Röskun er góð

Greinar

Brezki sagnfræðingurinn Arnold Toynbee getur Íslendinga í hinu mikla ritverki sínu “Study of History”, sem hefur haft töluverð áhrif á sagnfræði nútímans. Hann notar landnámsmenn Íslands sem dæmi til stuðnings kenningunni um, að hæfileg röskun sé góð.

Hann segir, að landnámsmenn hafi orðið að yfirgefa heimili, ættingja, vini og mestan hluta bústofns til að halda út í óvissuna yfir hafið. Þessi ögrun röskunar hafi verið forsenda þess, að norræn menning reis hátt einmitt á Íslandi, þar sem eddurnar og sögurnar urðu til.

Toynbee var raunar þeirrar skoðunar, að röskun gæti gengið of langt og nefndi sem dæmi landnám norrænna manna á Grænlandi og í Ameríku. Ögrun röskunarinnar hafi verið hæfileg í fólksflutningunum til Íslands, en of mikil á leiðinni lengra vestur um haf.

Toynbee nefnir mörg fleiri dæmi en það íslenzka til ítarlegs stuðnings þess kjarna máls síns, að hæfileg röskun sé mönnum og þjóðum holl. Frægasta dæmið í nútímanum er auðvitað síðari tíma landnám Evrópumanna í þeim heimshluta, sem nú heitir Bandaríkin.

Íslendingar hafa á tuttugustu öld sætt röskun, sem er meiri en önnur röskun þjóðarinnar allt frá níundu og tíundu öld, þegar röskun landnámsaldar stóð yfir. Það er flutningur þjóðarinnar úr strjálbýli í þéttbýli og stökk hennar úr landbúnaðaröld yfir í þjónustuöld.

Þessi röskun stóð eina öld. Árið 1890 bjuggu 89% þjóðarinnar í strjálbýli, en árið 1989 ekki nema 8%. Þetta er gífurleg röskun, sem hefur orðið skáldum og rithöfundum yrkisefni. Sagan af bóndasyninum, sem gerðist leigubílstjóri, hefur verið sögð ótal sinnum.

Hin gífurlega röskun þjóðarinnar á tuttugustu öld hefur ekki skert getu hennar til að mæta nýjum tíma og nýjum umheimi. Hún hefur ekki kaffært þjóðina í vandamálum eins og misheppnað landnám á Grænlandi og í Ameríku á sínum tíma, heldur eflt hana til átaka.

Röskunin var ekki talin valda sálrænu álagi og félagslegum vandamálum, fyrr en sálrænir og félagslegir vandamálafræðingar komust í tízku. Íbúar þéttbýlis eiga flestir rætur sínar í strjálbýli, en telja sig ekki hafa beðið tjón á sálu sinni við að breyta um vistform.

Röskunin hefur kostað gífurlega fjárfestingu á þéttbýlisstöðum en enginn talar í alvöru um, að fjárfesting liðinna áratuga í þéttbýli hafi verið óþörf eða of dýr. Samt segja byggðastefnumenn nútímans, að of dýrt sé núna að byggja yfir strjálbýlisfólk í þéttbýli.

Áratugum saman hefur þjóðin flykkzt úr sveitum á mölina. Fólk hefur látið sig hafa það, þótt það yrði að skilja eftir verðmæti og rætur í strjálbýli. Fólk freistaði gæfunnar, þar sem möguleikarnir voru, og varð fljótt almennt mun betur stætt en hinir, sem eftir sátu.

Á síðustu árum, einkum eftir 1960, hefur því verið haldið æ meira á lofti, að ekki megi raska búsetu á Íslandi. Það skapi fólki óþægindi að þurfa að raska högum sínum og að það kosti of mikið fé í uppbyggingu hús næðis, atvinnutækifæra og þjónustu í þéttbýli.

Þessi stefna kostar þjóðina stórfé. Í landbúnaði einum er árlega brennt um fimmtán milljörðum af fé skattgreiðenda í vonlausri baráttu við að hamla gegn náttúrulögmáli hinnar hagstæðu röskunar. Mjög fáir skilja, að bezt er, að röskunin fái að hafa sinn gang.

Eðlilegt er, að röskun þessarar aldar fái að finna jafnvægi sitt, án fyrirstöðu af okkar hálfu, svo að hún verði okkur sem hagstæðust, líkt og á landnámsöld.

Jónas Kristjánsson

DV