Ítalir borða lítið á morgnana, fá sér kannski espresso kaffi og cornetto á kaffihúsi eða bakaríi úti á horni. Hádegisverður byrjar oftast um 13:30 og kvöldverður um 20:30. Hvort tveggja eru heitar máltíðir og nokkurn veginn jafngildar. Ítalir eru mikið fyrir mat og nota hann ótæpilega.
Þeir eru hins vegar hófsamir á vín og drekka margir hverjir bara vatn. Kranavatn í Róm er mjög hreint og gott, eitt hið bezta á Ítalíu, en samt fá flestir heimamenn sér aqua minerale, flöskuvatn á veitingahúsum, oft með koltvísýringi, gassata.
Ítalskur matseðill skiptist oft í fimm hluta, antipasti, forrétti; pasti eða asciutti eða primi piatti, pastarétti; secundi piatti, fisk- eða kjötrétti án meðlætis; contorni eða verdure, grænmeti eða meðlæti; og dolci, frutti og formaggi, eftirrétti, ávexti og osta.
Engar reglur er um, hve marga rétti fólk fái sér eða í hvaða röð. Sumir Ítalir fá sér til dæmis fyrst forrétt og síðan tvö pöstu, hvert á fætur öðru. Algengast er, að fólk fái sér þrjá rétti, til dæmis forrétt, pasta og aðalrétt eða pasta og aðalrétt með hliðarrétti eða pasta og aðalrétt og eftirrétt.
Gróflega er verðlagið þannig, að forréttur, pasta og flaska af víni hússins kosta hvert um sig tvöfalt verð hliðarréttar eða eftirréttar og að aðalréttur kostar þrefalt verð hliðarréttar eða eftirréttar. Verðið, sem hér í bókinni er skráð hjá hverju veitingahúsi, er yfirleitt miðað við forrétt, pasta, aðalrétt og hliðarrétt eða eftirrétt.
Skynsamlegt er að velja sér vín hússins, bianco eða rosso, því að þau eru yfirleitt vel valin og ágætlega drykkjarhæf. Áhugamenn um vín geta þó skyggnzt í listann til að finna eitthvað nýtt, því að ekkert land á eins mikið úrval mismunandi flöskumiða. Almennt séð er ítalskt vín gott, en ekki mikið um hágæðavín. Ítalir taka vín og mat ekki eins alvarlega og Frakkar gera.
Hvergi í heiminum er betri þjónusta en á ítölskum veitingahúsum. Ítalskir þjónar eru snarir í snúningum og vilja, að gestum líði vel. Þeir eru snöggir að bera fram matinn, unz kemur að eftirrétti, en þá færist allt í fyrsta gír. Það stafar af, að Ítalir vilja skófla í sig matnum, en ekki fara strax að því loknu, heldur sitja lengi og tala saman. Hröð þjónusta táknar alls ekki, að þjónninn vilji losa borðið sem fyrst.
Veitingahús Rómar eru yfirleitt lítil og hreinleg, stundum tilviljanakennt innréttuð. Þau hafa undantekningarlítið lín í dúkum og þurrkum, oftast hvítt.
Útlendingum finnst gjarna, að ítölsk matreiðsla felist í pöstum á pöstur ofan. Ítalir tala sjálfir ekki um ítalska matreiðslu, heldur feneyska, toskanska, lígúríska, latínska og svo framvegis eftir borgum og héruðum. Hér verður að sjálfsögðu mest fjallað um latínska eða rómverska matreiðslu, þótt með séu tekin hús, sem sérhæfa sig á öðrum sviðum.
Hér á eftir koma uppáhaldsveitingahús okkar í stafrófsröð.
Agata e Romeo
Agata e Romeo er afar fínt og lítið veitingahús með góðri og virðulegri þjónustu, um 200 metrum frá kirkjunni Santa Maria Maggiore. Agata Paricella er í eldhúsinu og Romeo Caraccia sér með hendur í vösum um afslappaða stjórn í sal.
Rúmt er milli borða, þar sem gestir sitja hér og þar í þægilegum tágastólum í skotum milli veggbogariða undir hvelfingum.
Við prófuðum zuppa di scarola e borlotti, blaðsalats- og baunasúpu; rigatoni alla pagliata, breið pastarör með tómatsósu og granaosti, svo og nýrum og öðrum innmat; merluzzo con zabaione, soðinn þorsk í rauðvínssósu; agnello di Abruzzo, lambahryggstykki með kartöflum, sveppum og hundasúrublöðum; og millefoglie con crema chantilly, púðursykraðar og næfurþunnar smjördeigsflögur á búðingi og mousse di ricotta con salsa di canelle, ostfroðu með kanilsósu.
Pagliata er dæmi um dálæti Rómverja á innmat kálfa og nauta, svo sem nýrum, lifur og brisi, sem stendur nær franskri matreiðslu en ítalskri. Innmatur er raunar ein helzta sérgrein Rómar í matreiðsluhefðum Ítalíu.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 140.000. Vínlisti er góður. (Agata e Romeo Caraccio, Via Carlo Alberto 45, sími 73.32.98 og 44.65.842, lokað sunnudaga)
Ai Tre Scalini
Um 200 metrum frá Colosseum er Ai Tre Scalini, örlítil og virðuleg, fyrsta flokks borðstofa, sem sameinar hefðbundna matreiðslu og hugmyndaflug. Eigandinn og matreiðslukonan er byggingaverkfræðingur, Rosanna Dupré, og hefur nýjan matseðil á degi hverjum.
Þessi stofa leynir á sér að utan og er fremur heimilisleg að innan, með stórum glasaskáp og dimmum risamálverkum á veggjum, parketti á gólfi og gamalli ljósakrónu í lofti.
Við prófuðum spigola al sale, léttsaltaðar, hráar, næfurþunnar hafurriðasneiðar; ravioli al radiccho, radísur í pasta-umslagi; filetto di manzo en crusta, innbakað og mikið kryddað kálfakjöt með brokkáli; piccioni farciti, fyllta önd; og spume de melone, melónuköku með marsipanblönduðum rjóma.
Kryddleginn fiskur hrár, al sale, er ekki eins þekktur á Ítalíu og hér á landi eða til dæmis í Japan. Þetta veitingahús hefur forustu um að prófa ýmsa kryddlagningu á hinum ótalmörgu fisktegundum, sem eru á boðstólum á Ítalíu. Matseðillinn endurspeglar þetta að nokkru leyti.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 160.000. (Ai Tre Scalini, Via di Santissimi Quattro 30, sími 70.96.309 og 70.02.835, lokað mánudaga)
Al Moro
Al Moro er fremur lítið áberandi veitingahús í hliðargötu, um 100 metrum frá Trevi-brunni og 100 metrum frá Corso, sagt vera hið dæmigerða veitingahús borgarinnar og býður sanna Rómarmatreiðslu.
