Hversu miklu fé má verja af sameign landsmanna til að halda lífi í fólki, til dæmis gömlu fólki, sem á skammt eftir ólifað? Milljón krónur á mánuði, viku, dag? Þetta þykir mörgum sjálfsagt ruddaleg og óviðurkvæmileg spurning. En fyrr eða síðar kemur að því, að henni verður að svara.
Sjúkrakostnaður hækkar sífellt vegna nýrra uppgötvana og nýrrar tækni. Nýtt lyf getur framlengt ömurlegt ævikvöld um þrjá mánuði og kostar hundrað þúsund krónur á dag, samtals tíu milljónir. Á að nota þetta lyf samkvæmt forskriftinni, að lífið sé svo mikilvægt, að ekki verði metið til fjár?
Ljóst er, að þjóðfélagið telur sig ekki geta greitt hærra hlutfall af þjóðartekjum í sjúkrakostnað en nú er gert. Kerfið er þegar farið að bila, svo sem fram kemur í brottrekstri starfsfólks, lokun sjúkradeilda og lengri biðlistum eftir aðgerðum, sem margir telja afar brýnar.
Skynsamlegra væri að horfast í augu við fjárhagsvandann heldur en að láta tilviljanir ráða, hvað er skorið niður. Ekki þýðir að loka augunum fyrir því, að kerfið veitir á sumum sviðum lakari sjúkraþjónustu á þessu ári en hinu síðasta. Þannig hefur það verið í nokkur ár hið minnsta.
Við verðum að hafa manndóm til að velja og hafna og til að taka afleiðingunum. Sjúkraþjónusta er afar misdýr. Hægt er að stunda mikla heimahjúkrun fyrir sama fé og greitt er fyrir nýtt einkaleyfislyf í þrjá mánuði. Ekki dugir að stinga höfðinu í sandinn og segja ósvífið að tala um aura.
Heilbrigðisráðuneytið er sá aðili, sem ætti að reyna að setja fram forskriftir að forgangsröðun verkefna í sjúkrageiranum. Þar er því miður engin forusta, engin hæfni og enginn kjarkur til að gera neitt af viti. Ráðuneytið lætur reka á reiðanum frá einum glundroðanum til annars.
Landspítalann er sá aðili, sem ætti að hlaupa í skarð ráðuneytisins, af því að hann verður stofnana mest fyrir barðinu á getuleysi þess, svo sem frægt er af fréttum í vetur. Getur spítalinn sett fram forgangsröðum, sem byggist á skynsamlegu mati á árangri hvers kostnaðarliðar?
Um hvern kostnaðarlið verður að spyrja: Hver er árangur hans mældur í fjölgun góðra æviára, ekki mældur í fjölgun ömurlegra æviára? Síðan er skynsamlegt að gera tillögur um að sleppa útgjöldunum, sem koma óhagstæðast út í samanburðinum. En spítalinn þorir ekki fremur en ráðuneytið.
Stjórnmálamönnum og öðrum, sem vilja verja velferð fyrir ágangi auralausra stjórnvalda, stendur næst að leggja til forgangsröðun, sem tryggir hámarksárangur í velferð.
Jónas Kristjánsson
DV