Munurinn á Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum er sá, að austan hafs eru trúarofstækismenn lokaðir inni í sértrúarsöfnuðum, en vestan hafs eru þeir við stjórnvölinn. Daglegar áminningarræður George W. Bush forseta eru gegnsósa af trúarlegum tilvitnunum hins endurborna, kryddaðar kotrosknum slagorðum úr kúrekamyndum, sem sannfæra múslima um, að hann sé í krossferð gegn þeim, enda datt orðið krossferð einu sinni upp úr honum. Hlutverk hins froðufellandi Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra er svo að kasta daglega skít í ráðamenn Vestur-Evrópu, rétt eins og hann eigi að tryggja, að þeir haldist sífellt sármóðgaðir. Orðbragðið í ræðum og viðtölum ráðamanna Bandaríkjamanna og talsmanna þeirra um framgöngu ráðamanna í útlöndum er grófara en áður hefur sézt í samskiptum ríkja. Enda sannfærast á fleiri um, að ruddalegir ráðamenn Bandaríkjanna séu mesta ógnunin við heimsfriðinn um þessar mundir.