Veitingastaðurinn er einkum sóttur af rosknu og ráðsettu fólki, þótt útlendingar fái jafngóðar móttökur. Innréttingin er hefðbundin, með viðarklæðningu upp á vegg og ósamstæðum málverkum þar fyrir ofan. Snætt er í tveimur sölum og er sá fremri öllu skemmtilegri.
Við prófuðum spaghetti alle vongole, spaghetti með litlum skelfiski í skelinni; antipasti assortiti, mjúkan ricotta-ost, zucchini-grasker og kjötbollur; abbacchio alla romana, lambalærissneið með pönnusteiktum kartöflum; vitello cacciatora, kálfakjötsneið með sveppum og tómötum, insalata mista, blandað hrásalat, vætt í olíu og ediki; og fragoline di bosco, skógartínd jarðarber.
Alla romana þýðir að rómverskum hætti, sem getur verið nánast hvað sem er; abbacchio alla romana táknar oft, að kjötið er soðið í eggja-, sítrónu- og hvítvínssósu; zuppa alla romana þýðir oft skelfisksúpa; gnochi alla romana táknar oft kartöflustöppu-bollur með tómatsósu og osti; pizza alla romana þýðir oft, að áleggið er mozzarella- og grana-ostar og basilikum; trippa alla romana táknar, að vinstrin eru steikt í mintukryddaðri tómatsósu og borin fram með pecorino-osti; pollo alla romana, að kjúklingurinn er steiktur í bitum með lauk, skinku, papriku, tómati, sædögg, olíu og smjöri; og piselli alla romana, að baunirnar séu steiktar með lauk, skinku og smjöri.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 120.000. (Al Moro, Vicolo delle Bollette 13, sími 68.40.736 og 67.83.495, lokað sunnudaga)
Alberto Ciarla
Eitt helzta matargerðarmusteri Rómar er Alberto Ciarla, sérkennilega og vandlega innréttaður fiskréttastaður við San Cosimato torg í Trastevere, uppahverfinu á vinstri bakka Tiburfljóts. Staðurinn ber nafn matreiðslumeistarans.
Hátt er til lofts og dimmt í dimmbláum og grábláum litbrigðum. Speglar fyrir báðum endum matsalarins gera staðinn óraunverulegan og nokkur fiskabúr gera hann þar á ofan neðansjávarlegan. Raunveruleikinn kemur svo fram í innrömmuðum peningaseðlum og prófskírteinum á veggjum. Þríarma kertastjakar eru á hverju borði.
Við prófuðum Etrúríu-matseðil: Insalata di gamberi, sítrónuvættar rækjur með sveppum og hundasúrublöðum; bombolotti allo sparacreddo, risastóra pastahólka með bragðsterkri sósu úr brokkáli og fiskkrafti; zuppa di pasta e fagioli ai frutti di mare, pastasúpu með skeldýrum og rauðbaunum; filetto di pesce alle erbe, hafurriða í fáfnisgrasi; og frutti di sottobosco, aðalbláber með ís.
Sum beztu veitingahús Rómar, svo sem Alberto Ciarla og Il Pianeta Terra, bjóða upp á smakkseðla að nýfrönskum hætti, þar sem viðskiptavinir fá langa röð smárétta í stað hinna hefðbundnu þriggja. Þessir seðlar eru jafnan settir saman með tilliti til árstíðar og aflabragða dagsins. Etrúríuseðillinn er dæmi um slíkt.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 250.000. Vínlisti er góður. (Alberto Ciarla, Piazza di San Cosimato 40, sími 58.18.668 og 68.84.377, lokað sunnudaga)
Andrea
Einn af toppstöðum Rómar, þar sem matreiðslan er í fyrirrúmi, er Andrea í fína Ludovisi-hverfinu, 100 metrum frá Via Veneto og 100 metrum frá Borghese-garði.
Þetta er nakinn veitingastaður með grænleitum veggþiljum, hestvagnamyndum, heilum speglaveggjum, marmaragólfi, bambusstólum og stórum lömpum.
Við prófuðum tagliolini con porcini, pastareimar með boletus-sveppum; linguine al nero di seppie, pastaþræði með svartri smokkfiska-bleksósu; rombo griglia, grillaða þykkvalúru; scampi alla griglia, grillaðar risarækjur með skelinni; formaggi, osta að vali; og fragoline di bosco con panna liquida, skógartínd jarðarber með rjóma.
Ítalskir ostar eru margir góðir og frábrugðnir íslenzkum. Frægastir eru tveir: Gorgonzola, frekar linur og bragðsterkur gráðostur; og grana eða parmigiano, grjótharður matreiðsluostur, sem við þekkjum undir enska heitinu parmesan. Aðrir þekktir ostar eru bel paese, mildur og mjúkur; mozzarella, gúmkenndur ferskostur; provolone, sterkur ostur með skrítnu lagi; ricotta, ferskur sauðaostur, taleggio, mildur rjómaostur; og svo auðvitað Rómarosturinn pecorino, harður og bragðsterkur sauðaostur.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 180.000. Vínlisti er góður. (Andrea, Via Sardegna 28, sími 48.21.891 og 47.40.557, lokað sunnudaga og í mánudagshádegi)
Cannavota
Cannavota er ódýrt og gott veitingahús, fallega innréttað, við torg dómkirkjunnar San Giovanni in Laterano, eitt þekktasta fiskréttahús borgarinnar og býður hefðbundna Rómarmatreiðslu.
Innréttingin minnir á fjallahótel, voldugar trésúlur og trébitar, viðarklæðning og bakháir stólar, fjöldi mynda og málverka.
Við prófuðum fritto misto di mare, djúpsteikta og sítrónuvætta sjávarréttablöndu; linguine alla reviglio, spaghetti með tómat- og rækjusósu; risotto alla Cannavota, hrísgrjónarétt með tómat, rjóma og humar; filetto di tacchino, kalkúnabringu undir sveppa- og ostþaki; scaloppe alla verbena, kálfasneiðar undir sveppa- og ostþaki; insalata mista, blandað hrásalat; og macedonia di frutta, blandaða ávexti í legi.
