Rótgrónasti munurinn.

Greinar

Fólk skipast í stjórnmálaflokka eftir ýmsum hagsmunum og hugsjónum, sem mótazt hafa á þessari öld og tveimur hinum síðustu. Þessar sundurgreiningar eru afar ungar og rótlitlar í samanburði við muninn á hagsmunum og hugsjónum karla annars vegar og kvenna hins vegar.

Um aldir og árþúsund hafa þjóðfélögin, sem eru að baki hins vestræna nútímaþjóðfélags, notazt við tiltölulega fastmótaða verkaskiptingu kynja. Konan hefur unnið á heimilinu eða í nágrenni þess, en karlinn hefur unnið í meiri fjarlægð. Þetta endurspeglast í mörgu.

Hann hefur verið tiltölulega hreyfanlegur, en hún stað bundin með börnin. Hann hefur litið út á við, en hún inn á við. Hann hefur tekið áhættu, en hún viljað öryggi. Hann hefur verið í sókn gagnvart spennandi umheimi, en hún í vörn gegn þessum sama, ógnvekjandi umheimi.

Hann hefur viljað stríð og farið með hernaði, en hún hefur hafnað stríði og mátt þola hernað. Hann hefur verið maður vígbúnaðar, en hún maður friðar. Hann hefur stutt og stundað samkeppni, en hún samvinnu. Hann hefur trúað á mátt sinn og megin, en hún þurft að vernda lítilmagnann, börnin.

Í nútímanum leiðir þetta til meiri áherzlu hans á atvinnulíf og hennar á félagsmál. Hann vill framleiðslu verðmæta og hún dreifingu þeirra. Meðan hann talar um stóriðju og svigrúm til athafna, talar hún um skóla, tryggingar, heilsugæzlu og varnir gegn mengun.

Í atvinnulífinu leggur hann áherzlu á nauðsyn afkasta og hún á nauðsyn vinnuaðstöðu. Hann talar um bónuskerfi og hún um lágmarkslaun. Hann nær sér í launaskrið og hún krefst launajöfnunar. Hann er hálaunamaðurinn og hún er láglaunamaðurinn.

Engin stéttaskipting í tekjum er meiri en milli karla og kvenna. En skiptingin felst ekki aðeins í atriðum, sem snúa að framleiðslu og dreifingu verðmæta. Hún kemur líka fram í frítímunum. Karlarnir hafa löngum sótt sína karlaklúbba og konurnar eru farnar að stofna sína kvennaklúbba.

Á grundvelli þessa fjölbreytta mismunar, sem hér hefur verið rakinn, og annars, sem of langt mál væri að rekja í takmörkuðu rými, hefur hinum svokölluðu hörðu gildum karlsins verið stillt upp sem andstæðu við hin svonefndu mjúku gildi konunnar.

Þar sem karlinn hefur að mestu ráðið ferðinni á undanförnum öldum og árþúsundum, er ekkert skrítið, þótt hluti af kvenfrelsisbaráttu tuttugustu aldar felist í eins konar uppreisn mjúku gildanna gegn hinum hörðu. Sagnfræðin segir, að slíkt sé óhjákvæmilegt.

Að vísu hefur munurinn verið málaður nokkuð sterkum litum hér að ofan. Margar konur telja framleiðslu verðmæta merkilegri en dreifingu þeirra og margir karlar telja dreifingu verðmæta merkilegri en framleiðslu þeirra, svo að horft sé á aðeins eitt af mörgum ofangreindum dæmum.

Hitt stendur þá eftir, að munur karla og kvenna er mörg hundruð sinnum rótgrónara fyrirbæri en annar munur, sem veldur ágreiningi fólks og skiptir því í fylkingar. Ofan á líkamlegan mun kemur árþúsunda verkaskipting kynjanna í þjóðfélögunum, sem nútíminn byggist á.

Þess vegna er ekkert skrítið, þátt karlar og konur skipi sér sumpart í eigin stjórnmálaflokka, alveg eins og karlar og konur hafa skipað sér í eigin klúbba. Fremur er ástæða til að undrast, að ekki skuli vera meira um þetta en raun ber vitni um.

Jónas Kristjánsson

DV