Röð af skipulagsdellum

Punktar

Borgarskipulag er ekki grein raunvísinda og tæpast heldur hugvísinda. Það er fremur röð af dellum kennara í húsateiknun. Þar tekur ein dellan eða tízkan við af annarri. Ein slík er að mótast á kontórum borgarinnar. Sókn hennar er tvíþætt. Annars vegar er með þéttingu byggðar ráðizt gegn útsýni, svigrúmi, friðsæld, loftgæðum og bílastæðum fólks. Nýjum húsum, venjulega stórum, er troðið milli eldri húsa. Hins vegar er með umferðarstíflum ráðizt gegn bílum, götur þrengdar, stæðum fækkað, mislæg gatnamót bönnuð og umferð þyngd á götum frá fámennari tíð. Kjósendur eru þannig ofsóttir á fjölbreyttan hátt. Gaman?