Röskun er góð

Greinar

Íslendingar eru stöðugt á faraldsfæti. Þeir kippa sér ekki upp við að taka saman föggur sínar og flutjast til annarra landshluta eða milli landa. Þeir hlusta ekki á lélega fræðinga, sem harma þessa röskun á háttum manna.

Um 60% þjóðarinnar eða samtals um 124.500 manns hafa fluzt búferlum milli landshluta á síðustu tólf árum. Hefur þetta síðasta tímabil samt þótt fremur rólegt í samanburði við fyrri áratugi aldarinnar þegar þjóðin flúði á mölina.

Athyglisvert er, að hinn hægfara flutningur fólks úr strjálbýli í þéttbýli og af landsbyggðinni til suðvesturhornsins er ekki nema brot af hinum gífurlega flutningi fólks milli landshluta, sem mældur var í tölum hér að ofan.

Tökum Vestfirði sem dæmi. Þeir töpuðu bókhaldslega séð 1.166 manns á þessum tólf árum. En í rauninni töpuðu Vestfirðir 7.687 manns og fengu 6.521 í staðinn. Niðurstöðutalan upp á 1.166 manns segir ekki nema brot af allri sögunni.

Við getum sagt sem svo, að Vestfirði hafi skort aðstæður til að halda 7.687 manns. En þeir hafa líka haft aðstæður til að krækja í 6.521 mann, því að sá mikli fjöldi hefur auðvitað verið að sækjast eftir einhverju.

Sumt af þessu er líklega sama fólkið, sem flyzt oft búferlum. En það breytir því ekki, að Íslendingar eru að meðaltali afar fúsir til að flytja sig um set og freista gæfunnar á nýjum stað, fjarri fyrri rótum.

Ef til vill er þetta sögulegur arfur þjóðarinnar. Forfeður okkar tóku sig upp í öðrum löndum fyrir ellefu öldum og lögðu í tvísýna ferð yfir úthafið til að setjast að í ókunnu landi. Það var gífurleg röskun á högum þeirra.

Í þá daga sóttust ungir Íslendingar líka eftir því að komast úr landi um árabil til að afla sér fjár og frama, áður en þeir komu aftur til að setjast í helgan stein. Sú röskun þótti sjálfsagt uppeldisatriði.

Konan Guðríður Þorbjarnardóttir sló þó öllum við með því að halda heimili í Ameríku, Grænlandi og Íslandi og hafa samt tíma til að heimsækja Rómaborg. Enginn jarðarbúi var jafnvíðförull á þeim tíma og þessi íslenzka kona.

Brezki sagnfræðingurinn Arold Toynbee hefur tekið Íslendinga sem eina röksemd kenningar sinnar um, að röskun sé einn helzti hvati eða þróunarvaldur menningarsögunnar. Hlutirnir gerist, þar sem fólk sé á faraldsfæti.

Hann telur, að ritlist Íslendinga á miðöldum hafi blómstrað sem afleiðing röskunarinnar að fara yfir úthafið, – að brjóta allar brýr að baki sér, – að yfirgefa norska eða brezka heiðardalinn og halda á vit hins ókunna.

Enn á okkar tíma eru Íslendingar að flytjast. Námsfólk lætur sér fátt um finnast, þótt það þurfi að yfirgefa ættingja og vini og halda með eina eða tvær ferðatöskur til ókunnra landa til margra ára námsvistar.

Og innanlands flytja menn sig um set í samræmi við breyttar aðstæður og nýja möguleika. Á meðan einn er að fara úr sveit á möl og annar af mölinni á suðvesturhornið eru tveir aðrir að fara þessa slóð í hina áttina.

Við skulum ekki trúa lélegum fræðingum, sem segja þessa röskun óholla. Við skulum hallast að hinum, sem segja, að stöðug röskun lífshátta okkar sé ein helzta forsenda efnahagslega og menningarlega öflugs þjóðfélags á Íslandi.

Jónas Kristjánsson

DV