Róm göngur

Ferðir

1. ganga, Páfaríki

Palazzo di Giustizia

Péturskirkja er eitt helzta aðdráttarafl Rómar, enda höfuðkirkja kristindóms. Við byrjum leiðsögnina um Róm í nágrenni hennar, á bakka borgarfljótsins Tevere, við brúna Ponte Umberto I.

Andspænis okkur er það hús, sem mest ber á í allri Róm. Það er Palazzo di Giustizia, dómhús borgarinnar, mikil rjómaterta, hönnuð af Gugliemo Calderini og byggð 1889-1911 í sögustíl, eins konar blöndu hlaðstíls og nýgnæfu.

Ponte Sant’Angelo

Við göngum niður eftir árbakkanum, Lungotevere Castello, í átt til fegurstu brúar Rómar. Það er Ponte Sant’Angelo, að mestu frá 136.

Hadrianus keisari lét reisa hana til að tengja Marzvelli, Campus Martius, við grafhýsi sitt handan árinnar. Miðbogarnir þrír eru upprunalegir, en endabogarnir eru frá 17. öld. Stytturnar af Pétri og Páli postulum á syðri enda brúarinnar eru frá 1530. Hinar stytturnar tíu eru hannaðar af Bernini og reistar árin 1667-1669.

Castel Sant’Angelo

Við norðurenda brúarinnar blasir við mikilúðlegt grafhýsi Hadrianusar, reist 135-139. Sívalningurinn er að mestu upprunalegur, í stíl etrúskra grafhýsa. Þar var varðveitt aska Hadrianusar og eftirmanna hans allt til Septimusar Severusar. Ofan á sívalningnum var þá jarðvegshaugur og þar trónaði efst líkneski af Hadrianusi í fereykisvagni.

Þegar Aurelius keisari lét víggirða borgina 270, gerði hann grafhýsið að virki í borgarmúrnum. Gregorius I páfi lét reisa kapellu uppi á haugnum 590, helgaða Sant’Angelo, og af honum er 18. aldar bronsstyttan, sem nú trónir á virkinu. Grafhýsinu var breytt í kastala, sem fékk nafn það, er hann ber enn í dag.

Nikulás V lét reisa múrsteinshæð ofan á sívalninginn og turna á hornin um miðja 15. öld. Alexander VI lét reisa áttstrendu fallbyssustæðin umhverfis virkið um 1500. Virkið var þá tengt páfahöllinni með göngum í löngum múrvegg, Passetto, sem páfar gátu flúið eftir inn í virkið, ef hættu bar að höndum. Clementius VII flúði í virkið undan herjum Karls V Frakkakonungs 1527 og lét gera vistarverur þar. Síðar var kastalinn löngum notaður sem herbúðir og fangelsi, en nú er hann orðinn að safni. Í óperunni Tosca eftir Puccini varpar söguhetjan sér út af virkisveggnum.

Gengið er inn í safnið frá hliðinni, sem snýr að ánni. Farið er upp rampa og tröppur í megingarð virkisins, þar sem er upprunalega marmarastyttan af engli virkisins, frá 1544. Rampinn er að verulegu leyti í upprunalegu ástandi, með svart-hvítum steinfellumyndum. Við efri enda hans var útfararklefi Hadrianusar.

Safnið er að mestu hernaðarlegs eðlis. Á efstu hæð eru vistarverur þriggja páfa, Piusar IV, Juliusar II og Páls III. Vistarverur Juliusar eru hannaðar af Bramante. Þaðan er gott útsýni yfir borgina. Á þessari hæð er einnig bókasafn og leyndarskjalasafn páfastóls.

Á næstefstu hæð er megingarðurinn, Cortile di Onore, garður Alexanders VI af Borgia, dómsalurinn í kastalamiðju, nokkrir fangaklefar, svo og kapella Leo X, hönnuð af Michelangelo, reist þar sem upprunalega kapellan var. Í fangaklefunum sat meðal annarra munkurinn og vísindaheimspekingurinn Giordano Bruno.

Safnið er opið þriðjudaga-laugardaga 9-14, sunnudaga 9-13, mánudaga 14-19.30.

Vaticano

Við göngum til hægri úr kastalanum og áfram breiðgötuna Via della Conciliazione, sem liggur beint til Péturstorgs og Péturskirkju, miðpunkts heimsins í síðustu fimm aldir. Við ætlum þó fyrst að skoða hin víðáttumiklu söfn Vatíkansins, því að dyrum þeirra er lokað kl.13 á veturna.

Hér stöndum við ekki á Ítalíu, heldur í ríki Páfastóls. Hér fást frímerki Vatíkansins og hér eru póstkassar þess. Héðan komast póstkort fljótar heim en úr póstkössum Rómar.

Frá torginu beygjum við til hægri meðfram húsum Páfaríkis, eftir Via di Porta Angelica, Piazza del Risorgimento, Via Michelangelo og Viale Vaticano, samtals um 800 metra leið að dyrum Vatíkansafna.

Vatíkansöfnin eru í páfahöllum, sem smám saman voru reistar, allt frá því um 500, en einkum eftir 1377, þegar páfastóll var fluttur aftur til Rómar frá Avignon og Vatíkanið tók við af Laterano-höllinni, sem hafði eyðilagzt í eldsvoða. Flest húsin eru frá 15. og 16. öld. Smám saman hlóðu páfarnir upp forngripum og dýrgripum, sem fylltu sali hallanna. Söfnin hafa verið opin almenningi síðan í lok 18. aldar, en hafa mikið verið stækkuð síðan.

Musei Vaticani

Vatíkansöfnin eru opin mánudaga-laugardaga 9-14, á sumrin einnig 14-17 mánudaga-föstudaga.

Þetta eru vel skipulögð og mikið sótt söfn, einkum fræg fyrir Sistínsku kapelluna, sem hefur verið hreinsuð og logar nú í litadýrð málverka Michelangelos. Auðvelt er að fara um söfnin, því að fjórar misjafnlega langar og ítarlegar leiðir um þau eru merktar fjórum litum. Við veljum ótrauð lengstu leiðina.

Fyrst liggur leiðin um egypzka safnið með styttum af móður Ramsesar II og Mentuhotep faraó í sal nr. 5.

Síðan förum við um grísk-rómverska safnið, þar sem frægastur er Belvedere-garður. Þar eru frægar styttur af Apollo og Perseifi, en einkum þó styttan af Laocoën konungi og sonum hans, sem reyna að verjast höggormum. Þessi höggmynd er frá Rhodos frá 1. öld f.Kr. og fannst í gullhöll Neros keisara. Þetta verk er oft tekið sem dæmi um spennuna í hlaðstíl hellenismans, er grísk list rann skeið sitt á enda.

Næst er etrúska safnið með dýrgripum úr grafhýsi etrúskra hjóna. Munirnir sýna vel sérstöðu etrúskrar menningar, sem var öðru vísi en grísk og rómversk og stundum talin ættuð frá Litlu-Asíu.

Stanze di Rafaello

Þá liggur leiðin um langan gang, þar sem er teppasafn og safn landakorta frá 1580-1583. Loft þessara sala eru rækilega skreytt.
Síðan förum við um sali Rafaels, með verkum hans frá 1508-1517, þar á meðal eldsvoðanum í Borgo, Aþenuskólanum, messunni í Bolsena og frelsun Péturs postula úr fangelsi. Þessir salir eru frægasti hluti safnanna næst á eftir Sistínsku kapellunni.

Svo förum við um Nikulásarkapellu með freskum eftir Fra Angelico frá 1447-1451 og um Borgia-sali með freskum eftir Pinturicchio frá 1492-1503.

Capella Sistina

Þá er röðin komin að Sistínsku kapellunni, sem var reist 1475-1480. Þar er frægast loftið, sem Michelangelo málaði 1508-1511 og gaflmynd hans af dómsdegi, máluð 1533. Loftmyndirnar sýna sköpun heimsins, brottrekstur Adams og Evu úr aldingarðinum og Nóa.

Dómsdagsmyndin er hlaðin spennu og markar þau tímamót, að endurreisnarstíll er þá að byrja að breytast yfir í hlaðstíl.

Næst er málverkasafnið, Pinacoteca, þar sem eru meðal annars þrjú altarismálverk Rafaels, af krýningu heilagrar Maríu, Madonnu frá Foligno og ummyndun Krists á fjallinu. Þar er líka heilagur Jeronimus eftir Leonardo da Vinci og losun Krists af krossinum eftir Caravaggio.

Ferðinni um söfn Vatíkansins lýkur í yngsta hlutanum; fornminjasafni, þar sem meðal annars eru steinfellumyndir úr baðhúsi Caracalla; og kristminjasafni, þar sem eru nokkrar þekktar steinkistur.

Við förum ekki sömu leið til baka úr safninu, heldur með strætisvagni, sem ekur á hálftíma fresti um garða Vatíkansins milli safns og torgsins framan við Péturskirkju.

San Pietro

Hér var áður Péturskirkja hin fyrri, reist á dögum Constantinusar mikla á fyrri hluta 4. aldar, sennilega 326, og var lengi ein af höfuðkirkjum Rómar, en ekki páfakirkja. Hún var reist hér, af því að á þessum stað var Pétur postuli sagður hafa verið krossfestur á dögum Neros keisara.

Péturskirkja hin síðari var í upphafi krosskirkja, jafnarma eins og grískur kross, að mestu hönnuð og reist af Michelangelo 1547-1564, en var síðan lengd í byrðu af Maderno og Bernini á fyrri hluta sautjándu aldar, þannig að grunnmynd hennar varð eins og latneskur kross. Samtals tók bygging hennar meira en hálfa aðra öld, allt frá því er Bramante gerði fyrstu teikningarnar 1506 og til þess er Bernini lauk við kirkjutorgið 1667. Kirkjan er byggð í endurreisnarstíl, en skreytt í hlaðstíl.

Sporöskjulaga göngin með fjórum súlnaröðum umhverfis Piazza San Pietro eru eftir Bernini, reist 1656-1667. Markmið sporöskjunnar var að draga athyglina að framhlið kirkjunnar og búa til eins konar náðarfaðm fyrir hina trúuðu, er þeir hlýða á boðskap páfa. Ofan á sporöskjunni eru 140 englastyttur. Í miðju torgsins er einsteinungur frá Heliopolis í Egyptalandi, höggvinn á 1. öld f. Kr., fluttur til Rómar á dögum Caligula. Brunnarnir á torginu eru eftir Maderno, hægra megin, og Bernini, vinstra megin.

