Jeltsín Rússlandsforseti rís úr rekkju á nokkurra vikna fresti og rekur einhvern til að reyna að sýna fram á, að hann sé enn við völd. Þess á milli lætur hann reka á reiðanum. Og helztu fjármálajöfrar landsins berjast um leifarnar af fyrri verðmætum ríkis og þjóðar.
Jeltsín verður sér jafnan til skammar, þegar hann hittir útlendinga. Hann veit þá hvorki, í hvaða landi hann er, né um hvað er verið að tala. Sumpart stafar það af fornum og nýjum drykkjuskap og sumpart af öðrum sjúkdómum, sem hafa fylgt í kjölfarið.
Þegar forsetar Þýzkalands og Frakklands voru hjá honum um daginn, ímyndaði hann sér, að þeir þrír væru að gera með sér evrópskt bandalag gegn Bandaríkjunum. Hann talaði opinberlega um þessi meintu tímamót, en hinir forsetarnir brostu fánalega og fóru hjá sér.
Auðvitað er afleitt fyrir heimsbyggðina, að einu stærsta ríki þess og einu mesta kjarnorkuveldi þess skuldi vera stjórnað af aðframkomnum róna, sem ekki skipuleggur neitt og spilar pólitík eftir eyranu þá fáu daga í mánuði hverjum, sem hann er á fótum.
Jeltsín hefur um langt skeið verið óútreiknanlegur. Enginn hafði minnsta grun um, að hann tæki skyndilega upp á að reka Tsjernómyrdín forsætisráðherra, hvað þá alla stjórnina eins og hún lagði sig. Slík aðgerð dregur úr þeirri festu, sem nauðsynleg er við stjórnartauma.
Tsjernómyrdín var gefið að sök að hafa ekki greitt opinberum starfsmönnum laun á réttum tíma. Það hafði hann vanrækt, af því að næst á undan hafði honum verið skipað að halda verðbólgunni niðri til að tryggja framhaldið á innstreymi vestrænna peninga.
Afleiðing stjórnarfars Jeltsíns er, að Rússar eru nú verr staddir en þeir voru, þegar Sovétríkin sálugu hrundu af sjálfu sér. Í skjóli hans hafa fjármálafurstar sölsað undir sig mestan partinn af eigum ríkis og þjóðar og skilið þjóðfélagið eftir meira eða minna í rúst.
Fremstur fer þar í flokki Borís Berezovskí, sem hefur það umfram fursta á borð við Vladimír Pótanín að gæta fjárhagslegra hagsmuna forsetans sjálfs. Í leiðinni hefur Berezovskí sankað að sér sem svarar 360 milljörðum íslenzkra króna eða þrennum íslenzkum fjárlögum.
Undir verndarvæng Jeltsíns hefur dólgaauðvald leyst kommúnismann af hólmi. Eigur ríkis og þjóðar hafa verið gefnar auðjöfrum á enn grófari hátt en Síldar- og fiskimjölsverksmiðjur ríkisins á Íslandi voru gefnar kolkrabbanum, sem stjórnar íslenzkri flokkapólitík.
Á sama tíma hafa miðstéttirnar, sem jafnan eru hornsteinn lýðræðis, verið gerðar að öreigum í Rússlandi. Kjölfestuna vantar í þjóðfélag, þar sem annars vegar er fjölmennur öreigalýður og hins vegar auðjöfrar, sem skáka stjórnmálamönnum fram og aftur.
Tilviljanlegar og ruglingslegar tilskipanir að geþótta þjóna í Rússlandi sama hlutverki og lög og réttur gera í vestrænum löndum. Eina leiðin til að hafa mannsæmandi lífskjör er að komast í aðstöðu til að stela. Ástand af slíku tagi grefur að sjálfsögðu undan þjóðfélaginu.
Jeltsín hefur í senn rústað efnahag Rússlands og gert landið hættulegt umhverfi sínu. Í mannkynssögunni er slæm reynsla fyrir því, að misheppnaðir valdhafar grípa stundum til mannskæðra örþrifaráða út á við til að draga athyglina frá stjórnarfarinu heima fyrir.
Þess vegna brosa erlendir forsetar vandræðalega, þegar róninn í Kreml fer með fleipur á almannafæri. Þeir eru hræddir við, að sjúklingurinn fái annars flog.
Jónas Kristjánsson
DV