Röngum aðferðum beitt.

Greinar

Fyrsta áratug þessarar aldar hafði Íslandsráðherra sextánföld verkamannalaun og sæmilegur kaupmaður hafði tuttuguföld verkamannalaun í hreinar tekjur. Þá voru árstekjur verkamannsins 500 krónur, ráðherrans 8.000 krónur og kaupmannsins 10.000 krónur.

Með vaxandi velmegun á þessari öld jöfnuðust tekjur manna og stéttaskipting minnkaði. Þjóðfélagið varð smám saman að einni stórri miðstétt. Sárafáir voru bónbjargamenn og sárafáir ofsaríkir í þeim stíl, sem þekktist í útlöndum. Íslendingar urðu jafningjar.

Líklega hefur þessi þróun náð hámarki snemma á sjöunda áratugnum. Sá tekjumunur, sem áður var tuttugufaldur, var þá ekki orðinn nema fimmfaldur. Íslendingar voru stoltir af því að hafa komið sér upp þjóðfélagi, þar sem stéttaskipting var að mestu úr sögunni.

Síðustu árin hafa svo sézt merki þess, að tekjuskipting og stéttaskipting fari vaxandi á nýjan leik. Hún felst ekki í, að hinir bezt stæðu hafi stungið fjöldann af, heldur í hinu, að hinn vel stæði fjöldi hefur skilið eftir um 10% þjóðarinnar í lífsgæðakapphlaupinu.

Breytingin varð hraðari eftir að þjóðartekjur fóru að minnka fyrir svo sem tveimur árum. Á þessum samdráttartíma hefur hinum vel stæðu tekizt að halda sínum lífskjörum, en samdrátturinn komið í auknum þunga niður á þeim, sem minnst mega sín í þjóðfélaginu.

Gagnaðgerðir stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins hafa mistekizt. Tilraunir til að þrengja launastiga hafa ekki borið árangur. Og samningsbundin eða lögbundin lágmarkslaun hafa gersamlega brugðizt þeim vonum, sem góðviljaðir menn hafa bundið við þau.

Enginn hefur ráðið við launaskriðið, sem eflist sjálfkrafa við þær aðstæður, sem verið hafa í tvö ár. Hinir betur settu hafa fengið kjarabætur umfram aðra, af því að fyrirtækin vilja ekki missa þá. Þeir halda sínum lífskjörum meðan lífskjör annarra rýrna.

Í Þjóðhagsstofnun er áætlað, að launaskrið verði um 4% á þessu ári. Þar sem sumir njóta einskis launaskriðs, er prósentan í raun hærri hjá þeim, sem skriðsins njóta. Og þetta launaskrið gerir meira en að éta upp möguleika atvinnulífsins á að bæta lífskjörin.

Launaskrið er ekki hægt að banna. Það gerist af sjálfu sér, af því að sumir eru fyrirtækjunum mikilvægari en aðrir. Það getur verið vegna verðleika, menntunar, reynslu, forréttinda eða tilviljunar. Fyrirtækin sjá um, að þetta fólk fari ekki til starfa hjá öðrum.

Gagnaðgerðir stjórnvalda og aðila vinnumarkaðsins hafa ekki byggzt á niðurstöðum könnunar Kjararannsóknanefndar í vetur. Þar kom í ljós, að vandamálið var félagslegt. Hin fátæki tíundi hluti þjóðarinnar fólst í fjölskyldum einstæðra foreldra og barnmörgum fjölskyldum.

Ef frá eru taldir öryrkjar og ellilífeyrisþegar, geta aðrir haldið sér í hinni vel stæðu miðstétt, annaðhvort vegna verðleika, menntunar, reynslu, forréttinda og tilviljunar, – eða með aukavinnu, – eða með því að fyrirvinnur fjölskyldunnar eru fleiri en ein.

Bæði hér og annars staðar hefur margoft verið bent á, að vænlegasta leiðin til að bæta kjör undirstéttarinnar er annars vegar að auka elli- og örorkubætur og hins vegar að breyta niðurgreiðslum í fjölskyldubætur. Á þann hátt megi minnka stéttaskiptingu á nýjan leik.

Jónas Kristjánsson.

DV