Andspænis okkur gnæfir sviplítil framhlið kirkjunnar, hönnuð af Carlo Maderno og reist 1607-1614. Styttur Péturs og Páls postula standa á tröppunum framan við kirkjuna. Héðan frá að sjá skyggir framhliðin að verulegu leyti á meistaraverk Michelangelos, kirkjukúpulinn. Á brúninni standa styttur Krists og allra lærisveinanna nema Péturs sjálfs. Páfasvalirnar eru neðan við gaflaðsþríhyrninginn.

Sjálf kirkjan er ein hin stærsta í heimi, með 450 styttum, 500 súlum og 50 ölturum, ríkulega skreytt marmara og listaverkum, talin rúma 60.000 manns í einu. Hún er rúmlega 200 metra löng, með 140 metra háu og 40 metra breiðu hvolfþaki yfir krossmiðju.
Hvolfþakið er eins konar stækkuð mynd af hvolfþaki Pantheons. Giacomo della Porta lauk við þakið og gerði það heldur léttara útlits en Michelangelo hafði gert ráð fyrir. Hvolfið er alsett steinfellumyndum.

Hægra megin við innganginn er Pietà, höfuðafrek Michelangelos, höggvin 1499-1500 og sýnir sorg Maríu meyjar við lát Krists.
Við kórbak er afar skrautlegur Pétursstóll í hlaðstíl, hannaður af Bernini. Undir hvolfþakinu er hásæti með 29 metra háum og hrikalegum bronshimni, sem Bernini hannaði í hlaðstíl. Bronsinu lét páfinn Urban VIII ræna úr Pantheon. Undir hásætinu er grafhýsi Péturs postula. Framan við það hægra megin er bronsstytta af Jupiter, sem í fornöld stóð á Capitolum, en er nú sögð af Pétri postula, með fægðan fót af kossum trúaðra, sem vita ekki, að þetta er heiðinn guð.

Um norðaustursúluna undir hvolfþakinu er gengið niður í grafarhvelfingar páfa og um leifar gömlu Péturskirkju.
Úr anddyri kirkjunnar er hægra megin farin leiðin til lyftunnar, sem flytur fólk upp á kirkjuþak. Gott útsýni er ofan af framhliðinni, en frábært verður það, ef fólk leggur á sig að klífa tröppurnar af þakinu upp á hvolfþakið.

Frá suðurhlið kirkjunnar er gengið niður í fornan kirkjugarð frá 1.-4. öld, sem grafinn hefur verið út. Panta þarf fyrirfram, ef fólk vill fara þangað niður.

2. ganga, fornar rústir

Miðborg hinnar fornu Rómar var í lægðinni vestur af hæðinni Capitolum og norður af hæðinni Palatinum. Þar var Forum Romanum, höfuðtorg Rómar á lýðveldistíma, og Fori Imperiali, röð höfuðtorga hennar á keisaratíma.

Þessi torg voru öldum saman þungamiðja Vesturlanda, allt frá því að Rómverjar tóku við af Grikkjum sem merkisberar vestursins og þangað til kaþólska kirkjan flutti þungamiðjuna hálfan annan kílómetra suðaustur til Laterano-torgs.

Lítið stendur eftir af fornri frægð þessa svæðis, brot af súlum og veggjum, sem gefa hugmynd um fornan glæsileika. Enn stendur mikið af Trajanusarmarkaði og Maxentiusarbyrðu, bútar af keisarahöllum og heiðnum hofum, nokkrir heilir sigurbogar og fundarsalur öldungaráðsins.

Við hefjum ferðina í norðurhorni svæðisins, á höfuðtorgi Rómar í nútímanum, Piazza Venezia, þaðan sem við sjáum súlu Trajanusar greinilega. Við göngum að henni.

Foro di Traiano

Trajanusarsúlan hefur staðið hér í tæplega nítján aldir, furðanlega vel varðveitt. Trajanus keisari lét reisa hana til að minnast sigra sinna í tveimur styrjöldum við Daka í Rúmeníu. Sagan er sögð í 100 lágmyndum, sem mynda marmaraspíral utan á súlunni og væru alls 200 metra langar, ef þær lægju í beina línu. Eins og mörg marmaraverk fornaldar voru þessar myndir í upphafi málaðar skærum litum. Lengst af stóð efst stytta af Trajanusi, en síðustu fjórar aldirnar hefur Pétur postuli verið á vaktinni. Upphaflega voru háar bókasafnsbyggingar beggja vegna súlunnar og þá var auðveldara en nú að lesa myndasögu súlunnar.

Að baki súlunnar eru leifar fimm skipa Ulpiubyrðu, Basilica Ulpia, sem ber ættarnafn Trajanusar. Við tökum eftir, að fyrir tveimur árþúsundum var yfirborð lands mun lægra í miðbæ Rómar en það er nú. Handan byrðunnar var sjálft Trajanusartorgið undir beru lofti, stærsta torg keisaratímans í Róm.

Vinstra megin, í hálfhring undir hlíðinni, stendur enn að nokkru Kringla hinna fornu Rómverja, safn 150 sölubúða og þjónustufyrirtækja undir einu þaki. Þetta er merkasti hlutinn af Foro di Traiano, hannaður af Apollodorusi frá Damascus og byggður árin 107-113.

Yfir þessum minnisvarða um skipulagskunnáttu hinna fornu Rómverja gnæfir yngra mannvirki, Torre delle Milizie, frá 1227-1241, eitt bezt varðveitta miðaldamannvirki Rómar.

Til þess að skoða hina fornu verzlanamiðstöð þarf að fara upp tröppurnar vinstra megin við hana, Via Magnanapoli, því að þar er eini inngangurinn, frá Via Quattro Novembre, lokaður mánudaga, opinn 9-13 og 15-18 á sumrin, 9-16 á veturna, nema sunnudaga 9-14.

Foro di Augusto

Við förum aftur niður tröppurnar og göngum eftir Via Alessandrina, meðfram grindverkinu, sem snýr að Trajanusarmarkaði, framhjá Casa dei Cavalieri di Rodi, reist 1464-1471 í feneyskum endurreisnarstíl, svo sem sjá má af yfirbyggðu svölunum, sem snúa að Foro di Traiano.

Næst blasa við leifar Foro di Augusto og musteris Marz hefnanda, Martius Ultor, sem Augustus keisari lét reisa árið 31 f.Kr. til minningar um sigur sinn á Cassiusi og Brutusi. Þetta musteri var lengi síðan ættarmusteri afkomenda hans. Beggja vegna þess eru leifar af bogadregnum byrðum. Milli byrðanna og musterins eru tröppur, sem lágu til skuggahverfisins Suburra.

Síðasti hluti fornleifasvæðisins handan grindverksins er Foro di Nerva, framan við hótelið Forum, sem sagt er frá á öðrum stað í þessari bók. Þetta torg vígði Nerva keisari árið 98. Það var langt og mjótt, umhverfis hina fornu aðalgötu Argiletum, sem lá frá Forum Romanum, meðfram Curia til Suburra. Lítið sést af sögufrægum rústum musteris Minervu, sem hér var miðsvæðis á torginu, því að páfinn Páll V lét ræna þær á 17. öld til að byggja gosbrunn á Janiculum.

Í fornöld var hér eitt keisaratorgið enn í röð, þar sem nú eru gatnamót Via dei Fori Imperiali og Via Cavour. Það var torg Vespanianusar keisara með musteri friðarins og bókasafni, þar sem nú er kirkjan Santi Cosma e Damiano. Norðaustan torgsins er turn frá 13. öld, Torre de’Conti.

Foro di Cesare

Mussolini lét í æði sínu leggja breiðgötuna Via dei Fori Imperiali beint yfir hinar fornu rústir. Yfirvöld nútímans hafa ekki enn megnað að manna sig upp í að framkvæma ásetning um að fjarlægja götuna til að leita fleiri fornleifa.

Við förum yfir breiðgötu Mussolinis og göngum til baka eftir henni í átt til Foro di Cesare, sem lá milli áðurnefndra torga og hins forna Rómartorgs, Forum Romanum, þétt við Capitolum-hæð. Við sjáum greinilega niður í tvo þriðju hluta hins forna torgs, sem Cesar lét gera árið 51 f.Kr. Enn standa þar þrjár súlur úr hofi Venusar Genetrix, sem Juliusarætt taldi ættmóður sína, svo og súlubrot úr gjaldeyrisverzlana-byrðunni Argentaria, er stóð meðfram forngötunni Clivus Argentarius.

Við bregðum okkur frá suðurenda torgsins inn sundið Via Tulliano í átt til sigurboga Septimusar Severusar. Á hægri hönd okkar eru tröppur niður í kirkjukjallara. Undir kirkjunni er fangelsi, Mamertine, á tveimur hæðum, þar sem geymdir voru óvinir Rómarveldis, svo sem Jugurta Afríkukóngur árið 104 f.Kr. og Vercingetorix Gallahöfðingi árið 46 f.Kr. Búnar hafa verið til sögur um, að Pétur postuli og fleiri kristnir píslarvottar hafi einnig verið í þessari prísund.

Héðan getum við virt fyrir okkur hluta af Forum Romanum, svo sem sigurboga Severusar og Tabularium, áður en við förum til baka meðfram Via dei Fori Imperiali, eftir göngustígnum Via della Salara Vecchia, til eina inngangsins í Forum Romanum.

Foro Romano

Stærsta torg lýðveldistíma hinnar fornu borgar var Forum Romanum. Það var upprunalega verzlunartorg með múrsteinshúsum, en varð síðan marmaraslegið stjórnmála- og trúmálatorg fram að þjóðflutningum miðalda, þegar Rómarveldi hrundi. Af frágangi eftir fornleifagröft getum við gert okkur í hugarlund skipan merkra bygginga og gatna á þessu svæði, ef við göngum um það og gefum okkur góðan tíma.

Antonio e Faustina

Þegar við göngum frá innganginum niður á torgið, er hof keisarahjónanna Antoniusar og Faustinu á vinstri hönd og grunnur Emilíubyrðu á hægri hönd. Hofið var reist á vegum Antoniusar Piusar árið 141. Súlur framhliðarinnar eru upprunalegir einsteinungar, svo og tröppurnar upp að hofinu. Framhliðin í hlaðstíl er að öðru leyti frá 1602, þegar hofinu hafði verið breytt í kirkju.