Fritto misto di mare er dæmi um traustar sjávarréttablöndur í Róm, að mestu úr skelfiski, krabbadýrum og smokkfiskum. Hún er djúpsteikt, en aðrar eru til dæmis antipasto di mare, blandaðir sjávarréttir kaldir í forrétt; insalata di mare, blandað sjávarréttasalat, jafnan ferskt og gott; zuppa di pesce alla romana, skelfisksúpa og risotto di frutti di mare, hrísgrjónaréttur soðinn í fisksoði.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 60.000. (Cannavota, Piazza San Giovanni in Laterano 20, sími 77.50.07, lokað miðvikudaga)
Cesare
Að baki dómsmálaráðuneytisins og grafhýsis Hadrianusar á Tiburbökkum er afar rómversk veitingastofa, Hostaria Cesare, er liggur vel við þeim, sem eru að koma úr Péturskirkju eða safni Vatíkansins.
Veitingahúsið er í nokkrum smásölum með bogariðum á milli. Salirnir mynda lengju, sem er ýkt með spegli fyrir innri enda.
Viðarklæðning nær upp á veggi, en þar fyrir ofan er allt ljóst og bjart. Þetta er fjörugur samræðustaður, mikið sóttur af fastagestum.
Við prófuðum breasola, þurrt saltkjöt með granaosti og hundasúrublöðum, olíu og sítrónusafa; penne al’arrabiata, stutt, gáruð pastarör með tómat-, hamar- og piparsósu; saltimbocca alla romana, skinkuklæddar þunnsneiðar af kálfakjöti; og fragolini con panna, skógartínd jarðarber með rjóma.
Breasola minnir dálítið á prosciutto. Þurrkun saltkjöts er sennilega upprunnin í Sviss, en aðferðin hefur borizt til Rómar frá Langbarðalandi. Saltimbocca alla romana er einhver frægasti Rómarrétturinn og þýðir Hopp-í-munn á íslenzku. Skinku- og kálfakjötssneiðunum er oftast rúllað utan um salvíu og þær festar með tannstöngli, en í Cesari voru þær bornar fram flatar. Þær eru smjörsteiktar og síðan gegnsoðnar í Marsala-hvítvíni, sem minnir á sérrí.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 110.000. (Cesare, Via Crescenzio 13, sími 68.61.227 og 68.61.912, lokað sunnudagskvöld og mánudaga)
Cesarina
Cesarina er stór og vinsæll matstaður í sveitastíl með Bologna-matreiðslu í fína Ludovisi-hverfinu vestur af Via Veneto, um 200 metrum frá Borghese-garði og 500 metrum frá Via Veneto.
Miklar múrhleðslur eru í veggjum og bogum, sem skipta staðnum í nokkra veitingasali. Margs konar málverk skreyta veggina. Gestir tala mikið um viðskipti og hafa hátt að ítölskum hætti.
Við prófuðum mortadella, ósaltaðar svínapylsur að bæti Bolognabúa, soðnar í sveipjurtakryddi og hvítvíni; carpaccio, þunnar og hráar nautasneiðar með sítrónublandaðri olíu og Parma-osti; tagliatelle bolognese, eggjablandaðar pastaræmur með Bologna-sósu; filetto di bue Toscana, sítrónuvætta steik með kaffifífli; og semifreddo Cesarina, eins konar ís með búðingi og súkkulaðisósu.
Bolognasósa er búin til úr nauta- og svínahakki, hráskinku, sveppum, tómötum, grænmeti, kryddi og hvítlauk.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 140.000. (Cesarina, Via Piemonte 109, sími 48.80.828 og 46.08.28, lokað sunnudaga)
Costanza
Costanza er steik- og fiskréttahús með hefðbundinni og traustri Ítalíumatreiðslu í litlu sundi í gamla bænum, um 100 metrum frá torginu Campo de’Fiori.
Það er afar lítið áberandi að utanverðu, en þeim mun æsilegra að innan. Aðalsalurinn er með rómantísku hellislagi, hvelfdu lofti og fornminjum í skotum, svo sem amfórum og súlubrotum, skemmtilega óbeint lýstur. Til hliðar er viðarklæddur salur með arni.
Við prófuðum crepes funghi e tartufi, snarpheitar pönnukökur utan um sveppi og hvítsveppi; entrecote griglia, grillaða nautasteik, með asparagi, ferskum og olíuvættum spergli, til hliðar; og tiramisú, ítalskan súkkulaðibúðing með kaffisúkkulaði.
Hvítsveppir, tartufi, eru ítalska tegundin af sveppategundinni tuber, jarðkeppum, sem þekktari eru af frönsku tegundinni, svartsveppum, truffes. Þetta eru afar dýrir sveppir, sem vaxa neðanjarðar á Norður-Ítalíu og eru þefaðir uppi af hundum eða svínum, sem sérstaklega eru þjálfuð til þess. Þeir hafa magnaðan ilm og eru alltaf borðaðir hráir, helzt út á einhvern annan mat eða í bland með öðrum mat. Þessir dulúðugu sveppir eru eitt af einkennistáknum Ítalíu.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 100.000. (Costanza, Piazza del Paradiso 65, sími 68.61.717 og 65.41.002, lokað sunnudaga)
Crisciotti
Dæmigerður og erilsamur og ferðamannalaus Rómarstaður er Crisciotti í hliðargötu um 100 metrum frá Via Nazionale og 600 metrum frá Fori Imperiali.
Þar sitja heimamenn í þremur litlum sölum undir rustalegum innréttingum, þar sem brúnar steinmyndir eru á rauðmálaðum veggjum ofan við steinbjörg, og matfiskar eru sýndir í miklum glerkæli.
Við prófuðum zuppa di verdura matarmikla og litskrúðuga grænmetissúpu; agnello, lambakjöt án meðlætis; insalata mista, hrásalat; og frutta di stagione, ferska ávexti árstíðarinnar.
Zuppa di verdura, insalata mista og frutta di stagione eru vinsælir réttir meðal heimamanna og yfirleitt alls staðar að minnsta kosti frambærilegir og helzt góðir. Ef við hefðum pantað pasta dagsins í stað lambakjötsins, hefðum við verið með dæmigerðan Rómverjaseðil.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 100.000. Plastkort eru ekki tekin gild. (Crisciotti, Via del Boschetto 30, sími 47.44.770, lokað laugardaga)
Da Nerone
Da Nerone er einfalt og ódýrt matsöluhús í Rómarstíl, um 200 metrum norðan við Colosseum, og hefur nautasteikur og franskar kartöflur að sérgrein, svo að útlendingar leita það oft uppi.
Þetta er fjörlegur staður með kátu heimafólki, sem situr í tveimur stofum á þægilegum tréstólum undir þakhvolfi og hárri veggklæðningu, mjög stórum og mjög litlum málverkum. Opið er inn í eldhús, þar sem sjá má verkkunnáttu í lagi.
