyrja, hvort Ríkisendurskoðun sé þvílíkur hluti af samtryggingarkerfi stóru strákanna, að bankastjórarnir hefðu sloppið, ef þeir hefðu haft vit á, að láta fagmann ganga þannig frá vafasömum reikningum, að þeir yrðu bókhaldstækir.

Jónas Kristjánsson

DV