Basilica Aemilia, Emilíubyrða, var reist 179 f.Kr. og bar nafn ættarinnar, sem sá um viðhald hennar. Þær leifar, sem nú sjást, eru frá 1. öld. Þarna var verzlað og sættir gerðar.

Meðfram Emilíubyrðu var helgibrautin Via Sacra, þar sem fram fóru sigurgöngur herforingja.

Við norðurenda Emilíubyrðu má sjá götuna Argiletum, sem að fornu var líflegasta gata borgarinnar. Handan götunnar rís Curia.

Curia

Þessi fundarsalur öldungaráðs Rómar er frá 80-29 f.Kr. og var endurreistur árið 283, en hin upprunalega Curia lýðveldistímans stóð við hliðina, þar sem nú er kirkjan Luca e Martina. Húsið varðveittist, af því að því var breytt í kirkju. Curia er fremur drungalegt múrsteinahús, en var auðvitað glæsilegra að fornu, þegar það var klætt marmara. Bronshurðirnar miklu eru eftirlíking, en hinum upprunalegu lét páfinn Alexander VII ræna á 17. öld handa Jóhannesarkirkju við Lateranum-torg, þar sem þær eru enn þann dag í dag.

Í húsinu eru núna tvær marmarabríkur, sem voru áður á Rostra.

Rostra

Fyrir utan Curia er sigurbogi Septimusar Severusar, Arco di Severo, reistur 203 eftir sigra hans og tveggja sona hans gegn Pörþum. Athyglisvert er, að sonurinn Caracalla, sem varð keisari eftir Severus og lét drepa bróður sinn, Geta, lét líka má út nafn hans á sigurboganum. Boginn er sá fyrsti þeirrar gerðar, að súlurnar eru aðskildar frá veggnum að baki.

Við hlið sigurbogans, fjær Curia, er Rostra, ræðupallur torgsins, þar sem ræðuskörungar Rómaveldis komu fram. Slíkur pallur var á torginu allt frá 338 f.Kr., en sá pallur, sem nú stendur, er frá tímum Cesars, frá 44 f.Kr.

Framan við Rostra stendur Fókasarsúla, síðasta byggingaframkvæmd Rómartorgs, tekin úr hofi og reist 608 á vegum páfans í þakklætisskyni fyrir, að Fókas keisari gaf kirkjunni Pantheon til messugerðar.

Tabularium

Að baki gnæfir Tabularium á Capitolum, reist 78 f.Kr. til varðveizlu ríkisskjala, lagabálka og ríkisfjármuna. Neðri hlutinn með súlnariðum er upprunalegur, en ofan á var reist Palazzo Senatorio á 12. öld. Tabularium markaði norðvesturenda Rómartorgs.

Hægra megin fyrir framan Tabularium stóð áður fyrr Sáttahof, Concordia, til minningar um sátt höfðingja og alþýðu Rómar 367 f.Kr.
Fyrir miðju Tabularium standa enn þrjár kórinþusúlur úr hofi Vespanianusar keisara, sem sonur hans og sonarsonur létu reisa að honum látnum árið 79.

Vinstra megin standa átta súlur úr hofi Saturnusar frá 42 f.Kr., en upprunalega var hér elzta hof torgsins, reist 497 f.Kr.
Að baki Saturnusarsúlna eru tólf kórinþusúlur úr súlnagöngum, sem Dominitianus keisari lét reisa til heiðurs tólf helztu Rómarguðum undir lok 1. aldar.

Basilica Julia

Við höldum nú framhjá Fókasarsúlu meðfram grunni hinnar risastóru, fimm skipa Júlíubyrðu, Basilica Julia, sem stóð andspænis Emilíubyrðu við torgið, reist á vegum Cesars 55 f.Kr og fullgerð á vegum Augustusar keisara árið 12. Hún gegndi svipuðu hlutverki og Emilíubyrða, verzlun og dómstörfum. Framan við byrðuna sjást leifar af súlnaröð, sem reist var um aldamótin 300 til heiðurs herforingjum.

Í framhaldi af Júlíubyrðu standa enn þrjár snæhvítar kórinþusúlur frá stjórnartíma Augustusar úr hofi Castors og Polluxar, sem upphaflega var reist á 5. öld f.Kr. til minningar um sigur í orrustunni við Regillusarvatn 496 f.Kr.

Við förum áfram milli þessa hofs og Juliusarhofs, sem stóð við suðausturenda torgsins. Það hof var hið fyrsta í röð hofa keisaradýrkunar, tileinkað Juliusi Cesar keisara, reist 29 f.Kr.

Vestae

Við stefnum beint á hringlaga hof Vestumeyja. Þar sátu kvenprestar og gættu Rómarelds og helgigripa Rómarveldis allt frá 6. öld f.Kr. Þær rústir, sem nú sjást, eru frá valdatíma Severusar í upphafi 3. aldar.

Að baki hofsins eru leifarnar af Vestae, stórhýsi Vestumeyja, þar sem kvenprestarnir bjuggu. Enn má sjá innigarð þeirra með tveimur laugum.

Ofan við Vestae til hægri sjáum við leifar keisarahallar Caligula í hlíðum Palatinum-hæðar.

Við gögum út úr garðinum til vinstri og förum þar aftur inn á Via Sacra, aftan við Regia, sem var á lýðveldistíma Rómar aðsetur æðstaprests Rómar, Pontifex Maximus. Regia er að baki áðurnefnds Juliusarhofs.

Við göngum framhjá leifunum af hringlaga hofi Romulusar, ekki stofnanda Rómar, heldur sonar Maxentiusar keisara, og beygjum til vinstri að byrðu Maxentiusar og Constantinusar.

Basilica Maxentia

Basilica Maxentia e Constantina var reist að mestu 308-312 á vegum Maxentiusar keisara, en fullgerð á vegum Constantinusar keisara. Hún stendur enn að nokkru, gnæfir yfir rústum Rómartorgs og ber vitni um frábæra snilld Rómverja í hvelfingagerð. Þetta var síðasta byrða fornaldar, þriggja skipa og svipuð að flatarmáli og Júlíu- og Emilíubyrður, en voldugri á hæðina. Svipuð tækni var notuð við byggingu hennar og við gerð hinna frægu baðhúsa keisaraaldar.

Arco di Tito

Via Sacra liggur upp að Titusarboga, sem stendur á þrepi, þar sem vegi hallar til beggja átta, til Forum Romanum og til Colosseum. Sigurboginn er í mælirænum hlutföllum og fagurlega skreyttur, reistur árið 81 til minningar um sigra hinna keisaralegu feðga, Vespanianusar og Titusar, á Gyðingum.

Hér beygjum við til hægri af Via Sacra og höldum eftir veginum Clivus Palatinus upp á keisarahæðina.

Palatino

Elzta byggð í Róm var í svölum hlíðum Palatinum-hæðar. Augustus lét reisa sér keisarahöll, Domus Augustana, í auðmannahverfi, sem var á hæðinni á hans dögum. Eftirkomendur hans færðu út kvíarnar og síðasti keisari Flavia-ættar, Dominitianus, breytti allri hæðinni í keisarahöll, Domus Flavia.

Mjög lítið er nú sjáanlegt af hinum miklu byggingum fornaldar, en duldar gersemar eru vafalaust undir trjám Farnese-garða.
Ef við tökum stefnuna á forngripasafnið, er Domus Augustana á vinstri hönd og Domus Flavia á hægri hönd, síðan Domus Livia og loks Domus Tiberiana.

Domus Flavia

Næst brekkunni niður að Forum Romanum eru leifarnar af heimilishofi keisarans við Clivus Palatinus, síðan af hásætissalnum og loks dómbyrðunni, þar sem keisarinn kvað upp úrskurði sína.

Að baki salanna þriggja er garður, peristyle, upprunalega með súlnagöngum í kring og í miðju átthyrnd tjörn, sem enn sést. Undir sölunum þremur og garðinum eru neðanjarðarsalir.

Handan við peristyle var triclinium, borðstofa keisarans, fegursti salur hallarinnar. Hluti gólfsins hefur varðveizt, lagt marglitum marmara.

Beggja vegna við borðstofuna voru nymphaea. Það, sem er hægra megin, hefur varðveitzt sæmilega. Þetta voru setustofur hallarinnar.

Domus Augustana

Stjórnarhöll Augustusar var byggð utan um tvo garða. Sá hærri er vinstra megin framan við forngripasafnið og hinn lægri er að baki þess, einnig vinstra megin. Neðri hæðir hallarinnar gnæfa enn í íhvolfum sveig yfir Circus Maximus handan hæðarinnar.

Vinstra megin við Domus Augustana sést enn leikvangur frá tíma Dominitianusar, upprunalega umluktur tveggja hæða súlnagöngum.

Sporbaugurinn í öðrum enda leikvangsins er viðbót frá tíma Þeodoriks Austgotakonungs á 6. öld. Handan leikvangsins eru rústir baðhúss, sem reist var á vegum Maxentiusar keisara.

Domus Livia

Ef við förum þvert gegnum Domus Flavia, komum við að svæði fornleifagraftar. Þar eru leifar musteris, sem Augustus reisti guðinum Apollo. Ennfremur eru þar rústir af Domus Livia, sem var bústaður Augustusar. Veggmyndir hafa verið losaðar af veggjum og settar upp fyrir framan þá, svo að betra sé að virða þær fyrir sér.

Domus Tiberiana

Milli Domus Livia og Forum Romanum eru Farnese-garðar, lagðir á miðri 16. öld ofan á því, sem áður voru rústir keisarahalla Tiberiusar, Caligula, Trajanusar og Hadrianusar. Næst Domus Livia var höll Tiberiusar, en fjærst, þar sem útsýnissvalirnar eru yfir Forum Romanum, var höll Caligula. Hallir Trajanusar og Hadrianusar voru þar inn af, nær Clivus Palatinus. Ekkert sést nú ofanjarðar af höllum þessum, en leifar bogariða sjást í hlíðunum, sem snúa út að Forum Romanum. Undir Farnese-görðum má vafalaust finna fleiri menjar þessara keisarahalla.