Við prófuðum antipasto misto, ýmsa kalda rétti af 34 tegunda hlaðborði; antipasto di mare, sjávarrétti af þessu sama hlaðborði; filetto de bue ai ferri con patate fritta, þunna og breiða, pönnusteikta nautahryggsteik með frönskum kartöflum; gelati misti, þrenns konar ís; og frutta di stagione, ferska ávexti árstíðarinnar.
Þótt nautasteikur séu upp og ofan á ferðamannastöðum Ítalíu, eru þær undantekningarlítið mjög góðar í alvöruveitingahúsum, sem sækjast eftir viðskiptum heimamanna. Þjónar og kokkar vilja ekki fá matinn í hausinn, en Ítalir eru fljótir að taka til sinna ráða, ef maturinn er mislukkaður. Þess vegna er gott ráð að leita uppi þá staði, sem heimamenn sækja sjálfir.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 60.000. (Da Nerone, Via delle Terme di Tito 96, sími 47.45.207, lokað sunnudaga)
El Toulà
Í gamla miðbænum, um 300 metrum frá horninu á Corso og Via Condotti, er El Toulà, fína og flotta alþjóðaviðskipta-veitingahúsið í Róm, með mikilli þjónustu við önnum kafna gesti, sem tala mikið í farsíma til að láta á sér bera. En þar er samt eitt af beztu veitingahúsum borgarinnar, enda er matreiðslumeistarinn Daniele Repette, sem eldar í Feneyjastíl.
Yfirbragð staðarins er létt og ljóst. Gengið er niður tröppur í langan sal, sem er skilinn sundur með bogum í nokkur svæði, þar sem rúmt er milli borða. Blómaskreytingar eru á hverju borði og þjónar á hverju strái.
Við prófuðum carpaccio di’vitello con pate di olive mere e pinoli, hráar þunnsneiðar af kálfakjöti með olífumauki, grana-osti, sítrónusafa og olíu; medaglioni d’astice con insalata novelle e punte d’asparagi, ferskvatnskrabbasalat með spergiltoppum; ventaglio di petto d’anitra alle nerue aroccasti, andasteik; cotelette di’capriolo al ginepro con polenta, engiferkryddaðar dádýrakótilettur með maísstöppu; budino di nocciole con mousse di cioccolato, hnetubúðing með súkkulaðihúð; og fagoltino di mele della Val di Non con salsa di arance di Sicilia, innbakaða smjördeigsköku með appelsínumarmelaði. Á eftir fengu allir fínlega brjóstsykursdropa og frigolotta, harða stökkköku, sem gestir lemja með hamri.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 190.000. Vínlisti er góður. (El Toulà, Via della Lupa 29b, sími 68.73.498 og 68.73.750, lokað í laugardagshádegi og sunnudaga)
Galeassi
Við aðaltorgið í uppahverfinu Trastevere, handan Tiburfljóts, Piazza Santa Maria in Trastevere, er veitingahúsið Galeassi, nokkru ódýrara en Sabatini á sömu slóðum og leggur líka áherzlu á fiskrétti.
Þetta er notalegur og snyrtilegur staður með dökkum við langt upp á veggi og dökku viðarlofti, en að öðru leyti í björtum litum. Bezt er að vera í litla salnum, sem er fremst við götuna.
Við prófuðum fettucini con funghi porcini, breiðar og hlykkjóttar pastaræmur með boletus-sveppum; risotto creme di scampi, hrísgrjónarétt með stórrækjubitum; mazzancolle al forno, ofnsteiktar risarækjur í skelinni; saltimbocca alla romana con funghi, salvíukryddaðar kálfa- og skinkusneiðar með sveppum; ananas, ferskan ananas; og macedonia di frutta, ávaxtasalat.
Ítalir hafa nokkrar tegundir af rækjum, sem allar eru stærri en íslenzkar rækjur. Gamberi, stórar rækjur; gamberoni, mjög stórar rækjur; mazzancolle, risarækjur; og scampi, sem minnir á íslenzkan humar.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 90.000. (Galeassi, Piazza Santa Maria in Trastevere 3, sími 58.03.775 og 58.09.898, lokað mánudaga)
Girarrosto Toscano
Girarrosto Toscano er notalegur og fallega innréttaður veitingastaður niðri í kjallara andspænis Borghese-garði, um 100 metrum frá efri enda Via Veneto og býður upp á matreiðslu, sem er ættuð frá Toskaníu, það er að segja svæðinu umhverfis Flórens.
Veitingastaðnum er mikið skipt niður með súlum og bogariðum og hvolflofti. Veggir eru klæddir ljósum viði upp í boga. Ofan á veggklæðningunni er vínflöskusafn hússins, mikið að vöxtum, enda er Toskanía eitt frægasta vínræktarsvæði Ítalíu. Þaðan koma til dæmis Chianti-vín.
Við prófuðum sérgrein hússins, grand’antipasto, sem fólst í safni ótal forrétta, svo sem eggjahræru með kartöflubitum, fylltu graskeri og fylltum ætiþistli, kjötbollum með tómatsósu, hvítum ricotta-ostakúlum, pylsum og skinku, prosciutto-hráskinku, reyktum laxi og melónu. Á eftir prófuðum við hina sérgrein hússins, bistecca alla Fiorentina, kolagrillaða og saltkryddaða nautarifjasteik með spínati. Og síðast ferska ávexti vínlegna með ís.
Ricotta er mjúkur og ósaltaður sauðaostur, sem minnir á grískan feta og á að borða alveg ferskan. Algengast er að setja hann í fyllingar í pastaumslög og í sætubakstur af ýmsu tagi, en á þessu veitingahúsi er hann borinn fram í votum og linum kúlum.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 140.000. (Girarrosto Toscano, Via Campania 29, sími 48.21.899 og 48.23.835, lokað miðvikudaga)
I Preistorici
Vestast í gamla miðbænum, í göngugötu frá Via Giulia, nálægt norðurenda hennar, er I Preistorici, notalegt veitingahús með læstum dyrum og litlu nafnspjaldi við bjölluna, en engri annarri auðkenningu, á vegum eins af ævintýrahneigðari matreiðslumeisturum borgarinnar, Luigi Frizziero.
Veitingastofan er í nokkrum litlum stofum með hvolfloftum. Þykk og vönduð viðarklæðning er á neðanverðum veggjum og stór málverk þar fyrir ofan. Enginn matseðill er á staðnum.
