Róm inngangur

Ferðir

Bókarstefna

Við höfum lesið bækurnar, sem ekki taka tillit til, að mikill hluti ferðamanna ver nokkrum hluta tímans á hóteli og í veitingahúsum og hefur þess á milli töluverðan áhuga á að skemmta sér og líta í búðarglugga, en er ekki allan sólarhringinn að skoða söfn og merka staði. Við viljum taka tillit til þessa og reyna að semja raunsæja bók.

Við höfum líka lesið bækurnar, sem leggja dóm á hótel, veitingahús, verzlanir og skemmtistaði, en eru þá fremur að þjónusta þessar stofnanir en lesendur. Við teljum svo eindregið, að upplýsingar af því tagi eigi að vera óháðar, að við prófuðum allar þessar stofnanir og komum hvarvetna fram sem venjulegir gestir, greiðandi almennt og afsláttarlaust verð og gáfum okkur ekki fram fyrr en að reikningum greiddum. Á þann hátt teljum við mestar líkur á, að reynsla lesenda komi heim og saman við þá reynslu, sem hér er lýst.

Þá höfum við skoðað bæklinga hótela, veitingahúsa og ferðamálaráða og fundizt myndirnar falsaðar. Innanhúss eru þær stúdíóteknar og sýna ekki raunveruleikann, hvað þá þegar þær eru teknar í hótelsvítu, en viðskiptavinurinn fær venjulegt herbergi. Utanhúss er beðið dögum saman eftir réttri birtu og réttu birtuhorni og myndirnar sýna ekki þungskýjaðan raunveruleika ferðamannsins.

Við höfnuðum öllum gjafamyndum af slíku tagi, tókum okkar eigin og teljum þær gefa raunhæfari mynd en glansmyndir áróðursbæklinga.
Jónas Kristjánsson og Kristín Halldórsdóttir

20 alda heimsborg

Róm er borg andstæðna, elli og æsku. Hún hefur í 20 aldir þótzt vera höfuðborg heimsins, fyrst sem keisaraborg og síðan sem páfaborg. Hún ber samt aldurinn vel, því að hún er full af fjöri frá morgni til kvölds. Næturlífið í La Dolce Vita var að vísu aldrei til, en allir þjóðfélagshópar eru allan daginn að líta inn á kaffihús. Róm vakir ekki á nóttunni, en hún tekur daginn og kvöldið með látum.

Róm hefur þolað margt um dagana, rán og gripdeildir erlendra barbara, brjálaðra keisara, franskra kónga og innfæddra páfa. Mörg frægustu tákn hennar eru rústir einar. Þar hafa voldugir heimamenn verið afdrifaríkastir.

Menn koma til Rómar til að skoða þessar gömlu rústir fornaldar á Forum, Capitolum og Palatinum. Menn koma líka að sjá Péturskirkju og aðrar hlaðstílskirkjur. Og loks koma menn til að lifa á kaffihúsum og veitingahúsum hins þrönga miðbæjar á Marzvöllum. Samkvæmt lögmáli andstæðna sækir unga fólkið í þennan gamla bæ.

Á blómaskeiði keisaranna bjó milljón manns í Róm. Síðar féll íbúatalan niður í 30 þúsund á miðöldum. Nú er hún komin upp í þrjár milljónir. Róm er ekki eins stór og París, London eða New York, en hún hefur fleiri minjar gamals tíma en hinar til samans.

Bílaumferðin í Róm er óskipulegt öngþveiti. Bílstjórar troðast um öll sund og fylla hvert torg, en aka þó ekki á gangandi fólk. Þeir þrasa mikið og hátt eins og aðrir borgarbúar. En umburðarlyndi er þó aðaleinkenni fólksins í borginni. Borgin er höfuðborg kaþólskunnar, en borgarbúar eru sjálfir hóflega kaþólskir. Þeir eru fyrst og fremst lífsreyndir og veraldarvanir
(Ekkert miðtorg er til í Róm. Spánartröppur eða Piazza Navona eru bara fyrir ferðamenn.

Almennt

Bankar

Skiptu peningum í bönkum eða gjaldeyrisstofum, cambio, en ekki á hótelum. Bankar eru opnir 8:30-13:30 og 14:45-15:45 virka daga, en skipta sumir gjaldeyri bara á morgnana. Á aðaljárnbrautarstöðinni er banki opinn allan sólarhringinn, en þar er oft löng biðröð.

Dagblöð

International Herald Tribune og brezku blöðin eru víða fáanleg í blaðasöluturnum Rómar.

Ferðir

Skrifstofa ferðamálaráðs, Ente Provinciale per il Turismo, er við Via Parigi 11, sími 461 851, svo og útibú á flugvellinum og aðaljárnbrautarstöðinni.

Flug

Leonardo da Vinci flugvöllurinn í Fiumicino er 30 km suðvestan Rómar, sími 60.121. Strætisvagn er 60-80 mínútur á leiðinni til aðaljárnbrautarstöðvarinnar, Stazione Termini. Lest er 30 mínútur til brautarstöðvarinnar Porta San Paolo, sem tengist neðanjarðarlestakerfi borgarinnar. Leigubílar eru 40-60 mínútur í bæinn og kosta L. 50.000 frá velli (2.500 kr) og L. 60.000 til vallar. Mæting er klukkustund fyrir brottför flugvéla.

Framköllun

Víða í miðbænum er unnt að fá framkallað og kóperað á klukkutíma.