Arco di Constantino

Við höldum til baka niður að Titusarboga og förum Via Sacra meðfram nokkrum súlum úr musteri Venusar og Rómar, sem reist var á vegum Hadrianusar 121-136, í átt til sigurboga Constantinusar og hringleikahússins Colosseum. Á þessum slóðum var inngangurinn í gullhöll Neros.

Sigurboginn var reistur 315 til minningar um sigur Constantinusar yfir keppinauti sínum, Maxentiusi, mjög vel hannaður og mikið skreyttur lágmyndum. Sumum hinum beztu þeirra hafði verið rænt af eldri minnismerkjum Trajanusar, Hadrianusar og Aureliusar frá upphafi 2. aldar.

Þá þegar var hafinn sá langi tími í sögu Rómar, að ný og lakari minnismerki voru reist með því að spilla þeim betri, sem fyrir voru. Kirkjunnar menn voru mikilvirkastir í þeim spellvirkjum og hefur það til dæmis komið feiknarlega hart niður á Colosseum.

Colosseo

Colosseum er einkennistákn hinnar fornu Rómar á svipaðan hátt og Péturskirkja er einkennistákn hinnar kristnu Rómar. Sporöskjulagað hringleikahúsið, sem er 188 og 156 metrar að þvermáli og rúmaði 50.000 áhorfendur, var reist árin 72-96, á stjórnarárum hinna flavísku keisara, Vespanianusar, Titusar og Dominitianusar.

Grunnform þess stendur enn að mestu, þótt það hafi verið rúið marmara og öðru skarti, sætum og heilu veggjunum. Það vekur enn ógnþrungna virðingu ferðamanna, því að ljósmyndir segja litla sögu um stærð þess og efnismagn.

Að utanverðu er Colosseum fjögurra hæða. Neðst er dórískt súlnarið, síðan jónískt rið á annarri hæð og kórinþurið á hinni þriðju, en næsta heill veggur á hinni fjórðu, á sínum tíma lagður bronsskjöldum. Þessi röðun grískra súlnaforma hefur æ síðan orðið byggingameisturum til fyrirmyndar. Yfir mannvirkið var dreginn tjaldhiminn, þegar þurfti að skýla áhorfendum fyrir sól eða regni.

Bygging hringleikahússins var verkfræðilegt afrek. Með þreföldum útvegg og þrautskipulögðu kerfi stiga milli veggjanna var séð um, að 50.000 áhorfendur gætu yfirgefið það á skömmum tíma. Undir sýningarsvæðinu var einnig mikið aðflutningskerfi starfsfólks, þræla og dýra, sem sjá má ofan frá, ef menn fara hring um svæðið.

Sýningar lögðust af á 6. öld, og á 13. öld var leikhúsinu breytt í virki. Á 15. öld var hafizt handa við að taka úr því grjót til byggingar Péturskirkju, Feneyjahallar og fleiri mannvirkja í Róm. Þessi vandalismi hélt áfram í þrjár aldir, unz hann var stöðvaður á 18. öld.

Domus Aurea

Colosseum var reist, þar sem áður var hallartjörn Gullhallar Neros keisara, Domus Aurea. Hann lét reisa höllina árið 64 utan í hæðinni Esquilinum eftir mikinn bruna í Róm. Hún stóð aðeins í fá ár, en varð fræg fyrir íburð, þar á meðal ilmefnaleiðslur. Aðalmatsalurinn snerist í hring eins og veitingasalur Perlunnar.

Með eftirmönnum Neros hófst hinn hvimleiði siður að rífa gömul mannvirki í Róm til að byggja ný. Keisararnir byrjuðu á þessu og síðan tóku páfarnir við. Grunnur hallar Neros var notaður undir baðhús Trajanusar, sem líka er horfið. Merki þessara bygginga, nokkur veggjabrot, má sjá í hlíðinni norðaustan við Colosseum.

Hér er ráð að gera hlé á skoðun og bregða sér í síðbúinn hádegismat í Da Nerone eða Tre Scalini, sem getið er í veitingakafla bókarinnar.

Terme di Caracalla

Frá veitingahúsinu eða Colosseum getum við tekið leigubíl til almennings-baðhallar Caracalla eða gengið hálfan annan kílómetra suður frá sigurboga Constantinusar eftir Via di San Gregorio og svo til suðausturs eftir Via delle Terme Caracalla. Voldugir veggir og 30 metra há hvolf baðhallarinnar leyna sér ekki, þegar við nálgumst.

Rústirnar gefa góða mynd af hefðbundnu baðhúsi frá rómverskum tíma, að vísu með óvenjulega stórbrotnu hallarsniði. Það er samhverft um miðju, þar sem voru heit baðstofa, caldarium; volg baðstofa, tepidarium; og köld baðstofa, frigidarium. Beggja vegna við köldu baðstofuna voru búningsklefar og enn utar leikfimisalir, gymnasium. Beggja vegna við heitu baðstofuna voru þurrgufubaðstofur, laconicum. Þessu fylgdi þaulhugsað kerfi vatns- og hitaleiðsla. Utan um höllina voru garðar, þar sem voru fleiri leikfimisalir og bókasöfn, því að baðhús Rómverja voru um leið félagsmiðstöðvar og menningarmiðstöðvar.

Caracalla keisari og eftirmenn hans létu byggja þessa baðhöll 212-235, lagða marmara og steinfellumyndum, og var hún þá hin stærsta í Róm, með aðstöðu fyrir 1600 manns í einu. Það var notað í rúmar þrjár aldir, unz vatnsrið Rómverja voru mörg hver eyðilögð í árásum þjóðflutningatímans. Þegar menn skoða slíka baðhöll, má minnast þess, að enn meiri mannvirki og enn meiri verkfræðiafrek fólust í hinum feiknarlegu vatnsriðum, sem fluttu vatn úr fjöllunum til borgarinnar og baðhúsa hennar.

Hægt er að ganga um leikfimisali, búningsklefa og köldu baðstofuna. Á þessari leið má sjá falleg steinfellumynztur í gólfum. Miklir hljómleikar eru stundum haldnir í heitu baðstofunni og garðinum fyrir framan hana.

San Stefano Rotondo

Frá baðhöllinni förum við yfir Via delle Terme Caracalla, nokkurn spöl til hægri eftir henni og beygjum síðan til vinstri eftir Via Druso og Via dell’Amba Aradam til Laterano-torgs, um 1200 metra leið. Við getum líka tekið krók úr Via Druso til vinstri eftir Via della Navicella og síðan til hægri eftir Via di San Stefano Rotondo, sem einnig liggur til torgsins, og verður leiðin þá 500 metrum lengri.

Ef við tökum á okkur krókinn, förum við hjá San Stefano Rotondo, stærstu hringkirkju frumkristninnar, byggðri 468-483, og átti þá að vera nákvæm eftirlíking frægustu kirkju þess tíma, fjallkirkjunnar í Jerúsalem. San Stefano var lengi ein af höfuðkirkjum Rómar, ríkulega skreytt, en má nú muna fífil sinn fegri.

San Stefano var upphaflega 45 metrar að þvermáli, með tveimur ferilgöngum umhverfis altarismiðju, sem haldið er uppi af jónískum súlum, lýst 22 lyftingargluggum. Páfinn Nikulás V lét spilla kirkjunni 1453 með því að láta hlaða upp í ytra súlnariðið og rífa ytri ferilganginn.

San Giovanni in Laterano

Þegar við komum inn á Laterano-torg, verður fyrst fyrir okkur skírnhúsið, Battistero, á hægri hönd og Laterano-höll beint framundan, en á milli þeirra sést í hlið hinnar fornu kirkju, sem var höfuðkirkja páfastóls fyrir daga Péturskirkju. Til þess að komast að framhlið kirkjunnar, þurfum við að ganga umhverfis Laterano-höll.

Þessi kirkja var endastöð íslenzkra pílagríma sögualdar og Sturlungaaldar. Hingað komu Guðríður Þorbjarnardóttir og Sturla Sighvatsson til að fá aflausn synda sinna, því að hér var kirkja páfans í nærri þúsund ár, frá 314 og til útlegðarinnar í Avignon 1309.

Skírnhúsið er jafngamalt kirkjunni. Á 4. öld voru allir kristnir menn skírðir í því. Nokkrar breytingar voru gerðar á því á 5. öld og síðan aftur á 16. öld.

Gamla páfahöllin er horfin, en í hennar stað er komin höll frá 1586. Hún er erkibiskupsstofa Rómar og ræður páfinn þar ríkjum, því að hann er jafnan einnig erkibiskup Rómar. Þótt San Giovanni sé ekki lengur höfuðkirkja kristninnar, er hún enn dómkirkja Rómar.

Fyrir framan erkibiskupshöllina er stærsti einsteinungur Rómar, frá 15. öld f.Kr., fluttur til Rómar á dögum Constantinusar II.
Þegar við komum fyrir hornið, blasir við voldug framhlið kirkjunnar og veldur strax vonbrigðum, þótt hún sé falleg. Því veldur, að hún er ekki forn, heldur í hlaðstíl frá 18. öld.

Upphaflega var þessi kirkja reist á vegum Constantinusar mikla, þá tileinkuð Kristi og ekki Jóhannesi skírara fyrr en síðar. Þetta var fimm skipa kirkja, sem fór illa í árásum villiþjóða á 5. öld, jarðskjálfta 896 og eldsvoða 1308. Ekkert er raunar talið standa eftir af hinni upprunalegu kirkju, nema einhverjir veggir og hlutar hinnar stóru steinfellumyndar í hvolfi kórbaks.

Innan við kirkjuportið sjáum við voldugar bronshurðir, sem rænt var frá fundarsal öldungaráðsins í hinni fornu Róm. Þar fyrir innan sjáum við hlaðstílskirkju, hannaða af Borromini og byggða upp úr hinni gömlu kirkju 1646-1650, en þó með fyrra timburlofti frá 16. öld og steinfellumyndinni gömlu. Eitt helzta einkenni kirkjunnar eru risastór líkneski af postulunum tólf, hönnuð af lærisveinum Berninis.

Steinfellumyndin lifði af endurbyggingu á 5. öld og aðra á 13. öld, þegar Jacopo Torriti bætti í hana nýjum atriðum. Borromini lét hana í friði á 17. öld, en svo varð hún á 19. öld fyrir skemmdum, sem hafa síðan verið lagfærðar. Óljóst er, hve mikið af henni er upprunalegt.