Við prófuðum prosciutto, þunnsneidda hráskinku; risotto di mare, hrísgrjónarétt með risarækjum, kræklingi og öðrum skelfiski; filetto al pepe, nautapiparsteik; filetto griglia, nautagrillsteik; creme brulée, karamelluskorpubúðing; og fragole, jarðarber.
Risotto er hrísgrjónaréttur frá Pódalnum, einkum tengdur Milano og Feneyjum. Hrísgrjónin eru fyrst steikt í smjöri eða olíu, oft með lauk, og síðan soðin í litlu magni af vökva, til dæmis víni eða soði af þeim mat, sem blandað er í hrísgrjónin, þegar þau eru borin fram. Oft er síðast sett í þau smjör og grana-ostur.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 110.000. Plastkort eru ekki tekin gild. (I Preistorici, Vicolo Orbitelli 13, sími 68.92.796, lokað sunnudaga)
Il Galeone
Il Galeone er skemmtilega innréttað fiskveitingahús við San Cosimato markaðstorgið í hverfinu Trastevere, en það er sá hluti gamla miðbæjarins, sem er á vinstri bakka Tiburfljóts.
Hátt er til tágalofts og gestir sitja í útskornum stólum á steingólfi undir steindum gluggum og járnslegnum viðarsúlum og -bitum.
Við prófuðum linguine alle vongole, pastaþræði með smáskeljum; tagliolini all’aragosta, bragðsterkar pastareimar með krabbabitum og tómatsósu; spigola alla griglia, afar ferskan og vel sítrónuvættan hafurriða; og misto di frutti di bosco, ýmis fersk skógarber, þar á meðal aðalbláber.
Spigola er algengur fiskur í Róm. Aðrar fisktegundir, sem eru áberandi á matseðlum, eru bonito, túnfiskur; merlano, lýsa; merluzzo, þorskur; spada, sverðfiskur; rombo, þykkvalúra og slétthverfa; rospo, skötuselur; og sogliola, sólflúra.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 160.000. (Il Galeone, Piazza San Cosimato 27, sími 58.09.009 og 58.16.311, lokað miðvikudaga)
Il Pianeta Terra
Eitt allra beztu matargerðarmustera Rómar er Il Pianeta Terra bak við læstar dyr, sem erfitt er að finna í þröngu göngusundi í gamla bænum, um 200 metrum frá torginu Campo de’Fiori. Nafn veitingahússins þýðir Plánetan jörð. Þar eldar Roberto Minetti og Patrizia Minetti stjórnar afar fínni þjónustu í sal.
Niðri er setustofa og bar, en uppi er skuggsýnn veitingasalur með misdökkri veggklæðningu og hvelfdu múrsteinalofti. Boðið var upp á ýmsa matseðla, smakkseðil, fiskseðil, Rómarseðil og hefðbundinn seðil. Ferns konar heimagerðar brauðkollur voru strax bornar á borð til að gefa matgæðingatón þegar í upphafi leiks.
Við prófuðum smakkseðilinn: Criole al oeli di pomodoro e basilico, basilkryddaðan ál í tómatsósu; paté de foie gras in salsa di Recioto, gæsalifur í hvítvínssósu með rifsberjum, skógartíndum jarðarberjum og hindberjum; zuppe di lenticchie con gamberi, baunasúpu með stórum rækjum; vermicelli alle mezzancolle; pasta með risarækjubitum í sterkum tómati; risotto au zuchine e zafferano, hrísgrjón með saffransósu og grana-osti; pesce con cicoriette fritte, þykkvalúru með djúpsteiktum kaffifífli; insalate di carne, kryddlegið, þunnsneitt og kalt nautalendarkjöt með eplasneiðum; og dolche di Patrizie e Roberto, fínar tertur hússins.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 300.000. Vínlisti er góður. (Il Pianeta Terra, Via dell’Arco del Monte 95, sími 68.69.893, lokað mánudaga)
L’Orso ‘80
L’Orso ‘80 er sérkennilega skíðaskálalegur staður, fremur ódýr, í gamla miðbænum, um 300 metrum norður frá Piazza Navona, með matreiðslu frá Abruzzi, fjöllunum austan Rómar.
Staðnum er skipt í tvennt með boga. Fremri salurinn er klæddur ljósri kvistafuru í norrænum skíðaskálastíl, með innbyggðum skápum úr voldugum smíðajárnsgrindum og skreyttir tilviljanakenndum málverkum af ýmsu tagi.
Við prófuðum zuppa pavese, eggja-, brauð- og ostasúpu; risotto alla pescadora, hrísgrjónarétt með tómati og smokkfiski; spaghetti alle vongole, spaghetti með skelfiski í skelinni; filetto di bue alla griglia, nautahryggsteik; polla toscana arrosto, ofnsteiktan kjúkling; frutta mista, blandaða ávexti; og creme caramel, karamellubúðing.
Ítalskar súpur greinast aðallega í fjóra flokka, brodo, tærar súpur; minestrone, tærar súpur með pastabitum; og minestre, þykkar súpur með hrísgrjónum eða pasta. Í fjórða flokknum eru svo eggjasúpur, svo sem zuppa pavese og stracciatella.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 80.000. (L’Orso ‘80, Via dell’Orso 33, sími 68.64.904 og 68.61.710, lokað mánudaga)
La Campana
La Campana er ódýr matstofa í gamla bænum, um 400 metrum frá norðurenda Piazza Navona, með hressandi og vel gerðum hversdagsmat í Rómarstíl.
Þetta er einfalt og hlutlaust innréttaður staður, bjartur og snyrtilegur, með þétt setnum borðum og árvökulum þjónum í hinum fullkomna Ítalíustíl.
Við prófuðum penne con carciofi, stór pastarör með ætiþistlum og mintusósu; pappardelle in salsa lepre, breiðar pastaræmur með hérakjötssósu; involtini di manzo con puré, kálfasneiðar vafðar upp á spjót, bornar fram með kartöflustöppu; filetto di tacchino, kalkúnakjöt með sveppum og tvenns konar rjómasósu; og fragole di bosco con panna, jarðarber með rjóma.
Mintukrydd er rómverskt matreiðslusérkenni. Önnur sérkenni Rómar eru meðal annars stracciatella, eggja- og ostasúpa; abbacchio, unglambakjöt; carciofi, ætiþistlar; asparagus, spergill; trippa, kálfavinstur; og ostarnir pecorino og ricotta. Viðhengið alla romana táknar oftast blandaða tómatsósu, stundum með rauðvíni, stundum með einhverju allt öðru.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 80.000. (La Campana, Vicolo della Campana 18, sími 68.67.820 og 68.75.273, lokað mánudaga)
La Taverna
La Taverna er afar skemmtilega hannaður og yfirlætislaus matstaður með hraðri og öruggri þjónustu í kjallara um 100 metrum frá torginu framan við aðaljárnbrautarstöðina og býður trausta matreiðslu að hætti heimamanna.
