Róttækasta grasafæðið lofað

Punktar

Á upphafsárum Náttúrulækningafélagsins voru menn misjafnlega harðir á línu grófrar grænmetisfæðu. Mildast var Jónasarfæðið, sem notað var og er á Heilsustofnun í Hveragerði. Sumir voru á strangara Waerlandsfæði, sem nefnt var eftir sænskum næringarfræði. Þeir hörðustu voru á Nolfi-fæði, sem nefnt var eftir dönskum lækni, er stofnaði frægan Humlegården, þar sem ekki mátti hita matinn í meira en 48 stig á Celcius. Nú er þessi harðasta útgáfa náttúrulækningafæðu komin í tízku í Kaliforníu auðvitað, þar sem Roxanne rekur samnefndan stað í Larkspur, svæði 944939, sími (415) 924-5004, með löngum biðlistum gesta. Þar fást ekki einu sinni baunir, pasta, hrísgrjón, mjólkurvörur eða egg, ekki einu sinni tofu. Patricia Wells, heimsfrægur veitingagagnrýnandi International Herald Tribune, heimsótti Roxanne og mátti ekki vatni halda af hrifningu. “Þú munt elska hvern bita”, segir hún. Ef einhver Íslendingur er á ferðinni, er hann beðinn um að rannsaka málið og senda skýrslu. Netfangið er jonas@hestur.is.