Við Laterano-torg er ágætt veitingahús, Cannavota, sem getið er í veitingakafla bókarinnar.

3. ganga, gamli bærinn, I

Santa Sabina

Við tökum leigubíl að Santa Sabina, sem er á útsýnisstað uppi á Aventino-hæð. Santa Sabina er frá 422, ein elzta byrðukirkja í Róm, haldið uppi af fögrum bogariðum kórinþusúlna. Þau eru fyrsta rómverska dæmið um, að hrein súlnarið leysi blönduð vegg- og súlnarið af hólmi, og má kirkjan því teljast fyrsta rómverska kirkjan í rómönskum stíl. Gáruðum marmarasúlunum hafði verið rænt úr rómversku hofi. Kirkjunni var breytt á 9., 13. og 16. öld, en eftir lagfæringar á 20. öld er hún orðin lík því, sem hún er talin hafa verið í upphafi.

Einna merkustu gripir kirkjunnar eru hinar upprunalegu, útskornu vesturdyr úr kýprusviði, sem sýna myndir úr ævi Móse og Jesú, þar á meðal ein elzta mynd, sem til er af krossfestingunni. Ofan við innganginn eru leifar upprunalegu steinfellumyndanna, sem áður náðu allan hringinn ofan við súlnariðin. Stóra steinfellumyndin í kórbakshvolfi er 16. aldar eftirlíking af upprunalegri mynd.
Frá garðinum við hlið kirkjunnar er útsýni yfir miðbæ Rómar og til Péturskirkju.

Circo Massimo

Þegar við komum út úr garðinum, beygjum við til vinstri Via di Santa Sabina og síðan í beinu framhaldi Valle Murcia, alls 500 metra leið, niður á Piazzale Romolo e Remo, þar sem er útsýni yfir Circus Maximus og handan hans til keisarahallanna fornu á Palatinum. Þessi forni veðhlaupavöllur er núna orðinn að grasi grónu útivistarsvæði með grasbrekkum og sýnir vel upprunalegt form vallarins.

Circus Maximus var stærsta veðhlaupabraut Rómar, fyrst 500 og síðan 600 metra löng og rúmaði 150.000 áhorfendur á tímum júlíönsku keisaranna, en 250.000 á tíma Trajanusar. Veðhlaupin voru aðallega stunduð á tví- og fereykjum og voru eitt helzta tómstundagaman Rómverja á keisaraöld.

Santa Maria in Cosmedin

Við göngum niður brekkuna eftir Via dei Circo Massimo og síðan Via Greca í beinu áframhaldi norður í átt til gamla miðbæjarins, niður á Piazza Bocca della Verità, alls 400 metra leið. Okkur á hægri hönd er kirkjan Santa Maria in Cosmedin, auðþekkjanleg á háum turni. Torgið nær nokkurn veginn yfir sama svæði og Forum Boarium, hinn forni nautgripamarkaður Rómar. Norðan við hann upp með ánni var hinn forni Forum Holitorium, ávaxta- og grænmetismarkaður.

Kirkjuturninn hái er frá 12. öld, en sjálf kirkjan frá 6. öld, ein fegursta kirkja sem um getur í rómönskum stíl, látlaus og stílhrein. Eftir ýmsar breytingar fyrri alda var hún á 19. öld færð í upprunalegt horf.

Vinstra megin í kirkjuportinu er forn vatnsleiðsluskjöldur með ógnvekjandi andlitsmynd. Á miðöldum var þeirri sögu hleypt af stokkunum, að höndin mundi klippast af hverjum þeim, sem segði ósatt, er hann stingi henni í skjaldarmunn. Af því draga skjöldurinn og torgið nafn.

Milli kirkjuskipanna eru fagrar korinþusúlur úr marmara, stolnar úr fornum, rómverskum mannvirkjum. Glæsilegt gólfið er yngra, frá 12. öld.

Tempio di Vesta

Andspænis kirkjunni við torgið er hringlaga hof frá 2. öld f.Kr., ranglega kennt við Vestu, af því að það líkist Vestuhofinu á Rómartorgi, en er sennilega Herkúlesarhof. Þetta er elzta marmarahof, sem hefur varðveitzt í Róm, reist úr marmara, sem var fluttur inn frá Grikklandi. Hringlaga kórinþusúlnariðið er frá tíma Tiberiusar keisara, sem lét gera hofið upp. Hofið varðveittist á hinum kristnu öldum, af því að það þjónaði þá sem kirkja.

Tempio della Fortuna Virile

Við hlið Herkúlesarhofsins er annað hof í ágætu ástandi, að sögn tileinkað karlmannsgæfu, Fortuna Virilis, en upprunalega sennilega helgað árguðnum Portumnusi. Það er frá sama tíma, 2. öld f.Kr., er ferhyrnt í laginu og skartar gáruðum jóníusúlum. Þetta hof hefur einnig varðveitzt um aldirnar á þeim forsendum, að það þjónaði sem kirkja. Það er eitt hið bezt varðveitta í Róm.

Arco di Giano

Við þann enda torgsins, sem lengst er frá hofunum tveimur, er Janusarbogi, sérstæður að því leyti, að hann hefur fjórar hliðar með bogagöngum, en ekki tvær, enda spannaði hann að fornu krossgötur við norðurenda kjötmarkaðarins Forum Boarium. Hann er frá 4. öld, tileinkaður guðinum Janusi.

Frá torginu göngum við Via di San Giovanni Decollato 200 metra leið norður til Piazza della Consolazione. Fyrir enda torgsins er Santa Maria della Consolazione, kirkja frá 1470 með forhlið frá 16. öld. Síðan göngum við 300 metra leið eftir Vico Jugario undir hlíðum Kapítóls-hæðar að breiðgötunni Via di Tetro di Marcello. Fyrir ofan hlíðarnar er Tarpeiu-klettur, þar sem svikurum var fleygt fram af, heitinn eftir Tarpeiu þeirri, sem hleypti her Sabína inn í borgina á dögum Romulusar.

San Nicola in Carcere

Hinum megin við breiðgötuna er San Nicola in Carcere, reist á 11. öld á rústum þriggja hofa, sem stóðu hlið við hlið ofan við Forum Holitorum, grænmetismarkaðinn. Í hliðarvegg kirkjunnar má sjá súlnarið úr einu hinna gömlu hofa.

Árbakkinn við Forum Holitorum og Forum Boarium var höfnin í Róm fornaldar. Hingað sigldu skip með varning til Rómar. Svæðið frá Santa Maria in Cosmedin og hingað til San Nicola var hafnarhverfi Rómar, þétt skipað hofum af ýmsu tagi.

Í framhaldi af þessu kaupskipalægi var svo herskipalægi til norðurs upp með ánni. Við förum þá leið, sem liggur meðfram ánni að kirkjubaki, Lungotevere dei Pierleoni, 300 metra leið að brúnni yfir ána.

Ponte Fabricio

Ponte Fabricio er eina brúin á Tiburfljóti, sem hefur varðveitzt óbreytt frá fornöld. Hún var reist 62 f.Kr., á tíma Fabriciusar ræðismanns, og er því meira en 20 alda gömul. Hún tengir meginhluta borgarinnar við Tibureyju. Breið boghöf hennar sýna, hversu djarfir og traustir rómverskir verkfræðingar fornaldar voru í burðarþolsfræðum og hve vel sum verk þeirra þola jarðskjálfta, flóð og styrjaldir.

Tibureyja er aðsetur munkareglu, Fatebenefratelli, sem fæst við hjúkrun í beinu framhaldi af, að þetta var eyja læknislistar í heiðnum sið. Þar sem nú er kirkjan San Bartolomeo, var áður hof Æsculapiusar, guðs læknislistarinnar. Byggingar eyjarinnar eru að mestu leyti sjúkrahús.

Teatro di Marcello

Þegar við höfum skoðað eyna, förum við til baka Ponte Fabricio og göngum milli San Nicola og Teatro di Marcello til áðurnefndrar götu, Via di Tetro di Marcello, þar sem við beygjum til vinstri meðfram Teatro di Marcello.

Smíði leikhúss Marcellusar hófst á dögum Cesars og var lokið 11 f.Kr. á stjórnarárum Augustusar, tileinkað systursyni hans. Af hinu upprunalega leikhúsi standa enn tvær hæðir súlnariða af þremur. Neðst er dórísk súlnaröð, þar ofan á jónísk, og talið er, að hin þriðja hafi verið kórinþsk. Talið er, að súlnariðin hafi verið fyrirmynd Colosseum.

Súlurnar, sem enn sjást, eru hluti af hálfhringlaga áhorfendasvæði leikhússins. Þetta var næststærsta leikhús Rómar, á eftir leikhúsi Pompeiusar á Marzvöllum, var 120 metrar í þvermál og rúmaði 20.000 áhorfendur. Hér voru leiksýningar, tónleikar, upplestur og ræðuhöld að fornu.

Rústum leikhússins var 1150 breytt í kastala og síðan í höll á 16. öld. Minjar þess má sjá ofan á súlnariðum leikhússins.

Framan við súlnarið Marcellusar sjáum við þrjár kórinþusúlur, sem eftir standa af frægu hofi Apollos, sem reist var 433-431 f.Kr. og endurnýjað 34 f.Kr. Hinn gríski guð var í metum hjá Rómverjum, einkum þegar leitað var ráða gegn sjúkdómum.

Portico d’Ottavia

Við förum framhjá hofi Apollos og beygjum til vinstri á Piazza di Campitelli, þar sem er kirkjan Santa Maria in Campitelli frá 1661, hlaðin súlnariðum að innan sem utan.

Á næstu gatnamótum, þar sem er veitingahúsið Vecchia Roma, beygjum við enn til vinstri í Via Tribuna di Campitelli og göngum þá götu og framhald hennar, Via di Sant’Angelo di Peschieria, alla leið til Via Portico d’Ottavia.

Hér sjáum við Octaviuport, leifar mikils mannvirkis, sem Caecilius Metellus lét reisa 146 f.Kr. Portið er hluti girðingar umhverfis tvö hof, helguð Juno og Jupiter. Augustus keisari lét endurbæta mannvirkið 27-23 f.Kr. og tileinkaði Octaviu konu sinni. Severus keisari lét enn endurbæta það 203 og frá þeim tíma er portið, sem nú sést.