Salirnir tveir eru bjartir, umkringdir háum og dökkum viðarklæðningum með fatasnögum og ljósum flötum og speglum á milli. Flöskum er raðað upp á viðarklæðninguna allt um kring.
Við prófuðum prosciutto di Parma, hráskinku með melónu; filetto di bue con carciofi, nautahryggsteik með ætiþistlum; og torta al ciocolato, súkkulaðitertu.
Nautahryggsteikur eru mjög misjafnar á Ítalíu. Á stöðum eins og þeim, sem komast í þessa bók, eru þær yfirleitt fyrsta flokks, en á lélegum stöðum geta þær verið afleitar. Gott ráð fyrir steikaraðdáendur er að leita uppi fiskréttahús, sem bjóða líka nautasteik. Fiskikokkar eru manna næmastir á nákvæma eldunartíma.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 90.000. (La Taverna, Via Massimo d’Azeglio 3f, sími 47.44.305, lokað laugardaga)
Mario
Mario er ódýr og góður og líflegur matstaður með Toskaníu-matreiðslu í tízkubúðahverfinu neðan við Spánartröppur, um 400 metrum frá tröppunum og 200 metrum frá aðalgötunni Corso.
Staðurinn er snyrtilega innréttaður, þétt settur mörgum röðum ljósmynda og lítilla málverka ofan við viðarklæðningu veggjanna. Myndirnar sýna flestar brúnamikinn Mario með ýmsu frægu fólki. Salnum er þrískipt með súlnariðum og mjög þétt skipaður borðum, enda veitir ekki af. Chinati-vínið frá Toskaníu er á borðum í 1,5 lítra flöskum og drukkið úr óbrjótanlegum vatnsglösum. Þjónarnir hafa sérstaklega mikið að gera, en hafa samt allt á hreinu.
Við prófuðum risotto con funghi, hrísgrjónagraut með sveppum; ribollita, grænmetissúpu; ravioli verde, lítil hveitiumslög fyllt spínati, osti, eggjum og Parma-osti; due quaglie arrosto, tvær meyrar akurhænur; og castagnaccio, heita og mjúka hnetuköku, setta heilum möndlum, sérgrein hússins.
Toskaníumatreiðsla hefur löngum þótt bezta matreiðsla Ítalíu. Frá hirðinni í Flórens komu drottningarefni Frakklands og höfðu matreiðslumenn sína með sér til hirðarinnar í París. Þannig varð til hin fræga franska matargerðarlist. Af ítölskum pastaréttum þykir bezt ravioli eða gnochi Toskaníubúa. Og vínið þaðan er almennt séð eitt hið bezta á Ítalíu.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 70.000. (Mario, Via della Vite 55, sími 67.83.818, lokað sunnudaga)
Montevecchio
Montevecchio er pínulítið, 28 sæta matargerðarmusteri við lítið torg í þéttasta og vandrataðasta hluta gamla miðbæjarins, um 100 metrum vestan við norðurenda Piazza Navona, og sérhæfir sig í villidýrabráð.
Áður var hér veitingahúsið Pino et Dino, en meistarakokkurinn Antonio Civello hefur breytt því í musteri að frönskum hætti. Húsið er læst að utanverðu og aðeins tekið við gestum, sem hafa pantað. Hátt er til lofts í lítilli stofu, risastór vínflöskuskápur á öðrum langvegg og risastórt málverk á hinum, gylltar ljósakrónugreinar á veggjum og gríðarstór smíðajárnskróna í lofti.
Við prófuðum strudel di funghi, sveppabollu; crepes al gorgonzola e noci, pönnukökur fylltar gráðosti og möndlum; anitra alle noci, hnetusteikt andakjöt; capretto d’Abruzzo al forno, ofnsteikt dádýr; tiramisu, ítalskan súkkulaðibúðing með kaffisúkkulaði; og creme brulée, karamelluskorpubúðing.
Meðal veiðidýra á Ítalíu eru capretto, capriolo og cervo, dádýr; chinghiale, villigöltur; lepre, héri; quaglie, kornhæna; starna, akurhæna; og allodole, beccaccia og uccelletti, smáfuglar af ýmsu tagi, aðallega spörfuglar.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 130.000. Vínlisti er góður. (Montevecchio, Piazza Montevecchio 22a, sími 68.61.319, lokað mánudaga)
Papà Giovanni
Papà Giovanni er gamall heimilisvinur, skemmtilega ósmekklega innréttaður matstaður með læstum útidyrum, mjög góðri matreiðslu og síbreytilegum matseðli, 150 metrum sunnan við höll öldungadeildarinnar í gamla bænum, 50 metrum norðan við Corso Vittorio Emanuele II.
Veitingahúsinu er skipt í langa ganga með sófum og lágum borðum á annan veginn og flöskurekkum á hinn veginn. Loftið er gamalt og útskorið með nöktum ljósaperum, veggir eru úr grófri og misjafnri steinahleðslu og vínflöskurnar hafa ekki verið rykþurrkaðar áratugum saman.
Við prófuðum misticanza con neretti, ígulkerjasalat; farfalla di spigola, grafinn haf-urriða; tagliolini alla cardinale, pastareimar með sveppum; vermicello pomodoro verde, grænt spaghetti með osti; portafoglio con funghi, kálfakjötsneiðar vafðar um spínat, með brokkáli og rósakáli; granatina di filetto, kálfakjötbollur með litlum tómötum á stóru salatblaði; creme brulée allo zenzero, karamelluskorpubúðing með þeyttum rjóma; pastiera di castagne, hnetufroðu með þeyttum rjóma.
Hér fá herrar bláa matseðla, þar sem verð er skráð. Dömur fá hins vegar bleika seðla, þar sem ekki er skráð verð rétta, heldur hitaeiningafjöldi. Meðmæli dagsins eru ekki hin sömu á þessum seðlum, enda ætlast Renato Sentuti til að fínar dömur borði annað en grófir karlar.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 160.000. Vínlisti er góður. (Papà Giovanni, Via dei Sediari 4, sími 68.65.308, lokað sunnudaga)
Passetto
Passetto er traust veitingahús af gamla skólanum, með ekta fullkomnum ítölskum þjónum, í gamla bænum, um 100 metrum frá Piazza Navona. Þar er maturinn borinn fram á fötum eins og tíðkaðist í gamla daga.