Hótel

Á aðaljárnbrautarstöðinni er ferðamálaráð með skrifstofu, sem útvegar ferðamönnum hótelherbergi. Pantaðu herbergi með “twin beds”, því að rúmin og herbergin eru oft stærri en þau sem eru með “double bed”. Herbergi, sem snúa út að götu, eru oft bjartari og loftbetri, en hávaðasamari en þau, sem snúa inn í port.

Krítarkort

Ef þú hefur glatað krítarkorti, er heima svarað allan sólarhringinn í 354-1-685 499 fyrir Eurocard og 354-1-671 700 fyrir Visa.

Kvartanir

Það er tímasóun að kvarta á Ítalíu. Reyndu heldur að sjá björtu hliðarnar.

Leigubílar

Löggiltir leigubílar eru gulir, með sérstöku ljósaskilti á þaki og nota gjaldmæla. Þeir eru á sérstökum biðstöðvum, en stundum má veifa í þá á götu. Álag er greitt fyrir farangur, nætur- og helgidaga og fyrir flugvallarferðir. Leigubílasímar eru 3570, 3875, 4994 og 8443.

Lyfjabúð

Lyfjabúðir eru opnar 8:30-13 og 16-20. Í gluggum þeirra er vísað á nálægar lyfjabúðir með helgarvakt. Internazionale við Piazza Barberini 49, sími 462 996, er opin allan sólarhringinn.

Löggæzla

Hringdu í neyðarsímann 113.

Læknir

Hringdu í 475 6741, opið allan sólarhringinn.

Peningar

Á Ítalíu eru einkum notaðir seðlar, 1000, 2000, 5000, 10.000, 20.000, 50.000 og 100.000 líru seðlar. 1000 lírur samsvara 50 krónum. Flest hótel og veitingahús taka bæði Eurocard og Visa, sum þó aðeins Visa.

Póstur

Betra er að senda póst frá Vatíkaninu en frá Róm, því að ítalska póstkerfið er lélegt. Athugaðu, að á Péturskirkjutorgi eru sérstök frímerki og sérstakir póstkassar fyrir Vatíkanið.

Rafmagn

Rafmagnsspenna er sama og á Íslandi, 220 volt.

Ræðismaður

Aðalræðismaður Íslands í Róm er í Via Flaminia 441, sími 39.97.96.

Salerni

Salerni kaffihúsa eru stundum léleg, en yfirleitt í lagi á veitingahúsum.

Samgöngur

Annatímar á götunum og í almenningsfarartækjum eru 8-9:30 og 17-20. Oft er fljótlegra að fara fótgangandi milli staða heldur en í leigubíl. En gættu þín á bílunum, sem vaða um á rauðu ljósi eftir þörfum. Aktu ekki sjálfur í Róm. Neðanjarðarlestir eru heppilegar til lengri ferða milli helztu skoðunarstaða í borginni. Lestir milli borga á Ítalíu eru afar ódýrar og fljótar í förum.

Sendiráð

Ekkert íslenzkt sendiráð er á Ítalíu, en ræðismenn eru víða, sjá “Ræðismaður”.

Sími

Milli borga á Ítalíu er hringt í 0 framan við svæðisnúmerið. Til Íslands er fyrst hringt í 00 til að fá millilandasamband, beðið eftir sóni, síðan í 354 fyrir Ísland og loks svæðisnúmer og símanúmer í einni bunu. Landsnúmer Ítalíu er 39 og svæðisnúmer Rómar er 6.

Sjúkrabíll

Hringdu í neyðarsímann 113.

Sjúkrahús

Enskumælandi starfsfólk er á Salvator Mundi International Hospital, sími 586 041.

Slys

Hringdu í neyðarsímann 113.

Slökkvilið

Hringdu í 115.

Tannlæknir

Neyðarhjálp fæst á Ospedale G. Eastman, sími 490 042.

Vatn

Kranavatn er yfirleitt mjög hreint og gott í Róm, bezta vatn á Ítalíu. Á veitingahúsum drekka menn þó yfirleitt lindarvatn af flöskum.

Veitingar

Hádegisverðartími er kl.13:30-15, kvöldverðartími 20:30-23. Á flestum veitingahúsum skilur einhver þjónninn ensku eða þá eigandinn.

Verðlag

Verðlag hér í bókinni er frá vori 1992. Verðbólga er litlu minni en á Íslandi. Langt er liðið síðan Ítalía var ódýrt land. Hótel eru dýrari í Róm en Reykjavík og veitingahús nærri eins dýr.

Verzlun

Verzlanir eru yfirleitt opnar 9-13 og 15:30-19:30 á veturna, 16-20 á sumrin, alla virka daga, en stundum skemur á laugardögum.

Þjórfé

Þjónusta er yfirleitt innifalin í reikningum veitingahúsa. Sumir skilja eftir nokkur þúsund lírur til viðbótar. Leigubílastjórar reikna með 10% þjórfé. Töskuberar reikna með L. 1000 á tösku.

Öryggi

Notaðu ekki handtösku. Hafðu peninga innan klæða. Notaðu plastkort sem mest. Hafðu skilríki ekki á sama stað og peninga. Skildu ekki eftir verðmæti í læstum bíl. Mikið ónæði er af sígaunabörnum, sem ganga um nokkur saman og betla, en reyna um leið að rífa af þér allt lauslegt. Ofbeldisglæpir eru fátíðir í Róm.

1991

© Jónas Kristjánsson