Í stað tveggja af súlum portsins var á miðöldum byggður múrsteinabogi til að halda portinu uppi og stingur hann mjög í stúf við hinn upprunalega hluta.

Ghetto

Við göngum Via Portico d’Ottavia til vesturs í átt til Via del Progesso. Á þessum slóðum er Gyðingahverfi Rómar, svokallað Ghetto.

Gyðingar bjuggu fyrst í Trastevere, handan árinnar. Þeir voru látnir flytja hingað á 13. öld og Páll páfi IV lét gera múr um hverfið um miðja 16. öld. Hann var síðan rifinn um miðja 19. öld, en hverfið umhverfis Octaviuport ber enn Gyðingleg merki, þar á meðal veitingahúsin. Áður var nefnt veitingahúsið Vecchia Roma og hér í þversundinu Via Monte de’Cenci út frá Via del Progresso er annað, Piperno. Þau eru bæði í veitingakafla þessarar bókar.

Við förum ekki alla leið til Via del Progresso, heldur beygjum til hægri út af Via Portico d’Ottavia eftir Via Sant’Ambrogio til Piazza Mattei. Þar er frægur gosbrunnur, Fontana della Tartarughe, frá 1581-1584.

Við höldum áfram frá torginu eftir Via Paganica og komum að stóru torgi með niðurgrafinni miðju.

Largo di Torre Argentina

Hér komum við að fornleifagreftri, sem meðal annars sýnir, hversu miklu lægra var yfirborð lands á dögum Rómarveldis. Minjarnar, sem hér sjást, eru leifar elztu hofa, sem fundizt hafa í Róm, frá lýðveldistíma borgarinnar, sumpart frá 5. öld f.Kr.

Við göngum framhjá miðaldaturni á horni torgsins og meðfram grindverkinu austan megin torgsins. Fyrst komum við að leifum elzta hofsins, sem var í etrúskum stíl. Miðhofið var hringlaga, frá 2. öld f.Kr. Þriðju og síðastar í röðinni eru rústir hofs, sem byggt var og endurbyggt á ýmsum tímum, frá 4. öld til 1. aldar f.Kr, en inni í því eru einnig leifar miðaldakirkju. Að baki þessa hofs er hár veggur, sem að fornu var hluti almenningsnáðhúss.

Að baki rústanna, vestan torgsins, er leikhúsið Argentina, þar sem Rakarinn frá Sevilla var fyrst settur upp og kolfelldur, svo sem frægt hefur orðið. Sömu megin er eitt af frægustu kaffihúsum Rómar, Bernasconi.

Frá torginu förum við austur eftir aðalgötunni Corso Vittorio Emanuele II og komum fljótlega að voldugri kirkju, Gesú.

Gesú

Gesú er frá 1568-1575, fyrsta hlaðstílskirkja Rómar, hönnuð af Vignola fyrir nýstofnað munklífi jesúíta og er enn höfuðkirkja þess. Framhliðin, sem við sjáum, er eftir Giacomo della Porta, frá árunum 1573-1584. Þessi virðulega og spennuþrungna framhlið með súlnapörum á tveimur hæðum, sem eru tengdar með bókrolluvindingum varð fyrirmynd mikils fjölda kirkna víða um heim.

Sjálf kirkjan er samþjöppuð að formi, teiknuð í anda gagnsiðaskipta kristmunka, sem vildu færa söfnuðinn nær prestunum. Hún er aðeins einskipa, og kapellustúkur koma í stað hefðbundinna hliðarskipa. Þetta auðveldaði söfnuðinum að sjá til prestanna. Ennfremur var reynt að hafa hljómburð sem beztan í kirkjunni.

Hinar miklu skreytingar eru viðbrigði frá fyrri byggingarstílum, enda eru þær einni öld yngri en kirkjan, frá þeim tíma, er hlaðstíll hafði fest sig betur í sessi. Giovanni Battista var fenginn 1672 til þess að búa kirkjuna freskum. Frægust þeirra er myndin af Jesú í skipshvolfi kirkjunnar.

Skrautlegasti hluti kirkjunnar er þriðja kapellan hægra megin, tileinkuð stofnanda reglunnar, Ignatiusi Loyola, gerð af Andrea Pozzo 1696-1700, lögð dýrum steinum á borð við dökkbláan lapis azuli á grænum marmara.

Piazza Venezia

Við göngum áfram eftir Corso Vittorio Emanuele II og í framhaldi af henni Via del Plebiscito alla leið til Feneyjatorgs, miðtorgs borgarinnar, þar sem höfuðbrautir hennar skerast og þar sem umferðarhnútar verða verstir. Allar leiðir leigubíla virðast þurfa að liggja um þetta torg.

Á hægri hönd okkar er Palazzo Venezia, byggð 1455-1471 á vegum páfans Páls II, sem bjó hér. Síðan bjuggu hér margir páfar, svo og Karl VIII Frakkakonungur og Mussolini hafði hér skrifstofur sínar. Hér kom hann fram á svalirnar og talaði til lýðsins. Undir svölunum er helzti staður stefnumóta í borginni. Nafn hallarinnar kemur frá þeim tíma, er sendiherrar Feneyja bjuggu í hluta hallarinnar. Andspænis henni við torgið er 20. aldar höll, sem dregur dám af Feneyjahöll.

Höllin er fyrsta borgaralega mannvirkið í endurreisnarstíl í Róm. Í stílnum eru miðaldaminni, svo sem hinn voldugi hornturn, en endurreisnartíminn kemur meðal annars fram í póstagluggum hallarinnar og tvöföldu súlnariði framhliðar hallarkirkjunnar til hliðar við turninn.

Kirkjan sjálf er raunar eldri en höllin, upphaflega frá 336, en endurbyggð á 9. öld. Að innan er hún mikið skreytt í stíl ýmissa tímabila. Höllin er líka mikið skreytt hið innra, þótt hún líti hófsamlega út að utanverðu. Í henni er frægur hallargarður og safn listmuna frá miðöldum, opið almenningi virka daga 9-13:30, sunnudaga -12:30, lokað mánudaga.

Monumento Vittorio Emanuele II

Við beinum nú athygli okkar að frægasta mannvirki 19. aldar í borginni, hinu konunglega minnismerki, sem blasir við Piazza Venezia, belgir sig út utan í Capitolum og skyggir rjómahvítt á rústir fornu Rómar. Þetta er hástig tertustílsgreinar sögustíls 19. aldar, teiknað 1884 af Giuseppi Sacconi, en varð ekki fullbyggt fyrr en 1922.

Fyrir miðju mannvirkinu er riddarastytta af Victor Emanuel II, sem var fyrsti konungur sameinaðrar Ítalíu. Fyrir framan styttuna er Þjóðaraltari Ítalíu, minnismerki óþekkta hermannsins.

Santa Maria d’Aracoeli

Við göngum hægra megin við minnismerkið og getum valið um að fara upp brattar tröppur vinstra megin að Santa Maria d’Aracoeli eða aflíðandi tröppur, Cordonata, hægra megin að Piazza del Campodoglio. Kirkjutröppurnar eru frá 1346, 122 að tölu. Efst úr þeim er gott útsýni yfir miðbæinn með hvolfþak Péturskirkju í bakgrunni. Kirkjustæðið var að fornu helgasti staður borgarinnar. Þar var borgarkastalinn, Arx, og hof Junos.

Santa Maria d’Aracoeli er frá 1250, búin gotneskum rósagluggum. Innan í henni er töluvert af listaverkum frá miðöldum, svo sem marmaragólf og steinkistur við innganginn, svo og freskur eftir Pinturicchio í kapellu hægra horns við innganginn. Mest helgi er á barnslíkneski, Santa Bambino í kapellu í vinstra þverskipi.

Piazza Campodoglio

Hægt er að fara út um hliðardyr kirkjunnar, skoða steinfellumyndir yfir dyrunum, og stíga tröppur niður til Piazza Campodoglio. Að öðrum kosti förum við upp hinar tröppurnar, sem áður er getið. Það var Michelangelo, sem hannaði þær eins og torgið ofan þeirra að tilhlutan Páls páfa III 1536 og réð að mestu útliti hallanna við torgið.

Capitolum var guðahæð Rómar. Hér var reist hof Jupiters þegar á etrúskum tíma, á 6. öld f.Kr. Síðar voru þar þrjú hof, Jupiters, Junos og Minervu. Þegar Michelangelo hófst handa, var hin forna frægð lengi búin að vera týnd og geitur hafðar hér á beit.

Torgið er fagurlega steinlagt samkvæmt hönnun Michelangelos. Á mótum trappa og torgs eru gamlar styttur frá keistaratímanum af Castori og Polluxi með hrossum sínum. Þær fundust á Marzvöllum og voru fluttar hingað á 16. öld.

Á miðju torgi er eftirlíking riddarastyttu af Aureliusi keisara frá síðari hluta annarrar aldar. Frummyndin hafði verið flutt hingað frá Laterano-torgi, þar sem hún hafði fengið að vera, af því að menn héldu hana þá vera af hinum kristna Constantinusi keisara. Til skamms tíma stóð sjálf frummyndin hér á torginu.

Miðhöllin við torgið var upphaflega höll öldungaráðs borgarinnar, Palazzo Senatorio, reist 1143 á rústum hins forna Tabularium, og gnæfði yfir Forum Romanum, sem er handan hallarinnar. Michelangelo lét hallarveggina halda sér, en hannaði nýja framhlið, sem var útfærð 1582-1605 af Giacomo della Porta. Hún er nú ráðhús Rómar.

Vinstra megin við miðhöllina er Palazzo dei Conservatori, reist á 15. öld til að hýsa sýslumenn borgarinnar, en endurhönnuð af Michelangelo. Andspænis henni er Palazzo Nuovo í sama stíl, reist 1654. Í báðum þessum höllum eru söfn, meðal hinna beztu í borginni.

Í Palazzo dei Conservatori eru minjar og listaverk, einkum frá fornöld, þar á meðal Spinario, bronsmynd af dreng, sem dregur þyrni úr fæti sér, frá 1. öld f.Kr.; etrúsk bronsmynd af úlfynju, tákn borgarinnar, frá 5. eða 6. öld f.Kr.; og 3. aldar brjóstmynd af Juniusi Brutusi, stofnanda hins forna lýðveldis í Róm. Í safninu er einnig málverkadeild, Pinacoteca Capitolina, með verkum eftir Caravaggio, Cortona, Rubens, Titian og Van Dyck.