Hátt er til lofts í löngum sal, þægilegur korkur á gólfi, miklir speglar á einum langvegg og undarleg veggmálverk á hinum á móti, viðarklæðning upp á miðja veggi. Innar er salur í hefðbundnari stíl.
Við prófuðum pasta e fagioli ai frutti di mare, sem reyndist vera pönnukaka, vafin utan um fiskhakk og bökuð með osti og tómatsósu; zuppa di cozze, kræklingasúpu með skeljunum í; filetto al pepe verde, nautapiparsteik með spergli; og creme brûlé, karamelluskorpubúðing og eplaköku af eftirréttavagni.
Zuppa di cozze er vandlega elduð súpa. Olía, laukur og tómatar eru látnir krauma í potti, síðan er vatn látið sjóða með maukinu og síðast er kræklingurinn látinn opnast í súpunni um leið og hún er borin á borð.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 130.000. (Passetto, Via Zanardelli 14, sími 65.40.569, lokað sunnudaga og í mánudagshádegi)
Piccola Roma
Piccola Roma er í gamla bænum, rétt við ítalska þinghúsið, um 200 metrum frá Corso, jafnan önnum kafið, því að þingmenn og þrýstendur, fréttamenn og fulltrúar þurfa jafnan að flýta sér og hafa frakkana tilbúna á stórum snögum við borðin.
Eins og mörg fyrirmyndar-veitingahús Rómar reynir Piccola Roma að láta fara lítið fyrir sér að utanverðu. Að innan er það samtals nokkuð stórt, í nokkrum smásölum á annarri hæð. Múrsteinn er upp á miðja veggi og þar fyrir ofan eru tilviljanakennd og undarleg málverk og plaköt. Vínflöskuhilla myndar rönd þvert yfir veggina.
Við prófuðum prosciutto di San Daniele, reykta og hráa skinku bragðsterka, sem kom í miklu magni, borin fram með fíkjum; risotto pescatore, bragðsterkan hrísgrjónarétt með smokkfiski og kræklingi; abbacchio forno, gott lambakjöt, mikið steikt, með ristuðum kartöflum; og gelato, þrenns konar ís, með súkkulaðimintu, vanillu og mokka.
Prosciutto er einn af einkennisréttum Ítalíu. Frægust í útlöndum er skinkan frá Parma, en á Ítalíu er skinkan frá San Daniele í ekki síðra áliti. Skinkan er jafnan skorin í næfurþunnar og víðáttumiklar sneiðar. Erlendis er þekktast að bera skinkuna fram með melónu, en Ítalir eru mikið fyrir að hafa ferskar fíkjur með henni og er það enn ljúfari kostur.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 70.000. Plastkort eru ekki tekin gild. (Piccola Roma, Via Uffici del Vicario 36, sími 67.98.606, lokað sunnudaga)
Piperno
Piperno er notalegur og fallegur veitingastaður með afar góðum mat í skuggalegu sundi í gyðingahverfi miðbæjarins, beint undir múrum Censi-hallar, um 50 metrum frá Tiburbökkum.
Veitingasalurinn er víður, með skenk á miðju gólfi. Innréttingar eru hinar vönduðustu, viðargólf og viðarloft, veggþiljur upp á miðja veggi og risastór málverk af gömlum rústum á mosagrænum veggjum þar fyrir ofan. Fyrir innan er annar salur hversdagslegri.
Við prófuðum sérgrein staðarins, carciofi alla giudia, olíusteiktan ætiþistil að hætti gyðinga; filetti di baccalà, djúpsteiktan saltfisk, vel útvatnaðan og bragðmildan; og le palle de nonno fritte, djúpsteiktan ricotta-ost með súkkulaði undir smjördeigsþaki.
Ætiþistlarnir eru opnaðir og flattir, skornir kruss og þvers, djúpsteiktir í olíublöndu, sem er leyndarmál staðarins. Að matreiðslu lokinni eru þeir gullnir að lit og minna á blómhnappa. Þessi réttur staðarins hefur hlotið frægð úti um heim. Flest veitingahús hverfisins bjóða carciofi alla giudia.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 100.000. (Piperno, Via Monte de’Cenci 9, sími 65.40.629 og 65.42.772, lokað sunnudagskvöld og mánudaga)
Rosetta
Bezta fiskihús Rómar og eitt helztu matarmustera borgarinnar er Rosetta, í gamla bænum um 100 metrum norðan við Pantheon, þar sem við verðum að hringja bjöllu til að komast inn.
Með aukinni frægð hefur þessi litli veitingastaður Riccioli-bræðra frá Sikiley smám saman orðið fínni og vandaðri að útliti en hann var, þegar við uppgötvuðum hann fyrir rúmum áratug. Innréttingar eru virðulegar, með áberandi skenk, þar sem er blóma-, ávaxta- og vínflöskuskrúð. Fyrir enda salar er komið fiskalistaverk úr brenndum flísum. Því miður hefur líka borizt hingað niðursoðin tónlist, sem annars er sjaldgæf í veitingahúsum Rómar.
Við prófuðum cappesante ai carciofi, hörpufisk með ætiþistli; spigola macinata al arancia, kryddleginn hafurriða í appelsínu- og sítrónusafa; scampi insalata, stórar rækjur með grana-osti og hundasúrublöðum; rombo griglia, grillaða slétthverfu; polipo griglia, grillaðan kolkrabba; macedonia di frutta, blandaða ávexti ferska; og sorbetto, sítrónukrap.
Á þessum stað er óhætt að borða skelfisk. Meðal skeljategunda, sem oft fást, eru arselle og vongole, smáskeljar; cappe og cappesante, hörpudiskur; cozze og muscoli, kræklingur.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 180.000. (Rosetta, Via della Rosetta 8-9, sími 68.61.002 og 65.48.841, lokað laugardaga og sunnudaga)
Sabatini
Sabatini er vinsæll ferðamannastaður, en samt mjög góður, í litlu göngusundi um 10 metra frá torginu Piazza Santa Maria in Trastevere, sem er á vinstri bakka Rómar, í fyrrverandi verkamannahverfi, sem er að breytast í uppahverfi. Systurstaður með sama nafni er við torgið sjálft og þykir nokkuð góður líka. Báðir eru miklir stemmningsstaðir, þekktastir fyrir fiskimatreiðslu.
Þungamiðja veitingahússins er við grilleldunarofninn og diskinn, sem við förum framhjá, þegar okkur er vísað inn í einhvern hliðarsalanna. Í miðjunni er þröng á þjónaþingi, en í hliðarsölunum er andrúmsloftið heldur rólegra. Þar er gamalt, málað viðarloft með trébitum. Veitingahúsið hefur verið notað sem svið í Fellini-kvikmynd.
Við prófuðum trippa alla romana, pönnusteikt kálfavinstur í tómatsósu með mintu og pecorino-osti; crespolini, pönnukökur fylltar spínati, osti, eggi og lifur; costata di bue, nauta-millirifjasteik; og tiramisú súkkulaðibúðing.
Trippa er alls ekki seigt, ef það er rétt eldað, svo sem var á Sabatini, heldur hinn ljúfasti matur, enda er þetta eins konar þjóðarréttur á stórum svæðum frá Róm til Flórens. Að borða ekki vinstur í Róm er eins og að borða ekki saltkjöt og baunir á Íslandi.
Pecorino er harður sauðaostur, sem minnir á grana (parmesan).
Tveggja manna máltíð kostaði L. 130.000. (Sabatini in Trastevere, Vicolo Santa Maria in Trastevere 18, sími 58.18.307, lokað þriðjudaga)
Taverna Giulia
Taverna Giulia er notalegt veitingahús með Lígúríu-matreiðslu og góðri þjónustu vestast í gamla bænum, þaðan sem brýrnar liggja yfir til Péturskirkju og Vatíkans, frægt fyrir góðan spergil árstíðarinnar.
Veitingahúsið er í nokkrum smásölum, sem eru hver inn af öðrum. Lág klæðning er neðst á ljósum og grófum veggjum.
Smíðajárnsskreytigrindur eru í bogum milli borðsvæða. Gestir sitja í þægilegum tágastólum með lausum sessum.
Við prófuðum trenette al pesto, flatt pasta með Ligúríu-sósu; lasagnette ai funghi porcini, litlar pastaplötur með boletus-sveppum; ravioli genovese, pastaumslög utan um blöndu af ýmsum innmat lamba og kálfa; tagliatelle al gorgonzola, pastareimar með gráðosti; vitello stracotto alla Genovese, breiðar og þunnar kálfasneiðar hvítvínssoðnar með lauksósu; faraoni di Giomnes all’arancio, perluhænu með þunnri appelsínusósu og pönnusteiktum seljustöngli; og pacciugo, ferska ávexti og ber með krapi.
Pesto er fræg og bragðsterk sósa frá Ligúríu, oftast græn á litinn, búin til úr basilíkum, hnetum, hvítlauk og miklu af hörðum matreiðsluosti, grana eða pecorino. Ligúría er ströndin umhverfis Genova, þekkt fyrir sérstæða matreiðslu, sem er milli franskrar og ítalskrar.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 90.000. (Taverna Giulia, Vicolo dell’Oro 23, sími 68.69.768 og 65.64.089, lokað sunnudaga)
Vecchia Roma
Í miðju gyðingahverfinu í gamla bænum, um 300 metrum frá tröppunum upp á Capitolum, er þekkt veitingahús, sem hefur maísrétti að sérgrein. Það er Vecchia Roma, eitt af mörgum með því nafni, en er hið eina rétta þeirra.
Matstaðnum er skipt í nokkrar litlar stofur með ljósri viðarklæðningu, stórum málverkum frá gömlum tíma og fínum tágastólum, járngrindum fyrir gluggum og kertastjökum úr smíðajárni.
Við prófuðum calamaretti affogati all’uvetta, nokkra heilsteikta, litla kolkrabba í olíu, með hundasúrublöðkum og tómati; polenta ghiottona, maísgraut, sem minnti í útliti á kartöflustöppu, en heldur kornaðri og mun saltari, með saltfiski og kryddjurtum ofan á að hætti gyðinga; og polenta boscaiola, maísgraut með funghi porcini, boletus-sveppum ofan á.
Polenta var áður búin til úr hirsikornum, en eftir fund Ameríku hefur maís tekið við. Hún er búin til með því að sjóða maíshveiti í vatni, unz það þykknar og kögglast. Síðan er það kælt og skorið í sneiðar, sem venjulega eru steiktar, bakaðar eða grillaðar. Grautarformið í Vecchia Roma er fremur óvenjulegt.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 120.000. (Vecchia Roma, Via della Tribuna (Piazza) di Campitelli 18, sími 68.64.604, lokað miðvikudaga)
Vín
Sæmileg vín koma frá svæðunum umhverfis Róm, svo sem frascati, colli albani, cori, montecompatri, velletri, og zagarolo, sem öll hafa viðurkenningarstimpilinn D.O.C., denominazione di origine controllata. Þekktari og betri eru þó norðlægari vín, einkum frá Piemonte og Toskaníu, sem sum hver hafa ekki þennan stimpil.
Frá Toskaníu eru hér á landi einkum þekkt vínin chianti classico. Þaðan koma líka brunello di montalcino, vernaccia di san gimignano og svo auðvitað venjulegt chianti. Á síðari árum hafa tignanello og sassicaia orðið fræg.
Frá Piemonte þekkjum við aðallega barolo. Þaðan koma líka barbaresco, barbera, dolcetto og grignolino. Ágæt vín fást einnig í Róm frá öllum öðrum héruðum þessa mikla vínræktarlands, sem Grikkir kölluðu Vínland, önotria. Almennt séð eru rauðvín traustari og betri en hvítvín.
Kaffihús
Ítalir eru mesta kaffimenningarþjóð heims og drekka allt sitt kaffi nýmalað úr espresso-vélum. Þeir drekka kaffið oftast espresso eða caffè, þrælsterkt; doppio, tvöfaldan skammt af slíku kaffi, eða cappucino, sterkt kaffi blandað og þynnt með loftþeyttri mjólk, en sjaldan americano, kaffisull eins og við notum. Þeir drekka kaffið yfirleitt við barinn, sem er mun ódýrara en að fá það afgreitt á borð.
Alls staðar eru kaffihús í Róm. Þekktasta kaffihúsið er Caffè Greco við tízkuverzlanagötuna Via Condotti, náægt endanum við Spánartröppur. Það var stofnað 1760 og hefur síðan verið áningarstaður rithöfunda og listamanna.
Við Piazza del Popolo er Rosati á 5a og Canova á 16. Við Piazza Navona er Tre Scalini á 28 og Colombia á 88. Við Piazza Campo dei Fiori er Om Shanti á 53. Við Largo di Torre Argentina er Bernasconi á 1. Við Via Veneto er Café de Paris á 90 og Doney á 145. Við Piazza Sant’Eustachio er Sant’Eustachio.
1991
© Jónas Kristjánsson