Í Palazzo Nuovo eru einnig þekktar myndastyttur frá fornöld, svo sem Venus frá Capitolum, eftirlíking af gömlu verki hins gríska Praxitelesar; og Deyjandi keltinn, eftirlíking af bronsmynd frá Pergamon. Þar eru einnig brjóstmyndir allra rómversku keisaranna.
Söfn þessi eru opin 9-14, þriðjudaga og föstudaga einnig 17-20, lokuð mánudaga. Sami aðgöngumiði gengur að báðum.

Frá torginu er gengið niður að Forum Romanum vinstra megin við Palazzo Senatorio. Hægra megin við hana er gengið niður Via del Campidoglio, þaðan sem er gott útsýni yfir Forum Romanum. Þetta er hinn forni Clivus Capitolinus, leið skrúðgangna frá Forum upp á Capitolum.

4. ganga, gamli bærinn, II

Gamli miðbærinn með flóknu neti undinna gatna, sem bílar komast tæpast um, er skemmtilegasti hluti borgarinnar. Við fórum um hluta hans í 3. göngu, þar sem fjallað var m.a. um Ghetto, Largo di Torre Argentina og Gesú.

Tempietto

Hér verður haldið áfram í gamla bænum og lýst gönguferð um meginhluta hans. Við byrjum handan árinnar, í Trastevere, og förum í leigubíl upp hæðina Gianicolo til kirkjunnar San Pietro in Montorio.

Í garðinum við hlið kirkjunnar er eitt þekktasta listaverk borgarinnar, Tempietto eftir Bramante, hringlaga og formfast hof í gnæfrænum stíl, með dórísku hringsúlnariði, byggt 1502. Þessi bygging markar upphaf há-endurreisnar og prýðir margar bækur um byggingarlist.

Af torginu framan við kirkjuna er gott útsýni yfir Róm. Þar standa upp úr Castel Sant’Angelo vinstra megin; minnismerki Victors Emanuels, Capitolum og Maxentiusarbyrða fyrir miðju; og San Giovanni in Laterano hægra megin.

Héðan göngum við niður tröppur og brekkuna eftir Via Garibaldi að næstu gatnamótum og síðan eftir Via Memeli, unz við komum að tröppum, sem liggja niður að Via della Paglia í Trastevere. Þá götu göngum við til aðaltorgs hverfisins, Piazza Santa Maria in Trastevere.

Santa Maria in Trastevere

Kirkjan við Trastevere-torg er frá 341. Hún var endurbyggð 1140 og þá var klukkuturninn reistur, en súlnaportið löngu seinna, 1702. Kirkjan er fræg fyrir steinfellumyndir á framhlið og að innanverðu. Myndin yfir kórbak ofanverðum af Kristi og Maríu er í býzönskum stíl eftir gríska meistara frá 12. öld, en sex myndirnar þar fyrir neðan eru eftir Pietro Cavallini, frá 13. öld.

Við torgið eru veitingahúsin Sabatini og Galeassi, sem getið er í veitingakafla bókarinnar.

Trastevere

Upprunalega var Trastevere ekki hluti Rómar. Svæðið var byggt Etrúrum og síðan einnig Gyðingum og Sýrlendingum, en Augustus keisari innlimaði það í Róm. Borgarmúr Aureliusar keisara náði utan um hverfið. Þarna bjuggu löngum handverksmenn í nágrenni þáverandi hafnar, en á síðustu árum hefur ungt efnafólk í vaxandi mæli einkennt hverfið. Veitingahús eru á hverju strái í Trastevere og götulíf fjörlegt að kvöldlagi.

Við göngum frá torginu eftir Via della Lungaretta til Piazza Sonnino, þar sem San Crisogno er á horninu, að grunni til frá 5. öld, en endurbyggð á 12. öld. Við beygjum þar til vinstri og förum framhjá 13. aldar Anguillara-turni, dæmigerðum borgarturni frá miðöldum, áður en við höldum yfir ána Tibur á Garibaldi-brú.

Via Giulia

Þegar við erum komin yfir ána, beygjum við til vinstri eftir Lungotevere de Vallati, unz við komum að Piazza Pallotti, þar sem við víkjum inn í göngugötuna Via Giulia, sem er ein af fáum beinum brautum bæjarins. Þetta var ein helzta gata Rómar á endurreisnartímanum, gata fornra kardínálahalla, og hefur hafizt á ný til virðingar í nútímanum, vinsæl gata fornminja- og listaverkasala.

Þegar við komum að garði Farnese-hallar hægra megin, auðþekkjanlegum af klifurjurtum og af 17. aldar göngubrú yfir götuna, er sérkennilegur brunnur, Fontana del Mascherone, á vinstri hönd, andspænis Via del Mascherone, settur upp 1626, en hefur vafalaust verið tekinn ófrjálsri hendi úr einhverri fornbyggingunni.

Palazzo Farnese

Við göngum meðfram Palazzo Farnese og beygjum til hægri á horninu til að komast út á torgið framan við höllina. Þar á torginu eru tvö risastór steinker úr Caracalla-baðhöllinni. Þeim var rænt þaðan 1626.

Palazzo Farnese er helzta verk Antonio Sangallo yngra, hönnuð 1514. Smíðin hófst 1534 og Michelangelo lauk henni að mestu 1546 og Giacomo della Porta að fullu 1589. Hátíðleg höllin er frístæð og hornrétt og býr yfir miðhúsagarði með bogagöngum og súlnaknippum í rómönskum stíl.

Að utanverðu eru hvorki frístæðar súlur né veggsúlur, heldur láréttir fletir í endurreisnarstíl. Á annarri hæð eru gluggagaflöð til skiptis bogadregin og þríhyrnd, samkvæmt fyrirmynd úr hvolfi Pantheons. Ytra form hallarinnar hefur löngum verið talið fullkomnasta dæmi endurreisnarstíls í Róm.

Palazzo Spada

Frá Piazza Farnese göngum við samsíða höllinni eftir Via dei Venti að Palazzo Spada, sem reist var 1540, nokkrum árum á eftir Farnese-höll, enda er stíllinn ekki lengur hreinn endurreisnarstíll, heldur sú grein hans, sem kölluð hefur verið fægistíll eða mannerismi. Veggir eru ekki lengur sléttir og strangir, heldur hlaðnir lágmyndum og ýmsu skrauti. Við sjáum við þetta vel í veggjum efri hæða.

Palazzo Spada er safn, sem sýnir muni, sem Spada kardínáli safnaði á 17. öld, og er þeim komið fyrir á sama hátt og í upphafi. Safnið er opið 8:30-14 þriðjudaga-laugardaga, 9-13 sunnudaga, lokað mánudaga.

Í sundi rétt við höllina, á Via dell’Arco del Monte 95, er veitingahúsið Il Pianeta Terra, sem getið er í veitingakafla bókarinnar.

Piazza Campo dei Fiori

Frá höllinni göngum við til baka út á Farnese-torg, beygjum þar til hægri og förum út af torginu eftir Via dei Corda til Piazza Campo dei Fiori, sem er fjörlegur blóma- og grænmetismarkaður gamla miðbæjarins með þreytulegum húsum í kring. Á miðju torgi er stytta af Giordano Bruno munki, sem var brenndur á báli 1600 fyrir skoðanir sínar um, að jörðin væri ekki miðja alheimsins.

Þetta torg var miðja Rómar á 16. öld. Þar voru borgarhátíðir og aftökur. Þar mæltu menn sér mót og þar voru veitingahúsin, meðal annars krá Vanozzu Catanei, sem átti hin illræmdu systkini Cesare og Lucretia með páfanum Alexander VI Borgia. Kráin er við horn götunnar Vicolo del Gallo. Við suðurenda torgsins er eitt bezta kaffihús Rómar, Om Shanti.

Frá þeim enda göngum við eftir Via del Biscione og Via del Paradiso til Corso Vittorio Emanuele II, þar sem við beygjum til hægri. Í sundi út frá Via del Paradiso, við Piazza del Paradiso 65, er veitingahúsið Costanza, sem getið er í veitingakafla bókarinnar.
San Andrea della Valle

Hér komum við strax að hvítri framhlið San Andrea Della Valle, sem reist var 1591-1665. Fyrsti hönnuðurinn var Carlo Maderno, en hin glæsilega hlaðstíls-framhlið er eftir Carlo Rainaldi, sem tók við af honum. Í stað bókrolluvindinga eru englamyndir látnar tengja neðri og efri hæð framhliðarinnar.

Hvolfþakið eftir Maderno er eitt hið fegursta í borginni og er næststærst þeirra á eftir hvolfi Péturskirkju, málað af Lanfranco.
Við förum yfir götuna framan við kirkjuna og skoðum gosbrunn eftir Maderno.

Piazza di Pasquino

Við snúum til baka eftir Corso Vittorio Emanuele II, framhjá sveigðri framhlið Palazzo Massimo, frá 1527-1536 eftir Baldassarre Peruzzi, að torginu Piazza San Pantaleo, þar sem Palazzo Braschi er við enda torgsins, þar sem Rómarsafn er til húsa.

Héðan eru aðeins nokkrir metrar inn að Piazza Navona og við getum vel skotizt eftir Via Cuccagna til að líta á torgið. Að öðrum kosti förum við frá torginu eftir Via di San Pantaleo til Piazza di Pasquino. Þar á horninu er illa farin stytta, sem sennilega er frá 3. öld f.Kr.

Almenningur kallaði styttuna Pasquino eftir berorðum skraddara, sem frægur er í Rómarsögu fyrir gróft umtal um fína fólkið. Á nóttunni hengdu menn á styttuna háð og spott, skammir og svívirðingar, áróður og auglýsingar, sem um morguninn fóru eins og eldur í sinu um borgina. Þetta var öldum saman ritfrelsishorn Rómar.

Við göngum áfram eftir Via del Governo Vecchio, framhjá handverksbúðum og forngripaverzlunum, til Via della Chiesa Nuova, þar sem við beygjum til vinstri út á torgið fyrir framan Chiesa Nuova.

Oratoria dei Filippini

Chiesa Nuova var reist 1575-1647 í hlaðstíl. Hún er afar skrautleg að innan, samkvæmt hönnun Pietro da Cortona. Hvelfingar miðskips, miðhvolfs og kórs eru þaktar freskum. Englamyndirnar við altarið eru eftir Rubens.

Við hliðina á Chiesa Nuova er Oratorio dei Filippini, hannað og byggt af Borromini 1637-1650, eitt af helztu meistaraverkum hans. Útlitið er samræmt kirkjunni, en til viðbótar gerði hann framhliðina íhvolfa, með hvelfdum og íhvolfum byggingarþáttum, sem hann var frægur fyrir. Þetta er einn hápunktanna í sögu hlaðstíls.

Við förum inn með hlið Oratorio dei Filippini eftir Via dei Filippini til torgsins Piazza dell’Orlogio. Á afturhorni hallarinnar er veggskreyting með englum prýddri Madonnumynd, í líkingu við það, sem víða sést á götum í Róm. Yfir henni er klukkuturn á höllinni.

Via dei Coronari

Frá Piazza dell’Orlogio förum við eftir Via dei Banchi Nuovi og Via Banco di Santo Spirito, eftir samnefndum páfabanka, sem var í hneykslisfréttum fyrir fáum árum. Hér var bankahverfi Rómar á endurreisnartíma.

Þegar við komum að Vicolo del Curato, beygjum við þá götu til hægri og síðan í beinu framhaldi af henni inn Via dei Coronari, sem við göngum nærri því á enda.

Þetta er aðalgata forngripasala í Róm, þétt skipuð smáhöllum og smábúðum, með nokkrum smátorgum á stangli.

Santa Maria della Pace

Við beygjum til hægri inn í Vicolo della Volpe. Við komum þar strax að klaustri við kirkjuna Santa Maria della Pace. Þar er tveggja hæða klausturgarður eftir Bramante frá 1500-1504 með gullinsniði í súlnaskipan. Á neðri hæð eru jónískar veggsúlur á bogastoðum, líkt því sem er á Colosseum. Á efri hæð eru kórinþusúlur með grönnum deilisúlum á milli.

Við göngum nokkur skref áfram eftir Vicolo della Volpe, förum fyrir afturenda Santa Maria della Pace og beygjum meðfram henni til hægri til að komast framan að þessari litlu og vel földu kirkju.

Pietro da Cortona reisti 1656-1657 þessa framhlið í hlaðstíl á eldri kirkju og hannaði raunar líka friðsælt kirkjutorgið, þar sem gert var ráð fyrir fyrsta einstefnuakstri sögunnar, á hestvögnum, sem fluttu aðalsfólk til kirkju. Hann notaði æðóttan kalkstein í framhliðina, eins og Rómverjar gerðu að fornu. Súlnarið framhliðarinnar er hálfhringlaga með íhvolfum vængjum. Þessi form hafa víða verið stæld, svo sem í hliðardyraveröndum Pálskirkju í London. Gaflaðið er í senn þríhyrnt og sveigt.

Að innan er kirkjan frá 15. öld, með stuttu kirkjuskipi og átthyrndu miðhvolfi. Í fyrstu kapellunni hægra megin eru Síbyllur Rafaels frá 1514. Í fyrstu kapellunni vinstra megin er freska eftir Peruzzi. Yfir altari eftir Carlo Maderno er fræg mynd af Madonna della Pace.

Við förum til baka meðfram kirkjunni og beygjum til hægri inn í Via della Pace og beint í framhaldi af henni eftir Via dei Lorensi inn á torgið Piazza Navona.

Rétt norðan við torgið, við Via Zanardelli 14, er veitingahúsið Passetto, sem getið er í veitingakafla bókarinnar.

Piazza Navona

Torgið er í laginu eins og Circus Agonalis, íþrótta- og veðhlaupavöllur Dominitianusar keisara, sem var lagður hér á Campus Martius árið 86. Þá fóru hér fram frjálsar íþróttir og glíma, auk veðhlaupa. Constantinus keisari lét ræna marmara vallarins árið 356. Bardagasýningar riddara voru síðan háðar hér fram á 17. öld. 1477-1869 var grænmetismarkaður borgarinnar á torginu.

Nú er þetta einn helzti ferðamannastaður borgarinnar, enda er banni við bílaumferð framfylgt hér, þótt það sé ekki gert annars staðar í miðbænum. Hér sitja málarar og bjóða vegfarendum verk sín. Hér eru tvö þekkt kaffihús andspænis hvort öðru, Tre Scalini og Colombia. Hinu fyrra má ekki rugla saman við samnefnt veitingahús, sem getið er í veitingakafla bókarinnar.

Á miðju torgi er hinn frægi Fjórfljótabrunnur í hlaðstíl frá 1651 eftir Bernini. Fjórar mannsmyndir, sem tákna höfuðfljótin Dóná, Níl, Ganges og Plate, eru í kringum helli, sem ber uppi rómverskan einsteinung frá tíma Dominitianusar.

Við enda torgsins eru Márabrunnur að sunnanverðu og Neptunusarbrunnur að norðanverðu. Við sunnanverða vesturhlið torgsins er Palazzo Pamphili, hönnuð af Rainaldi 1644.

Sant’Agnese in Agone

Fyrir miðju torgi er hlaðstílskirkjan Sant’Agnese in Agone, eitt þekktasta verk Borrominis, byggð að mestu 1652-1657. Hann gerði hvolfþakið og framhliðina, þar sem fram kemur blanda af ávölum og íhvolfum línum, en að öðru leyti er kirkjan meira hlaðin skrauti en hann hafði gert ráð fyrir. Kirkjan er einkar skrúðbúin að innanverðu.

Palazzo Madama

Frá miðju torgi, þar sem er kaffihúsið Colombia, göngum við eftir Calle Agonale til Corso del Rinascimento, þar sem Palazzo Madama gnæfir andspænis okkur, reist á 16. öld fyrir Medici-ættina og hýsir nú öldungadeild ítalska þingsins. Hin glæsilega framhlið, sem nýlega var gerð upp, er frá 1649.

Ef við förum vinstra megin meðfram höllinni, komum við að torgi, þar sem San Luigi dei Francesi er á vinstri hönd. Í kirkjunni, sem var byggð 1518-1589, eru málverk eftir Caravaggio og freskur eftir Domenichino.

San Ivo

Við göngum til baka að framhlið Palazzo Madama og suður eftir Corso del Rinascimento, þar sem við komum vinstra megin að Palazzo della Sapienza, sem var háskóli Rómar fram til 1935. Við förum inn í háskólaportið til að skoða háskólakirkjuna San Ivo, mesta meistaraverk Borrominis, í ávölum og íhvolfum línum hans, frá 1642-1660.

Kirkjan er hönnuð til að falla inn í sund á milli tveggja húsa. Kirkjan hefur íhvolfa framhlið á grunni, sem er eins og sexarma stjarna, og hún hefur sexlaufahvolf undir spíralturni. Flóknari gátu byggingar hlaðstíls tæpast orðið og er þetta þó lítil kirkja.
Við förum úr háskólaportinu, beygjum til vinstri eftir Corso del Rinascimento, aftur til vinstri eftir Via dei Sediari, framhjá veitingahúsinu Papà Giovanni, sem getið er í veitingakafla bókarinnar, og síðan enn til vinstri inn á Piazza Sant’Eustachio. Þaðan er gott útsýni til hvolfsins á San Ivo og þar er þekkt kaffihús, Sant’Eustachio.

Síðan höldum við til vinstri eftir Via Sant’Eustachio og til hægri eftir Salita di Crescenzi inn á Piazza della Rotonda.

Pantheon

Hér erum við komin að bezt varðveittu fornbyggingu Rómar, hofið Pantheon, með frægu hringhvolfi frá 119-128, reistu á vegum Hadrianusar keisara á rústum fyrra hofs, sem Marcus Agrippa lét reisa 27 f.Kr. Það hefur staðið af sér allar hremmingar í nærri nítján aldir.

Upphaflega voru utan á hringhvolfinu bronzflögur, sem Constantinus keisari lét ræna 356 og flytja til Miklagarðs. Ennfremur voru í anddyrinu bronzplötur, sem páfinn Urban VIII af Barberini-ætt lét ræna 1624 til að steypa hásætishiminn Péturskirkju. Þá sagði hinn frægi Pasquino: Quod non fecerunt Barbari, fecerunt Barberini (Það sem barbarar gerðu ekki, það gerðu Barberinar) Að öðru leyti varðveittist hofið, vegna þess að því var breytt í kristna kirkju.

Framhlið Pantheons er eins og hefðbundið grískt hof með miklu, tvöföldu súlnaporti undir gaflaðsþríhyrningi. Súlurnar sextán eru einsteinungar úr graníti. Inn í sjálfa hringkirkjuna er gengið um voldugar bronsdyr, sem eru upprunalegar.

Hringkirkjan er 43,30 metrar í þvermál og jafnmargir metrar á hæð. Hvolfið, sem er breiðara en hvolf Péturskirkju, var einstætt verkfræðiafrek á sínum tíma, fegursti minnisvarði þeirrar tækni Rómverja að leiða burðarþol um hvolf niður í veggi og súlur. Efst uppi er tveggja metra, hringlaga op, sem hleypir inn ljósstaf sólar.

Neðst skiptast á súlnarið framan við kapellur, sem eru til skiptis hálfhringlaga og kantaðar; og veggfletir með helgiskrínum, þar sem skiptast á bogadregin gaflöð og þríhyrnd. Þessi form úr Pantheon voru síðan stæld endalaust, einkum á tíma endurreisnarstíls.
Útliti hæðarinnar ofan súlnanna var breytt á 18. öld. Yfir þriðju kapellunni hægra megin hefur þessu aftur verið breytt í upprunalegt horf til samanburðar.

Í kirkjunni eru steinkistur tveggja Ítalíukonunga og nokkurra listamanna, þar á meðal Rafaels.

Við götuna Via della Rosetta, á nr. 8-9, er veitingahúsið Rosetta, sem getið er í veitingakafla bókarinnar.

Santa Maria sopra Minerva

Við göngum vinstra megin við Pantheon að Piazza della Minerva, þar sem er egypzkur einsteinungur frá 6. öld f.Kr. á fílsbaki. Bernini átti hugmyndina að þessari uppsetningu.

Við torgið er Santa Maria sopra Minerva, eina gotneska kirkjan í Róm, frá 1280. Ferhyrnd og einföld framhliðin var endursmíðuð í endurreisnarstíl á 17. öld með óbreyttum dyraumbúnaði f